Áhrifamáttur stríðsfréttamynda

Ef ekki væri fyrir myndbirtingar af stríðsátökum hefðum við eflaust litla hugmynd um hvað fælist í stríði. Hugsanlega gerðu ýmsir sér rómantískar og gamaldags hugmyndir um stríðsrekstur með lúðraþyt og fánahlaupum!

Hér til hliðar gefur að líta mynd frá Víetnam á 7. áratugnum sem sýnir skelfingu lostin og brennd börn hlaupa undan napalmsprengjuárás Bandaríkjamanna. Af mörgum myndum sem sýndu hrylling Víetnamstríðsins höfðu fáar jafn mikil áhrif og þessi tiltekna mynd í þá veru að snúa áliti almennings gegn stríðsrekstrinum. Myndin endurspeglar í raun málflutning þeirra sem börðust gegn stríðinu um leið og hún sýnir með óyggjandi hætti þær þjáningar sem stríð hefur í för með sér fyrir saklausa borgara, og jafnvel hina saklausustu – börnin.

Síðastliðinn fimmtudag var hér í Deiglunni fjallað um myndbirtingar Morgunblaðsins og Stöðvar 2 af stríðsátökum í Afganistan í pistli sem bar yfirskriftina Skot í hausinn. Var þeim sjónarmiðum haldið á lofti að fjölmiðlar ættu að gæta velsæmis í birtingu mynda af stríðsátökum og Morgunblaðið gagnrýnt fyrir að fletja út á forsíðu sína mynd af líkamsleifum talibana sem fallið höfðu í alræmdri fangauppreisn. En geta slíkar myndbirtingar átt rétt á sér? Hvert er fréttagildið? Ræður sölumennska för?

Til allrar guðs hamingju höfum við hér á Íslandi aldrei upplifað hörmungar allsherjarstríðs að neinu ráði – ef frá eru taldar árásir þýskra kafbáta á íslensk skip í seinni heimsstyrjöldinni – og í okkar heimshluta hefur fríður ríkt í tæpa sex áratugi. Ef ekki væri fyrir myndbirtingar á borð við þá sem þessum pistli fylgir og umrædda mynd á forsíðu Morgunblaðsins hefðum við eflaust litla hugmynd um hvað fælist í stríði. Hugsanlega gerðu ýmsir sér rómantískar og gamaldags hugmyndir um stríðsrekstur með lúðraþyt og fánahlaupum!

Það er nefnilega skylda blaðamannsins að upplýsa almenning með því að greina frá staðreyndum á hlutlægan hátt. Þess vegna þjóna umræddar myndbirtingar tilgangi sínum sem fréttaefni – stríð er hryllilegt fyrirbæri og blaðamenn væru að bregðast skyldu sinni ef þeir drægju einhvern dul á það.

Jafnvel þótt það kunni að vekja með okkur ónot, þá þurfum við að þekkja hörmungar stríðsreksturs. Af hverju? Af því að með slíkri almennri upplýsingu þjóðfélagsins ætti ákvörðun um að halda í stríð að verða afar þungbær. Við eigum að vera mótfallin stríðsrekstri, annað er ekki siðferðislega rétt. Þegar hörmungar stríðs eru öllum ljósar, eins og þær verða t.a.m. vegna umræddra myndbirtinga, þá hlýtur ákvörðun eða stuðningur við ákvörðun um að heyja stríð, að krefjast þess að tilgangurinn sé fórnarkostnaðinum mun miklu æðri.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.