Strákarnir í Heimdalli

Tvennt hefur aðallega verið til umræðu að loknu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík: Góð útkoma unga fólksins og slæm útreið kvenna. Það er hins ekki hægt að ræða um þetta sem tvo óskylda atburði. Niðurstöður prófkjörsins gefa til kynna að staða kvenna í ungliðahreyfingu flokksins sé veik. Þegar horft er á Heimdall utan frá er stundum hægt að fá það á tilfinninguna að um strákaklúbb sé að ræða.

Af Söguvef Heimdallar á Frelsi.isÞað er ekki skoðun undirritaðs að það eigi vera takmark með jafnréttisbaráttu að hlutföll milli kynjanna séu alls staðar og ávallt jöfn. Hlutföllin eru fyrst og fremst mælikvarði á framgang jafnréttisbaráttunnar. Ef við göngum út frá því að kynin séu jafnhæf til að gegna ákveðnu starfi þá má rökstyðja að þegar ráðið er í störf eftir hæfni eingöngu eru mestar líkur á að hlutföll milli kynjanna verði jöfn. Þetta virkar hins vegar ekki í hina áttina, jöfn hlutföll tryggja okkur ekki sjálfkrafa hæfasta starfsliðið. Þar liggur villan hjá þeim sem hallast að hvers kyns kynjakvótum. Kynjakvótar ráðast á mælikvarðann en ekki á vandamálið sjálft. Þetta er svipað og maður með hita mundi fikta við hitamælinn í stað þess að leggjast í rúmið.

Í prófkjörinu tóku þátt sjö einstaklingar sem talist geta til ungliða. Þar af voru fjórir karlmenn og þrjár konur. Allir ungu karlmennirnir lentu á undan ungu konunum þremur. Allir. Nú segi ég ekki að óhugsandi sé að þeir hafi allir verið hæfari til þingsetu en konurnar en það er hins vegar ólíklegt út frá tölfræðilegu sjónarhorni.

Maður á auðvitað erfitt með að trúa því að einhver hafi verið að kjósa Sigurð Kára vegna þess að hann sé karlmaður. Hins vegar er hægt að fullyrða að allir karlmennirnir hafi verið þekktari andlit, ef svo má segja, og t.d. of komið fram fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í fjölmiðlum. Vandamálið snýst því ekki endilega um hvort menn hafi verið að kjósa besta fólkið á kjördag heldur almennt um hver staða ungra kvenna innan Heimdallar sé.

Málgagn Heimdallar heitir frelsi.is. Hve margar konur eru taldar upp sem „frelsispennar“ á því vefriti? Ein! Síðast birti hún grein í júní 2001. Ef til vill er listi yfir pennana ekki tæmandi en í öllu falli er liðið eitt og hálft ár síðan að kona fékk að birta pistil á vefriti ungmennafélags stærsta stjórnmálaflokksins í stærstu borg landsins.

Hins vegar er ekki svo að hægristefna höfði almennt illa til ungra kvenna. Fjölmargar konur starfa til dæmis innan Vöku, sem er hægra megin við andstæðinga sína, samtök félagshyggjufólks, í stúdentapólitíkinni, og einnig eru nokkrar stelpur sem halda uppi vefritinu Tíkinni. Það er því ekki eins og það almennt vanti hægrisinnaðar konur á Íslandi. Vandamálið er að kraftar þeirra eru ekki nýttir. Konur skrifa ekki á Frelsi, konur eru ekki sendar í fjölmiðla sem málsvarar félagsins.

Það er ágætt að hægrisinnaðar konur haldi uppi eigin vefriti. Í stórum flokki er eðlilegt að til verði minni fylkingar, hver með sínar áherslur. En þá er það hlutverk móðurfélagsins að hafa breiðari skírskotun og höfða til allra félagsmanna. Heimdallur virkar hins vegar eins og ein slíkra minni fylkinga en ekki félag allra ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég bendi til dæmis á grein eftir Sigurð Guðmundsson sem birtist á Frelsinu stuttu fyrir prófkjörið:

Við þurfum meira af ungu fólki á Alþingi enda treysti ég engum betur til að gera vel við námsmenn. Birgir Ármanns fer í 6. sæti, Sigurður Kári Kristjánsson í 7. sæti, og Ingvi Hrafn í 8. sæti. Allt toppmenn.

Það er ótrúlegt að málgagn Heimdellinga skuli lýsa stuðningi við „strákana sína“ svona stuttu fyrir kjördag. Ekki var minnst á ungu konurnar sem einnig tóku þátt í prófkjörinu.

Vandamálið er að Heimdallur virkar sem frekar lokaður klúbbur fólks með sérstakan áhuga á frjálshyggju, ESB-andstöðu og velferð Repúblikanaflokksins. Aðrar skoðanir rúmast ekki þar inni eins og sjá má á Frelsisgreinum undanfarinna missera sem hafa verið með eindæmum einhæfar. Félagið skortir breiðari skírskotun en í dag virkar það eins og hálfgert leynifélag. Bág staða ungra kvenna er ein birtingarmynd þess.

***Athugasemd***
Deiglunni hefur borist athugasemd er varðar efni þessa pistils. Í pistlinum er sagt að einungis einn pistill hafi birst eftir konu á síðustu átján mánuðum. Hið rétta mun vera að þeir séu þrír.

Ritstj.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.