Góð fyrirheit

Fyrirheit Davíðs Oddssonar um skattalækkanir hafa vakið mikla athygli. Hvaða þýðingu hafa fyrirheit stjórnmálamanna almennt og af hverju ber sérstaklega að fagna þessu fyrirheiti Davíðs?

Þær skattalækkanir sem Davíð Oddsson forsætisráðherra boðaði í gær eru mikið fagnaðarefni. Fjölmiðlar veittu þessum fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar mikla athygli og sögðu fjör vera farið að færast í kosningabaráttuna, fyrirheit Davíðs hafði m.ö.o. verið kosningaloforð.

Stjórnmál snúast að miklu leyti um væntingar fólks og þess vegna eru loforð stjórnmálamanna sífellt í brennidepli. Það er nú einu sinni svo að ekki er mikill vandi að lofa en öllu erfiðara er að uppfylla loforð og væntingar vegna þeirra. Loforð stjórnmálamanna hafa þess vegna misjafnlega mikið vægi.

Loforð þeirra sem alkunnir eru fyrir að bera litla sem enga virðingu fyrir skuldbindingum sínum og loforðum hafa þannig tiltölulega lítið vægi í samanburði við loforð þeirra sem reynslan hefur sýnt fram að standa við orð sín og fyrirheit.

Af þessari ástæðu eru fyrirheit Davíðs Oddssonar um skattalækkanir sérstakt fagnaðarefni. Ekki vegna loforðsins sjálfs, heldur þeirrar vissu að fái hann og flokkur hans til þess umboð í næstu kosningum, verða þessi fyrirheit að veruleika.

Það rennir frekari stoðum undir þessa vissu að allar forsendur eru til staðar svo hægt sé að efna loforðið. Fjármál ríkisins hafa sjaldan eða aldrei staðið jafn vel og við horfum fram á mikla uppsveiflu í hagkerfinu. Hvorugt er tilviljun heldur uppskera árangursríkrar stjórnarstefnu. Loforð Davíðs er þannig ekki einasta gott fyrirheit heldur staðfesting á þeim árangri sem ríkisstjórn hans hefur náð á undanförnum árum.

Ég er ekki viss um að hyggilegt sé fyrir keppinaut Davíðs Oddssonar um forsætisráðherrastólinn að lofa miklu fyrir þessar kosningar. Það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður – og satt best að segja eru loforð forsætisráðherraefnis Samfylkingarinnar allt annað en ávísun á efndir. Henni er því væntanlega hollast að halda bara áfram að lofa góðu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.