Á ég að fylgja óréttlátum lögum?

Lög og regla eru klassísk umræðuefni heimspekinga. Í þessum pistli er farið á hálfgerðu hundavaði yfir nokkrar stefnur þeim tengdum.

Allt frá því að menn fóru að mynda samfélög hafa þeir sammælst um nauðsyn þess að hafa einhvers konar lög eða reglur til að lágmarka árekstra og ágreining milli hvers annars. Þrátt fyrir það hefur aldrei náðst sátt um það hversu langt valdhafinn má ganga inn á rétt borgaranna. Þessi umræða hefur orðið sífellt meira áberandi á síðustu öldum með síauknum réttindum almennings og aukinni þátttöku hans í hvers konar þjóðfélagsumræðu. Deilan hefur einkum orðið á milli þeirra sem aðhyllast náttúrurétt annars vegar og pósitífisma hins vegar enda er spurningin fyrst og fremst siðferðileg. Hér á eftir verður farið yfir rök nokkra heimspekinga fyrri tíma auk þess sem reifaðar verða hugmyndir um mannréttindi og hvort þau geta talist algild.

Pósitífistar líta svo á að lög séu ávallt ákvarðanir valdhafanna. Þannig getur valdhafinn réttlætt allar ákvarðanir sínar og í raun gengið jafnlangt og hann vill inn á rétt borgaranna. Eina skilyrðið sem pósitífistar setja er það að ákvörðunin sé tekin með löglegum hætti, það er af réttmætum stjórnvöldum hvers ríkis. Engin nauðsynleg tengsl eru á milli laga og siðferðis sem gerir það að verkum að lög eru ekki endilega eins og best væri að hafa þau. Þar að auki telja þeir að dómstólar geti komist að réttum niðurstöðum með því einu að beita lögum og eigin dómgreind þar sem lög ná ekki til.

Fylgismenn náttúruréttar hafa mótmælt þessum kenningum. Þeir segja að til sé siðferðilegur réttur sem valdhafinn megi aldrei ganga inn á. Þannig eru lög óháð ákvörðunum valdhafanna og í rauninni verða þau ógild ef þau stangast á við siðferðilegan rétt. Nái löggjöf ekki utan um tiltekin atriði er hægt að komast að réttri niðurstöðu með því að beita siðferðislegum viðmiðunum. Þessa skoðun má rekja aftur til Platons en hann reyndi að finna sannleikann og siðferðilega réttar niðurstöður. Aðrir frægir fylgismenn náttúruréttar eru Tómas frá Akvínó og John Locke sem taldi að aldrei mætti ganga inn á rétt einstaklingsins til lífs, frelsis og eigna. Þannig var það ekki einungis heimilt fyrir borgarana að hlíta ekki lögum sem brutu gegn þessum þáttum heldur var það beinlínis skylda þeirra.

Þjóðverjinn Hegel reyndi að fara bil beggja en hann áleit að ekki væri hægt að slíta lög úr samhengi við það samfélag þar sem þau urðu til í. Hann hélt því fram að jafnvel þótt lög væru ekki siðferðilega réttlát gætu þau engu að síður haft lagagildi. Lögin yrðu hins vegar að fylgja tíðarandanum annars yrðu þau ómarktæk. Þannig væru tengsl milli laga og siðferðis en með meiri skilningi manna hyrfi allt misræmi milli á milli þessara ólíku póla.

Flestir hafa einhvers konar siðferðileg viðmið og skoðanir á því hvað er rétt og hvað er rangt. Þeir sem aðhyllast kenningar frjálshyggju líta til að mynda svo á að ríkisvaldið hafi ekki rétt til að binda hendur manna og margir hverjir telja að ákveðnum lögum beri ekki að fylgja. En hefur einstaklingurinn rétt til að ganga gegn vilja löggjafans og jafnvel meirihluta þjóðarinnar vegna þess að eitthvað samrýmist ekki skoðunum hans í einu og öllu? Verðum við ekki öll að gefa eftir ákveðinn hluta af frelsi okkar þegar við búum í samfélagi þar sem ólíkar skoðanir þrífast?

Margar mismunandi skilgreiningar eru til á mannréttindum og hversu langt þau eiga að ná. Í hinum vestræna heimi einstaklingshyggjunnar er skilgreiningin til að mynda allt önnur en í samfélögum þar sem hópurinn er aðalatriðið. Í Kína líta menn svo á að fórna megi réttindum einstaklingsins ef það hjálpar samfélaginu. Þótt það sé auðvitað erfitt fyrir okkar að skilja slíkan hugsunargang þá geta báðir aðilar stutt sína afstöðu með rökum sem byggja á réttlæti. Þannig skilja Kínverjar ekki hvernig hægt er að fórna hagsmunum fjöldans fyrir einn mann þótt sífellt fleira ungt fólk þar í landi taki nú undir hugmyndir um réttindi einstaklingsins.

Líklega er hægt að taka undir með Atla Harðarsyni heimspekingi, en hann skilgreinir mannréttindi sem rétt manns til að verða ekki misþyrmt, rændur, kúgaður, niðurlægður eða myrtur og jafnframt þau réttindi sem nauðsynleg eru til að tryggja að það gerist ekki. Frelsi er að mörgu leiti óhentugt hugtak þegar talað er um mannréttindi enda gríðarlega misjafnar skoðanir á því hversu langt það á að ná. Eins má segja að réttur manna til eignarhalds sé jafnumdeildur, sérstaklega fyrir utan hinn vestræna heim. Með skilgreiningu Atla má finna samnefnara í mannréttindaumræðunni sem nær til allra trúarbragða og þjóðfélaga þótt eflaust megi deila um það hvernig best sé að tryggja öryggi borgaranna.

Líklega er ekki hægt að réttlæta það að fólk brjóti lög vísvitandi nema lögin beinlínis stofni fólki í hættu. Í öðrum tilvikum þar sem lög eru sett sem samræmast ekki tíðarandanum ber fólki að vekja athygli á óréttlætinu sem í þeim eru fólgin. Ágætis dæmi um þetta eru tóbaksvarnarlögin, en vonandi verður þeim breytt fljótlega vegna gríðarlegs ósamræmis á milli þeirra og viðhorfs almennings. Þannig er innbyggð í þjóðfélagið ákveðin trygging þess að ranglát lög breytist í samræmi við kenningu Hegels. Að lokum er það þó á ábyrgð einstaklingsins að halda á lofti skoðunum sínum um siðferði og réttlæti. Ríkisvaldið má aldrei fá það á tilfinninguna að skoðanir fólks breytist í samræmi við löggjöf, heldur á löggjöfin að breytast með skoðunum okkar.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)