Dómar í málum stríðsglæpamanna

Hæstiréttur Belgíu úrskurðaði í síðustu viku að hægt sé að höfða mál á hendur meintum stríðsglæpamönnum fyrir belgískum dómstólum, þótt glæpurinn hafi ekki verið framinn á belgískri grundu, og belgískir ríkisborgarar hafi ekki átt hlut að máli.

Hæstiréttur Belgíu úrskurðaði í liðinni viku að heimilt væri að sækja Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels til saka fyrir stríðsglæpi eftir að hann lætur af embætti. Samkvæmt belgískum lögum um allsherjarlögsögu má höfða mál fyrir þarlendum dómstólum á hendur þeim sem grunaðir eru um stríðsglæpi, hvar sem glæpurinn var framinn og ekki er nauðsynlegt að hinn grunaði sé staddur í Belgíu til að hægt sé að höfða mál á hendur honum fyrir stríðsglæpi. Þegar hafa verið höfðuð mál á hendur mönnum eins og Fidel Castro, leiðtoga Kúbu, Yasser Arafat, forseta palestínsku heimastjórnarinnar og Saddam Hussein, Íraksforseta.

Ef marka má fréttir þá hafa þessir menn ýmislegt á samviskunni og ef satt reynist er rétt að þeir verði látnir gjalda fyrir glæpi sína. Hins vegar má draga það í efa að heppilegt sé að það sé gert af dómstólum í ríkjum sem ekki eiga hefðbundna lögsögu í málum þeirra – sérstaklega nú þegar stutt er þar til Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn tekur til starfa.

Nokkur ríki, með Bandaríkin fremst í flokki, lýstu yfir efasemdum um hlutlægni Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins og sögðust óttast að hann yrði notaður í pólitískum tilgangi, þ.e. að í stað þess að raunverulegir stríðsglæpamenn yrðu þar ákærðir og dæmdir yrðu umdeildir stjórnmálamenn og hershöfðingjar þar dæmdir saklausir til að koma höggi á heimaland þeirra.

Þessi rök eiga öll við þegar einstök ríki ákveða upp á sitt einsdæmi að dæma í málum eins og þeim sem Belgar hafa í hyggju að taka upp. Ryðji þessi framkvæmd sér til rúms sér maður fyrir sér að ríki myndu dæma þjóðhöfðingja óvinaríkja sinna seka um stríðsglæpi, líkt og þegar páfar á fjórtándu öld bannfærðu hver annan, og þá yrði hver einasti Bandaríkjaforseti líklega dæmdur stríðsglæpamaður í ríkjum eins og Íran, Írak og Norður-Kóreu.

Það sem þetta hefði afar sennilega í för með sér er gengisfall hugtakanna „ „stríðsglæpur” og „stríðsglæpamaður”. Stríðsglæpir, eins og aðrir glæpir gegn mannkyni og mannúð, eru verstu afbrot sem nokkur manneskja getur framið. Það kæmi engum til góða ef dómar í slíkum málum yrðu eitt af mörgum vopnum í hinu eilífa alþjóðlega pólitíska valdabrölti og yrði slík þróun síst til þess fallin að heiðra minningu fórnarlamba raunverulegra stríðsglæpa.

Þegar réttað er í málum meintra stríðsglæpamanna, gerist það venjulega eftir mikla ógnaröld í einu, eða fleiri ríkjum. Réttarhöldin gegna ekki aðeins því hlutverki að koma lögum yfir afbrotamenn, heldur hjálpa þau almenningi til að ná sáttum við fortíðina, en slíkt uppgjör er mikilvægt eigi samfélagsleg uppbygging að eiga sér stað á ný.

Vegna þessa er heppilegast að stríðsglæparéttarhöld eigi sér stað í þeim ríkjum sem glæpirnir voru framdir í, en ef það er ómögulegt þá er hægt að höfða þau fyrir Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum. Fordæmi það sem Belgar hafa gefið, er varhugavert og ekki til þess fallið að þjóna réttlætinu, enda mun fólk sem dæmt er sekt um stríðsglæpi í Belgíu því aðeins þurfa að afplána refsingu að það stígi fæti á belgíska grund.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)