Fátækt

Eftir að hafa fengið himninháan Eurocard-Atlas reikning sem nánast þurrkaði út alla stafina á bankabókinni fór ég að velta fyrir mér hvernig þetta myndi enda ef ég

byggi ekki í foreldrahúsum. Það búa þó ekki allir við slíkt öryggi.

Á Íslandi eru í dag um 6000 manns atvinnulausir sem fá um 70.000 kr. til framfærslu á mánuði. Margir búa við svipuð kjör s.s. þorri öryrkja (fjórir af fimm hafa undir eitthundrað þúsund á mánuði) og fjölmargir eldri borgarar. Er þetta nóg til að lifa mannsæmandi lífi, einkum ef fólk sem er á leigumarkaði, með húsnæðisskuldir eða hefur börn á sínu framfæri? Er hægt að gera betur við þennan stóra hóp?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur að margra mati sýnt þessum málaflokki lítinn áhuga. Ungur sjálfstæðismaður hélt því fram í blaðagrein nýverið að fátækt á Íslandi sé einfaldlega sjálfskaparvíti. Fólk geri ekki það sem gera þarf til að komst betur af. Þetta er hugsun sem er varhugaverð. Við sjálfstæðismenn eigum að ganga út frá því að fólk vilji komast á réttan kjöl. Annars erum við einfaldlega að afskrifa of stóran hluta þjóðarinnar.

En hvað getur ríkisstjórnin gert í málunum? Ríkistjórn Íslands undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur staðið sig frábærlega í að efla atvinnulífið og sýnt framfarahug. Það hefur vissulega skilað sér til þessarar hópa með aukinni atvinnu, auknum ríkistekjum ofl. Þessu virðist stjórnarandstaðan ekki átta sig á.

En sókn í atvinnumálum og umhyggja fyrir þeim er standa höllum v. aldurs, fötlunar eða atvinnumissis, útilokar ekki hvort annað.

Flokkurinn þarf að hvetja til frekari umræðu um fátækt fólk. Ég er ekki með svör við því hvað eigi að gera, en hins vegar er það hlutverk flokksins að móta trúverðugar tillögur. Einnig þarf nýjan hugsunarhátt. Láta til að mynda atvinnulausa vinna fyrir bótunum með ýmis konar samfélagsþjónustu t.d. með umönnun gamals fólks, fatlaðra, umhverfisumhirðu ofl. Ekki hef ég heyrt slíkar tillögur frá stjórnarandstöðunni.

Bág kjör setja mark sitt á líf fólks með ýmsum neikvæðum hætti sem geta verið samfélaginu dýrkeypt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt á brattan að sækja skv. skoðanakönnunum að undanförnu. Því er mikilvægt fyrir hann að víkka sjóndeildarhringinn, halda frumkvæðinu og sýna fólkinu í landinu umhyggju. Sýna það enn og aftur að hann sé flokkur allra stétta. Gera fátækt á Íslandi og sókn gegn henni að kosningamáli í komandi baráttu.