Afrek í afskekktri íþrótt

Íslendingar hafa mikinn áhuga á handknattleik enda eru margir bestu leikmenn heims frá Íslandi og íslenska karlalandsliðið er með þeim bestu. En þótt íþróttin sé skemmtileg þá virðist stærstur hluti heimsins hafa annað við tíma sinn að gera en að fylgjast með Ólafi Stefánssyni og félögum.

Árangur íslenska landsliðsins í handknattleik á HM var glæsilegur að vanda. Með öruggum sigri á Júgóslavíu var farseðillinn á næstu Ólympíuleika tryggður. Þessi góði árangur íslenska landsliðsins á alþjóðlegum handknattleiksmótum orsakast fyrst og fremst af tvennu. Annars vegar er það staðreynda að handknattleikur er mjög vinsæl íþrótt á Íslandi og hins vegar að hún er ekki vinsæl eiginlega neins staðar annars staðar.

Þegar maður elst upp á Íslandi er venjan að setja handbolta og fótbolta í sama flokk og nú á síðustu áratugum hefur körfuboltinn mjög sótt í sig veðrið og það var alltaf tilfinningin hjá manni að handboltinn væri ein af þessum stóru íþróttum – að HM í handbolta væri heimsviðburður, rétt eins og HM í fótbolta og að strákarnir okkar í handboltalandsliðinu væru miklu meiri íþróttamenn en fótboltamennirnir sem aldrei komast á EM, HM eða Ólympíuleika.

En heimurinn er víst ekki svona. Nýafstaðið heimsmeistaramót var spilað fyrir hálftómum eða tómum húsum (fer eftir því hvort maður er “glasið er hálftómt” týpa – eða “glasið er galtómt” týpa) og umgjörðin var öll hin vandræðalegasta. Sumar þjóðirnar, sérstaklega þær sem sent höfuð mjög roskið fólk til leiks, kvörtuðu undan skipulaginu og munu Svíarnir hafa gengið fremstir í flokki nöldurseggjanna, enda kom í ljós að hótelherbergin þeirra voru svo illa útbúin að þar voru ekki einu sinni næturgögn fyrir leikmennenina og í búningsklefunum var erfitt að athafna sig í göngugrind, sérstaklega ef fleiri en einn notast við slík tól.

Það þarf ekki að horfa lengi á Eurosport, CNN og Sky News til þess að komast að því hversu vinsæl handboltaíþróttin er. Þar er ekkert fjallað um heimsmeistaramótið í þjóðaríþrótt Íslands. Ekkert.

Ekki er það heldur til þess að auka tiltrúna á alþjóðlegri velgengni handboltans að sjá að jafnvel í stórleik eins og á móti Spánverjum þá virðast einungis íslenskir fyrirtækjaeigendur hafa áhuga á að nýta sér auglýsingaplássið á skiltunum í kringum völlinn. En þrátt fyrir þetta þá er handboltinn bæði spennandi og skemmtileg íþrótt og því í raun undarlegt að hann hafi ekki náð meiri útbreiðslu á heimsvísu. Leikurinn er hraður, það er mikið skorað, átökin eru hörð og tilþrifin oft stórbrotin. Þrátt fyrir þetta virðist heimurinn enn eiga eftir að uppgötva þessa ágætu íþrótt.

Vinsælustu boltaíþróttir í heimi eru blak, knattspyrna og körfuknattleikur. Handknattleikur er þar langt, langt fyrir aftan – fyrir neðan t.d. hafnarbolta, amerískan fótbolta og lacrosse ef litið er til fjölda iðkenda. Það sem háir handknattleiknum miðað við vinsælustu íþróttirnar er vafalaust allt umstangið sem þarf til þess að geta iðkað íþróttina. Einn maður getur leikið sér í körfubolta og ekki þarf marga til þess að geta skemmt sér vel í fótbolta og blaki. Til þess að geta spilað handbolta þarf hins vegar miklu meira til þ.á.m. einhvern sem er nógu brjálaður til þess að standa í markinu – og helst tvo.

En þrátt fyrir þessa vankanta á íþróttinni þá ætti hún samt sem áður að eiga möguleika á því að slá í gegn á heimsvísu. Wilt heitinn Chamberlain, sem er eini maðurinn sem skorað hefur 100 stig í einum leik í NBA deildinni, mun hafa hrifist mjög af handbolta á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og sagst ekki efast um að hann hefði valið þá íþrótt sem ungur maður ef honum hefði verið kunnugt um tilvist hennar. Ef slíkir hæfileikamenn tækju það upp hjá sér á unga aldri að velja handbolta um heim allan þarf ekki að efast um að íþróttin tæki stórt stökk upp á við (og íslenska landsliðið væntanlega stórt hrap niður á við).

Það getur verið að ekki þurfi mikið til þess að handknattleiksíþróttin geti náð góðri fótfestu á stærri mörkuðum ef vel er á málum haldið innan Alþjóðahandknattleikssambandsins. Það væri óneitanlega gaman ef fleiri en íslenskir íþróttaáhugamenn og evrópskir íþróttasérvitringar gætu fengið að njóta þess að fylgjast með íþróttasnillingi á borð við Ólaf Stefánsson.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.