Fyrirgef oss vorar skuldir

Á landsþingi Samfylkingarinnar voru settar nýjar áherslur í fíkniefnamálum. Þær eru nokkuð umdeildar.

Eftir því sem þeir sjálfir segja eru Samfylkingarmenn þeir einu sem hafa stefnu í fíkniefnamálum sem vit er í. Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær var rætt um einn þátt þessarar stefnu. Lúðvík Bergvinsson talaði þar fyrir þeirri hugmynd að smærri fíkniefnabrot ættu ekki að koma fram á sakaskrá. Í stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar segir nefnilega: „Landsfundurinn beinir því til þingmanna flokksins að þeir flytji frumvarp sem tryggir að minniháttar fíkniefnabrot verði ekki færð á sakaskrá eða tekin út eftir skamman tíma.”

Sem ein af aðaláherslum í fíkniefnamálum er þetta mjög sérstakt. Helstu rök Lúðvíks voru þau helst að menn gerðu nú mistök og það væri engin ástæða til að láta menn líða fyrir það til æviloka. Það er rétt að menn gera mistök og geta lent í vandræðum án þess að ætla sér það. Sumir lenda í fíkniefnum, aðrir lenda í ölvunarakstri og enn aðrir lenda í morðum. Hvers vegna ætti að láta menn líða fyrir það til æviloka þótt þeir geri smá mistök.

Það er rétt hjá Lúðvík að það er margt mikilvægara en að eltast við eða hengja einhverja smádópista en ég skil ekki að þetta sé ein af aðaláherslum Samfylkingarinnar í fíkniefnamálum. Hvort svona stór hluti Samfylkingarmanna er með smærri fíkniefnabrot á sakaskrá eða hvort með þessu eigi að breyta áherslum lögreglunnar svo viðbragðstími hennar í bráðaútköllum styttist er mér ekki ljóst, en hugsanlega er það hvort tveggja.

Það að refsað sé fyrir neyslu eiturlyfja og það sé skráð á sakaskrá hlýtur að eiga að hafa einhver fæliáhrif, en að sögn Lúðvíks mun það ekki breytast þótt þessi brot verði ekki færð inn á sakaskrá. Hugsanlega er það vegna þess að menn átta sig ekki á að þetta er bannað. Öll áhersla í forvörnum hefur verið á óhöllustu fíkniefna en síður bent á að þau séu ólögleg. Spurning um að segja bara öllum að þetta sé bannað og þá er það bara á hreinu.

Það má líka vera að hér hafi lýðræðisvæðing Samfylkingarinnar áhrif. Stefnan í framtíðinni gæti verið að fólk fái sjálft að velja hvað er á sakaskránni þeirra. Eða að þjóðin kjósi í dómsmálum, svona milliliðalaust dómskerfi.

Samfylkingarmenn hafa lengi hlegið að milljarðinum sem Framsóknarflokkurinn vildi setja í forvarnarmál, nú hafa þeir gefið frömmurum frábæran brandara til baka. Eftir að hafa lesið stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar kemur í ljós að þessi skynsamlega stefna þeirra í fíkniefnamálum er að fram fari skynsamleg umræða um þau, án fordóma og öfga. Með öðrum orðum að stefna að því að taka stefnu eftir að þeir hafa heyrt hvað öllum hinum finnst (og spurning um að gera eins og eina skoðanakönnun í leiðinni til að vera alveg viss). Ég hlakka til að taka þátt í þessari umræðu og bíð spenntur eftir næsta útspili Lúðvíks og félaga.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)