Vitleysa og illkvittni – annar kafli

Í kjölfar pistilsins „Í hvers nafni?” barst Deiglunni bréf frá Stefáni Pálssyni þar sem fundið er að flestu því er í pistlinum stóð. Er gagnrýni Stefáns Pálssonar svarað hér.

Fyrir réttri viku birtist á Deiglunni pistill eftir mig („Í hvers nafni?”) þar sem ég fjallaði um tengsl bandarísku friðarsamtakanna A.N.S.W.E.R. við stalíníska stjórnmálaflokkinn Workers World Party. Stefán Pálsson sá ástæðu til þess að senda ritstjóra Deiglunnar bréf þar sem hann amaðist við pistlinum. Þar sem Stefán Pálsson er sjálfur annálaður fyrir málefnaleg skrif, og hefur aldrei gerst sekur um persónuleg eða niðrandi ummæli um andstæðinga sína taldi ég rétt að svara gagnrýninni opinberlega.

Aðfinnslur Stefáns Pálssonar voru í sex liðum (þótt talningin hafi eitthvað vafist fyrir Stefáni Pálssyni, sem gefur tveimur liðanna sama númer) og mun ég svara hverjum þeirra fyrir sig. Ég tel þó óþarft að endurtaka gagnrýnina og bendi ég lesendum á að kynna sér málflutning Stefáns Pálssonar áður en lengra er haldið, en áðurnefnt bréf má finna hér. Tilvitnanir, heimildir og annan fróðleik má finna á þessari síðu, en ekki var rúm fyrir það í textanum sjálfum, sem er nógu langur fyrir.

i) Fullyrðingar um þátt ANSWER í skipulagningu mótmæla í öðrum ríkjum er fengnar af heimasíðu samtakanna sjálfra, en þar er tvisvar sinnum látið að því liggja að mótmælin þann 18. janúar hafi verið gerð að undirlagi bandarískra friðarsamtaka.

Nú má það vel vera að um rangfærslur sé að ræða hjá þeim ANSWER-mönnum, og þakka ég Stefáni Pálssyni fyrir að leiðrétta þær og styrkja þar með þá skoðun mína að þar fari menn sem ekki er treystandi.

ii) Hvað varðar heimildir fyrir þeirri fullyrðingu að ANSWER séu leppsamtök WWP, þá væri of langt mál að rekja þær allar hér og verð ég að vísa lesendum á áðurnefnda heimasíðu þar sem finna má fjölda blaðagreina þar sem fjallað er um þessi tengsl. Hins vegar get ég ekki fallist á þá fullyrðingu Stefáns Pálssonar að ég hafi ekki fært fram nein rök máli mínu til stuðnings, enda ætti það að vera hverjum manni ljóst sem les pistilinn.

Þá þykir mér merkilegt að Stefán Pálsson skuli telja þögn fjölmiðla um áðurnefnd tengsl sönnun fyrir því að þau séu uppspuni einn. Það er ekki ósjaldan sem maður les grein á Múrnum þar sem fjölmiðlar eru gagnrýndir fyrir að fjalla ekki um mál sem greinarhöfundum eru hugleikin. Varla myndi Stefán Pálsson fallast á þá röksemdafærslu að þögn fjölmiðla í þau skipti væri til komin vegna þess að frá engu fréttnæmu væri að greina.

iii) Hvað varðar tilvitnanir í málgagn WWP, Workers World, þá þjóna þær þeim tilgangi að sýna fram á hvers eðlis flokkurinn er. WWP er stalínískur öfgaflokkur, sem virðist tilbúinn að leggja blessun sína yfir hvaða mannréttindabrot og ógnarstjórn sem er, svo lengi sem viðkomandi harðstjórar séu andstæðingar Bandaríkjanna. Ég er á þeirri skoðun að slík samtök séu engu betri en nasistaflokkar, Ku Klux Klan eða einræðisherrarnir sem WWP styður. Fólk sem mætir í fjöldagöngur sem skipulagðar eru af slíkum aðilum á skilið að vita hverjum það er að veita stuðning sinn.

iv-a) Aðstandendur WWP gera sér grein fyrir því að reyndu þeir að standa fyrir mótmælaaðgerðum í eigin nafni yrðu undirtektirnar afar dræmar. Þess vegna eru samtök eins og ANSWER og IAC sett á stofn til að draga slæðu fyrir andlit þeirra sem á bak við þau standa. Þeir eru tilbúnir til að blekkja almenning til að koma málstað sínum á framfæri, sem segir margt um eðli fólksins sem í hlut á.

iv-b) Kemur málinu ekkert við.

v) Nú erum við loks komin að því sem máli skiptir og upphaflegur pistill minn fjallaði um. Það er ekkert að því að mótmæla hugsanlegu stríði við Írak. Það er réttur hvers borgara í lýðræðislegu ríki að tjá skoðanir sínar opinberlega og á friðsamlegan hátt. Ég tel það hins vegar aðfinnsluvert að þegar slík tjáning fer fram á samkomum sem WWP, eða einhver leppsamtaka þeirra standa fyrir.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að mikill meirihluti þeirra sem gengu í Washington og San Fransisco styðja ekki kommúnistastjórnina í N-Kóreu, eru ekki aðdáendur Milosevics og eru ekkert sérstaklega áfram um að lögreglumorðingjanum Mumia Abu-Jamal sé sleppt úr fangelsi. Hið gagnstæða á hins vegar við um WWP, sem mun nota þann mikla fjölda sem mætti í göngurnar til að koma málefnum öðrum en andstöðu við stríð gegn Írak, á framfæri. Með því að mæta á atburði sem skipulagðir eru af WWP, IAC eða ANSWER er fólk að vekja athygli á þessum samtökum, veita þeim aðgengi að fjölmiðlum og þar af leiðandi að færa þeim vald. Það er það sem ég gagnrýni, ekki mótmælagöngurnar sjálfar.

Eins og ég sagði í fyrsta pistlinum, er það friðarhreyfingunni það síst til framdráttar að láta WWP, eða leppgrúppur þeirra, ráða för í baráttunni gegn stríði við Írak. Stór hluti íbúa hins vestræna heims er á móti slíku stríði og því ætti hófsamari friðarsinnum ekki að verða skotaskuld úr því að hóa saman í mótmælagöngur án samráðs við stalínista eða aðra öfgamenn.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)