Mannréttindadagurinn

Rétturinn til að leita sér hælis í öðru landi er tryggður í 14. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og í tilefni mannréttindadagsins, sem minnst er í dag, skulum við velta vöngum nánar yfir stefnu Ástrala í málefnum flóttafólks en Ástralir hafa verið harðlega gagnrýndir síðustu ár fyrir framgöngu sína í þessum málaflokki.

Það var fyrir 54 árum að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var undirrituð og samþykkt á Allsherjarþingi árið 1948. Fram að lokum seinni heimstyrjaldarinnar var það undir hverju og einu ríki komið hvernig réttindum fólks væri háttað. Vegna framgöngu nasista í síðari heimsstyrjöldinni gagnvart sínum eigin þegnum gátu önnur ríki heimsins ekki lengur horft aðgerðarlaus upp á þessa skipan mála og því var hafist handa við að semja mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindi áttu að vera horsteinninn í nýrri heimsskipan að loknu stríðinu og inntak sáttmálans átti að vera frelsi og einstaklingsbundin réttindi óháð kynþætti, kyni, tungumáli eða trú.

Þegar við lítum til baka og veltum fyrir okkur því markmiði sem frumkvöðlar alþjóðasamvinnu á sviði mannréttindamála settu sér um miðja síðustu öld er nauðsynlegt að hugsa til þess hver árangurinn hefur orðið og hver heimsmyndin er í dag. Flestar þjóðir heims hafa skrifað undir mannréttindayfirlýsinguna og margt hefur áunnist í mannréttindmálum en heimurinn á enn mjög langt í land með að ná þessu markmiði. Og sumar þjóðir virðast bara dragast aftur úr.

Rétturinn til að leita sér hælis í öðru landi er tryggður í 14. grein mannréttindayfirlýsingar og árlega leita mörg þúsundir flóttamanna sér hælis utan heimalands síns og ríki heimsins taka misvel á móti. Ástralía er eitt þeirra landa sem hefur verið harðlega gangrýnt fyrir stefnu sína í málefnum flóttafólks. Mun færri sækja um hæli í Ástralíu heldur en í Evrópu og Norður Ameríku en þó hafa Ástralir tekið á móti í kringum hálfri milljón flóttamanna frá árinu 1945. Ástralir hafa í gegnum tíðina þótt mjög umburðarlyndir í garð flóttafólks og það er því sorglegt til þess að vita að stefnubreyting hafi átt sér stað þar á síðusta áratug eða svo.

Mjög strangar reglur gilda um flóttafólk og ólöglega innflytjendur í Ástralíu. Flóttafólki, sem ekki hefur landvistarleyfi, er komið fyrir í búðum víðs vegar um álfuna þar sem því er haldið um óákveðinn tíma eða þar til afstaða er tekin til umsókna þeirra og það tekur í flestum tilfellum einhver ár.

Alþekkt er nú að bátum á leið til Ástralíu með flóttafólki innanborðs er meinað að sigla inn í ástralska landhelgi. Enn er í fersku minni mál rúmlega 400 Afgana sem bjargað var um borð í norska skipið MV Tampa undan ströndum Ástralíu á síðasta ári. Flestu af því flóttafólki var komið fyrir í búðum á eyjunni Nauru í Kyrrahafi og samkvæmt heimildum Amnesty International eru amk 210 einstaklingar enn í búðunum nú ári síðar án þess að umsóknir þeirra um pólitískt hæli hafi verið teknir fyrir.

Árið 1996 breyttu Ástralir lögunum til að takamarka réttindi fóttafólks enn frekar. Ástæðan var sögð vera sú að fæla ætti frá tilefnislausar umsóknir um pólitískt hæli í Ástralíu. Lögin fólu í sér að flóttafólk fengi ekki atvinnuréttindi og skyldi ekki njóta samfélagslegra réttinda á borð við heilsugæslu. Flóttafólkið reiðir sig því nánast eingöngu á hjálparsamtök sem geta engan veginn staðið straum af kostnaði við að fæða og klæða allt fólkið.

Rétturinn til að flýja kúganir og ofbeldi í heimalandinu og leita hælis í öðru landi er skýr í 14. grein mannréttindayfirlýsingarinnar. Samkvæmt alþjóðasamningum eru ríkjum ekki heimilað að senda einstaklinga til lands þar sem vitað er að þeir geti sætt ofsóknum, pyntingum eða dauðadóms. Hvort heldur sem viðkomandi er bókstaflega sendur burt eða hrakinn þangað.

Í júní 2002 kom út skýrsla á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fjallaði um aðbúnað flóttamanna í Ástralíu og eru Ástralir sagðir skapa kreppuástand meðal flóttafólks. Flóttafólkið er kúgað til fátæktar því það hefur ekki rétt til að vinna fyrir sér og lifa af. Það er ómannúðlegt og sannarlega ekki í samræmi við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.