Dramatískt slys

Hrap geimskutlunnar Columbia er mörgum þungt áfall. Slysið er þó í raun ekki sorglegra en hvert annað slys þótt dramatískt sé. Geimfararnir sem fórust með Columbia gerðu sér grein fyrir hættunni sem starfi þeirra fylgdi og dóu hetjudauða við að sinna starfi sem í augum margra er besta og eftirsóknarverðasta starf sem til er.

Hrap geimskutlunnar Columbia í gær var mikið áfall fyrir bandarísku þjóðina. Í kjölfar slyssins hafa forsvarsmenn bandarísku geimferðarstofnunarinnar lagt ofuráherslu á að koma því sjónarmiði áleiðis að þetta slys megi ekki verða til þess að mannaðar geimferðir verði aflagðar um langa hríð, eins og varð raunin eftir Challenger slysið fyrir 16 árum síðan.

Það er nokkuð áhugavert að velta fyrir sér hversu mikið áfall fólki þykir það þegar svo dramatískt slys á sér stað þótt ekki sé um mikinn fjölda látinna að ræða. Hin mikla umfjöllun veldur því að fólk veltir t.d. fyrir sér afdrifum fjölskyldna geimfaranna og upplifir miklu meiri tilfinningar vegna slyssins en í raun er rökrétt. Rándýrar rannsóknir verða gerðar til þess að komast að rótum slyssins, svo sem eðlilegt er.

Í raun er þó augljóst af hverju slys eigi sér stað í geimferðum. Skýringin er einfaldlega sú að geimferðir eru stórhættulegar og í raun er það ótrúlegt að í 113 ferðum geimskutla, af sömu gerð og Columbia, hafi einungis orðið 2 alvarleg slys. Álagið á vélunum er slíkt og þvílíkt að í raun er ómögulegt fyrir flesta að gera sér það í hugarlund en þegar Columbia átti 15 mínútur í lendingu þá var flaugin í 60 kílómetra hæð og á 18 földum hljóðhraða. Það er ekki lítið átak sem fylgir því að lenda vélinni og stöðva á svo skömmum tíma.

Í ávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar í gær lagði Bush forseti sérstaka áherslu á að ítreka fyrir þjóðinni að þeir sem gerðust geimfarar væru að taka að sér ákaflega áhættusamt verkefni og að geimfararnir tækju þá áhættu vitandi vits. Þótt slys, á borð við það sem átti sér stað í gær, séu ákaflega sorgleg og sjokkerandi þá má ekki gleyma því að daglega deyr ótölulegur fjöldi fólks úr slysförum um heim allan án þess að það vekji sérstaka eftirtekt. Þau fórnarlömb, sem deyja minna dramatískum dauðdaga, hafa þó e.t.v. ekki ætlað að taka meiri áhættu en að keyra út í búð.

Fjölskyldurnar sem eiga um sárt að binda vegna slyssins í gær geta huggað sig við margt og þá helst það að ástvinir þeirra fórust við iðju sem þeir höfðu mikla unun að – og að þeir hafi væntanlega allir gert upp við sig að þeir væru tilbúnir til þess að taka svo mikla áhættu og metið afraksturinn mikils. Slysið sem slíkt er því kannski ekki meira sorglegt en önnur slys þótt það sé dramatískara.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.