Ein Evrópa – en hver?

Um síðustu helgi voru stór tímamót þar sem samið var um inngöngu 10 nýrra ríkja í Evrópusambandið. Á þessum tímamótum er eðlilegt að staldra aðeins við og velta fyrir sér hver framtíð Evrópusambandsins er og hvernig það mun þróast.

EvrópusambandiðUm síðustu helgi var merkilegur fundur í Kaupmannahöfn þar sem samningar náðust um inngöngu 10 ríkja í Evrópusambandið, en áður voru ríkin 15. Auk þess er fljólega gert ráð fyrir að tvö önnur ríki bættist í hópinn, og mun þá fjöldi Evrópusambandsríkjanna hafa tæplega tvöfaldast. Á sama tíma og verið var að semja um þessa hluti í Kaupmannahöfn voru fjölmargar hliðarráðstefnur og ein þeirra fjallaði um framtíð Evrópusambandsins.

Mörg ríki banka á dyr Evrópusambandsins og vilja ganga inn. Ríki eins og Austur-Evrópuríkin, Balkanlöndin og lönd í Asíu og Afríku við Miðjarðarhafið, hafa óskað eftir viðræðum um inngöngu. Því má ætla að innkoma þessara 10 ríkja marki ekki bara endi á stækkun sambandsins, heldur upphaf að innkomu fleiri ríkja.

Vangaveltur eru hins vegar um hvaða skilyrði þessi ríki þurfa að uppfylla. Þurfa þessi ríki til dæmis að öllu leyti að tilheyra Evrópu landfræðilega eða er nóg- eins og með Tyrkland- að einungis hluti landsins sé innan Evrópu? Ísrael ásamt fleiri löndum utan Evrópu hafa lýst yfir áhuga á að ganga inn í Evrópusambandið. Eiga þau lönd möguleika á inngöngu í sambandið, þrátt fyrir að vera ekki í Evrópu og eiga fátt menningarlega sameiginlegt með Evrópuríkum?

Er kannski frekar verið að horfa á menningarleg eða trúarleg gildi? Enn sem komið er, er ekkert múslimskt land innan Evrópusambandsins, en hins vegar hafa lönd eins og Albanía, Kosovo og Tyrkland ýmist lýst yfir áhuga á inngöngu eða eru komin í inngönguferlið.

Á sama tíma var verið að velta fyrir sér hvort sambandið muni stefna í austur, eða hvort við munum einhvern tímann sjá stór ríki frá fyrrverandi Sovétríkjunum sem hluta af Evrópusambandinu? Sérstaklega er litið til landa eins og Úkraínu sem er með um 50 milljónir íbúa og myndi hafa gríðarleg pólitísk áhrif á Evrópuþinginu.

Þegar talað er um eina sameinaða Evrópu er allt í lagi að staldra við eitt augnablik og velta því fyrir sér hvað þetta felur í sér. Eru allar þjóðir jafn velkomnar inn í sambandið svo lengi sem þær uppfylla stjórnmálaleg, mannúðarleg og efnahagsleg skilyrði sem Evrópusambandið setur? Þetta er spurningin sem Evrópusambandið stendur nú frammi fyrir. Hver er eiginlega þessi sameinaða Evrópa?

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.