Fórnarlömb hverra?

Nú þegar rúm tvö ár eru liðin frá því að uppreisn Palestínumanna, Intifada, hófst liggja hundruð manna í valnum, aðstæður palestínskra borgara eru nánast óbærilegar og varanlegur friður virðist fjarlægur draumur. Hverjir bera ábyrgð á því hvernig málum er háttað?

Í hvert sinn er ísraelski herinn fer grár fyrir járnum inn í eina, eða fleiri, borgir Palestínumanna í kjölfar enn einnar sjálfsmorðsárásarinnar keppast fjölmiðlar um allan hinn Vestræna heim við að kalla aðgerðirnar „hefndaraðgerðir” og gefa í skyn að enn á ný vaki það eitt fyrir hinum blóðþyrstu gyðingum í Knessetinu að myrða nógu mörg palestínsk börn til að „jafna stöðuna” á einhverri ímyndaðri stigatöflu.

„Hefndaraðgerðirnar” eru oftast nær afar harkalegar og bitna að mestu leyti á óbreyttum palestínskum borgurum, sem ekkert hafa til sakar unnið. Uppreisn Palestínumanna, sem staðið hefur yfir í rúm tvö ár, hefur ekki orðið til þess að draumur palestínsku þjóðarinnar um að stofnað verði palestínskt ríki sé nær því að rætast en áður en uppreisnin hófst. Þvert á móti hafa aðstæður almennings á Vesturbakkanum og Gaza sjaldan verið verri og almenn reiði og vonleysi þar ríkjandi.

Því hlýtur maður að spyrja sig: Af hverju halda palestínskir hryðjuverkamenn áfram svívirðilegum árásum sínum á saklausa ísraelska borgara? Þeir segjast vera að berjast fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna, en hver heilvita maður sér að aðferðir þær sem beitt er í baráttunni gera stofnun slíks ríkis ólíklegri með hverjum deginum sem líður og hverri sprengju sem sprengd er.

Ein af meginreglum hernaðarfræða kveður á um að hlutverk herja sé að ná pólitískum markmiðum borgaralegra stjórnvalda með því að vinna sigur á her andstæðingsins og koma þannig í veg fyrir að hann geti haldið áfram stríðsrekstri. Aðferðir palestínsku „frelsishetjanna” eru ekki í neinu samhengi við ofangreinda meginreglu. Í stað þess að ráðast gegn ísraelska hernum og ísraelskum hermönnum eru óbreyttir borgarar taldir ákjósanleg skotmörk.

Getur verið að þeim gangi eitthvað annað til með hryðjuverkum sínum en að myrða Ísraelsmenn?

Það er staðreynd að allar byltingar sem gerðar hafa verið í mannkynssögunni voru gerðar að undirlagi lítils minnihluta með öfgafullar skoðanir. Meirihluti mannkyns er ekki tilbúinn að láta lífið fyrir afstæð hugtök eins og frelsi eða þjóðerni. Venjulegt fólk er tilbúið að sætta sig við að lifa undir erlendri eða þrúgandi stjórn svo lengi sem það getur unnið sína vinnu og alið upp fjölskyldu í sæmilegu öryggi.

Þetta vita öfgamennirnir. Þeir vita það einnig að eigi þeim að takast að ná markmiðum sínum, hver sem þau eru, verða þeir að virkja þennan annars óvirka meirihluta.

Það sem Hamas, Al-Aqsa píslarvottaherdeildinni og Heilögu stríði gengur til er að æsa upp hinn almenna Palestínumann, fá hann til að hata Ísrael og Ísraelsmenn af svo miklum ofsa að hann sé tilbúinn að láta lífið fyrir hugsjónir öfgamannanna. Til að ná þessu markmiði notfæra hryðjuverkamennirnir sér ísraelska herinn.

Hinn raunverulegi tilgangur hryðjuverkanna er að gera Ísraelsmenn svo vitstola af hræðslu og reiði að þeir loki landamærum Ísraels og hernumdu svæðana, takmarki ferða- og atvinnufrelsi Palestínumanna og fari með hernaði inn á Vesturbakkann og Gaza. Þessar aðgerðir allar gera það að verkum að almenningur á hernumdu svæðunum er líklegri til að hlusta á og fylgja mönnum sem tilbúnir eru til að fórna eigin lífi og annarra til að ná pólitískum markmiðum sínum.

Það er rétt að unglingarnir, sem þramma inn á kaffihús og skemmtistaði í Tel Aviv og Jerúsalem með sprengjuhleðslur um sig miðja, fremja ódæðisverkin full heiftar og vonleysis. En þeir sem bera mesta ábyrgð á því hvernig fyrir ungmennunum er komið er ekki ísraelski herinn, heldur palestínskir hryðjuverkamenn.

Almennir borgarar á Vesturbakkanum og Gaza eru svo sannarlega fórnalömb. Þeir eru fórnarlömb öfgamanna úr eigin röðum, sem einskis svífast til vinna málstað sínum fylgis.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)