Fáránlegt vetrarfrí í grunnskólum

Hvaða vit er í því að stytta sumarfrí íslenskra skólabarna til þess eins að hafa þau á lausagangi yfir dimma og kalda vetrarmánuðina þegar fæstir foreldrar eiga þess kost að fá frí frá vinnu?

Mönnum verður oft tíðrætt um gildi menntunar og mikilvægi góðrar og mikillar kennslu í skólum landsins. Undanfarin misseri hafa verið stigin stór skref í þá átt að reyna að bæta kennsluna og auka gæði þeirrar menntunar sem grunnskólabörn á Íslandi fá, enda hafa kannanir sýnt fram á að við eru alls ekki í fremstu röð í heiminum í þessum efnum.

Í síðustu kjarasamningum voru laun kennara hækkuð mjög verulega og jafnframt var ákveðið að lengja skólaárið um nokkra daga á ári. Það er í sjálfu sér jákvætt að kennarastarfið sé orðið vel launað starf, enda ætti það að auka ásókn hæfra manna og kvenna í starfið. Einnig er jákvæð sú breyting að stytta sumarfrí grunnskólabarna, enda engin þörf lengur fyrir jafnlangt sumarfrí og hefð hefur verið fyrir hér á landi.

(Þegar börn og unglingar voru mikilvægt vinnuafl, var þörfin fyrir lengra sumarfrí nokkuð hagsmunamál, en þökk sé vinnutilskipunum ESB, að nú mega börn ekki vinna handtak lengur.)

Það skýtur hins vegar óneitanlega skökku við, að á sama tíma og gripið er til ýmissa aðgerða til að lengja skólaárið og auka gæði menntunar og kennslu, þá skuli frídögum innan skólaársins fjölgað til mikilla muna.

En í ár er boðið upp á sérstaka nýjun í þessum efnum, vetrarfrí. Grunnskólabörn landsins eru þessa vikuna í sérstöku vetrarfríi. Eftir tveggja mánaða veru í skólanum og þegar einn og hálfur mánuður er þar til jólafrí barnanna hefst, þá þykir sumsé ástæða til að skjóta inn sérstöku vetrarfríi.

Til hvers? Ráða menntunarhagsmunir barnanna þarna einhverju? Eru menn hræddir við ofkeyra börnunum í námi heila önn? Nei, því miður búa aðrir hagsmunir þarna að baki og gengur sú hagsmunagæsla þvert gegn þeim markmiðum sem rætt er um hér að ofan. Vetrarfrí er ekkert annað en kjarabót kennara, kjarabót sem bitnar beinlínis á menntun barnanna. Ef menn eru ósammála því að frí frá skóla komi niður á menntun, þá eru menn að segja að skólahaldið sem slíkt og sú kennsla sem þarf fer fram, skipti litlu um menntun barnanna.

Vetrarfríið kemur einnig illa við langflesta foreldra sem erfitt eiga með að fá frí í vinnu til að líta eftir börnunum sínum, og þetta einkum við um yngri börnin.

Það er í raun óskiljanlegt til hvers veri að taka frí af börnum á þeim tíma sem veðrið þó er skaplegt að sumri til, til að hafa þau á lausagangi yfir dimma og kalda vetrarmánuðina. Breytingin sem átti að vera til góðs hefur þannig í reynd snúist upp í andhverfu sína.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.