Bush hefur tögl og hagldir

Nú í vikunni fóru fram kosningar í Bandaríkjunum. Ekki hefur verið fjallað ítarlega um þessar kosningar í alþjóðlegum fjölmiðlum, enda ekki kosið um embætti forseta að þessu sinni heldur einungis þingsæti og fylkisstjórastöður. Kosið var um öll sætin í Fulltrúadeild Bandaríkjaþings og 34 af 100 sætum í Öldungadeildinni. Niðurstaðan gæti hafa fært Repúblikanaflokk Bush tögl og hagldir í bandarískum þjóðmálum.

Þótt fjölmiðlaumfjöllunin um þessar kosningar séu minni en þegar um forsetakjör er að ræða þá eru nýafstaðnar kosningar mjög mikilvægar fyrir Bandaríkin og heiminn allan. Mest afgerandi niðurstaðan í kosningunum er sú að Repúblikanar hafa náð meirihluta í Öldungadeildinni aftur og aukið meirihluta sinn í Fulltrúadeildinni. Þetta telja margir vera mikinn sigur fyrir George W. Bush af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi er það undantekning að flokkur forsetans vinni á í miðannarkosninginum (mid – term elections, þ.e. þegar ekki er kosið um forsetaembættið), sérstaklega þegar efnahagslífið er í niðursveiflu.

Í öðru lagi tók Bush virkari þátt í kosningabaráttu samflokksmanna sinna en sitjandi forsetar hafa venju til. Með þessari miklu þátttöku sinni tók Bush töluverða pólitíska áhættu og ef illa hefði farið má ætla að staða hans hefði veikst.

Nú er Bush hins vegar komin í draumastöðuna. Hann er í forsvari fyrir mjög vinsæla ríkisstjórn og samflokksmenn hans eru í meirihluta beggja deilda þingsins. Þetta þýðir að Bush hefur tækifæri til þess að þrýsta í gegn ýmsum umdeildum málum sem Demókrötum hefur tekist að tefja. Meðal þessa má nefna skattalækkanir, ákvörðun um olíuleit í þjóðgörðum í Alaska, stofnun Heimavarnarráðuneytisins (Homeland Security) og síðast en ekki síst getur hann nú komið öllum þeim dómurum sem hann vill í gegnum þingið.

Síðastnefnda atriðið, skipun dómara, er í augum margra bandarískra íhaldsmanna mikilvægasta verkefni Bush. Hann hefur á þessu kjörtímabili tækifæri til þess að tilnefna mikinn fjölda dómara bæði í Hæstarétt og á lægri alríkisdómsstig. Með tilnefningum sínum getur Bush haft óbein áhrif á fjölmörg samfélagsmál sem miklar deilur standa um í Bandaríkjunum, svo sem réttinn til fóstureyðinga og réttin til vopnaburðar – en sterkasta vígi Bush er hjá þeim sem er andmæltir hinu fyrrnefnda en fylgjandi hinu síðarnefnda. Í pistli á heimasíðu hins íhaldssama vefrits National Review segir Jonah Goldberg til dæmis að íhaldsarmi repúblikanaflokksins sé í raun nokk sama hvaða málamiðlanir Bush þarf að gera í öðrum málum, svo fremi sem tryggt sé að íhaldssamir dómarar verði skipaðir í rétti landsins.

Ósigur Demókrata í þessum kosningum er mikið áfall og mikil tilvistarkreppa virðist ríkjandi í flokknum. Fréttaskýrendur virðast sammála um að ósamstæður og ómarkviss málflutningur hafi reynst flokknum dýrkeypt og ótti við að taka skýra afstöðu í mikilvægum málum hafi grafið undan trúverðugleika flokksins. Tom Daschle, sem var leiðtogi Demókrata í Öldungadeildinni, hefur tilkynnt að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri og leiðtogakreppan í flokknum er flestum augljós.

Það er að vissu leyti áhyggjuefni að Repúblikanaflokkurinn fari nú með tögl og hagldir á öllum stigum dómsvaldsins enda virðist ekki hafa veitt af ákveðnu aðhaldi frá Demókrötum í mörgum mikilvægum málum sem forsetinn hefur viljað hrinda í framkvæmd. Hins vegar er eins atkvæðis meirihluti Repúblikana í Öldungadeildinni nokkuð fallvaltur og er sekemmst að minnast þess þegar Jim Jeffords snéri baki við Repúblikana eftir síðustu þingkosningar og færði Demókrötum meirihlutann á silfurfati. Ríkisstjórn Bush hefur á stefnuskrá sinni ýmis mál sem nauðsynlegt er að rædd séu í þaula áður en þau verða að lögum.

Ákveðinnar tilhneigingar hefur gætt til þess að vilja takmarka þau mannréttindi sem Bandaríkin byggjast á og hefur John Ashcroft, dómsmálaráðherra, farið þar fremstur í flokki. Bandaríkin eru sem fyrr ákveðin táknmynd stjórnmálalegs frelsis. Það er heiminum mikilvægt að Bandaríkin, sem leiðandi afl í heiminum, haldi í heiðri þeirri dýrmætu hefð mannréttinda sem velmegun og velsæld vestrænna ríkja byggist á – hefð sem einnig er vonarstjarna þeirra heimshluta sem enn eru bundnir á klafa ófrelsis og harðstjórnar

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.