Það var aðdáendum Bubba Morthens mikil harmafregn þegar upplýst var að yfirmenn Rásar 2 hefðu ákveðið að útvarpa ekki beint frá árvissum Þorláksmessutónleikum skáldsins, eins og venja hefur verið mörg undanfarin ár. Auðvitað á Bubbi Morthens engan rétt á að opinber stofnun útvarpi frá tónleikum hans og skiptir í því tilliti engu máli hvort um hefð er að ræða eða ekki. Og enn og síður eiga aðdáendur hans heimtingu á slíkri þjónustu, en því miður eiga þeir bágt með sýna óánægju sína í verki, því uppsögn áskriftar er ekki inni í myndinni þegar nauðungarapparatið RÚV er annars vegar.
Það er því ekki ákvörðunin sjálf sem er gagnrýnisverð í þessu máli, heldur rökstuðningurinn á bak við hana. Fram hefur komið að yfirmennirnir hafi komist að þessari ákvörðun eftir að hafa ráðfært sig við lögfróða menn, vegna framgöngu Bubba á síðustu Þorláksmessutónleikunum, þar sem hann lét dæluna ganga lon og don og jós úr skálum reiði sinnar yfir ráðamenn þjóðarinnar, einkum Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra. Voru þetta vafalítið leiðinlegustu Þorláksmessutónleikar Bubba til þessa og af þeim sökum hefði verið hægt að sleppa útsendingunni umyrðalaust í þetta sinnið.
En með rökstuðningi sínum taka umræddir yfirmenn sér nokkuð fyrir hendur sem helst mætti líkja við ritskoðun. Að vegna umæla listamannsins um ráðamenn þjóðarinnar sé ekki annað hægt en að binda enda á útvarpsendingar af tónleikum hans á Þorláksmessu. Ef Ríkisútvarpið óttaðist málsókn vegna hugsanlegra ummæla Bubba Morthens á Þorláksmessutónleikunum, þá hefðu þeir átt að athuga sína lögfræði betur. Bæði Hæstiréttur og Mannréttindadómstóll Evrópu hafa með afgerandi hætti veitt tjáningarfrelsinu, einkum í listsköpun og þjóðmálaumræðu, afar ríka vernd og þyrfti eflaust eitthvað stórkostlega mikið að ganga á ef tjáningarfrelsið yrði skert á þessu sviði. Og ef svo færi að listamaðurinn færi yfir strikið, þá skal minnt á a-lið 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga, þar sem segir að flytjandi í útvarpi beri sjálfur ábyrgð á efni í eigin nafni.
En þessi afstaða yfirmanna Rásar 2 er líka sorgleg fyrir þær sakir, að hana er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að pólítísk listsköpun sé óeðlileg og hana beri að útiloka. Það er nefnilega einn helsti vankantur íslenskrar þjóðmálaumræðu hversu lítinn pólítískan boðskap er að finna í verkum íslenskra listamanna. Það skal tekið skýrt fram að pólítískur boðskapur Bubba Morthens á ekki upp á pallborðið hjá þeim er þetta skrifar, og raunar er þessi boðskapur mestmegnis tóm þvæla. En það er á engan hátt samrýmanlegt lýðræðishefðum að útiloka boðskap sem okkur kann að finnast óþægilegur eða endemisvitleysa.
Það er á allan hátt skiljanleg ákvörðun hjá yfirmönnum Rásar 2 að útvarpa ekki frá Þorláksmessutónleikum Bubba Morthens. En rökstuðningur þeirra er því miður vísbending um algjört skilningsleysi á mikilvægi tjáningarfrelsisins og ber vott um litla þekkingu á réttarlegri stöðu þess. Ef þeir hefðu bara haldið sig að segja að Bubbi væri einfaldlega ekki nógu góður, og sleppt allri lögfræði, þá hefði ekki verið eitt eða neitt upp á einn eða neinn að klaga.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021