Miðinn er of dýr

Stundum finnst mér eins og það væri kannski eðlilegra og á margan hátt heppilegra ef ég væri fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Stundum finnst mér eins og það væri kannski eðlilegra og á margan hátt heppilegra ef ég væri fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Margt af því fólki sem ég á hvað mesta samleið með og virði hvað mest telur að okkur sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess. Mörgum þeirra sem hæst hafa í andstöðu sinni við ESB á ég litla sem enga samleið með, hvorki þegar kemur að pólitík, nú, eða svona í lífinu almennt.

Á síðustu landsfundum Sjálfstæðisflokksins hafa áköfustu andstæðingar aðildar Íslands að ESB séð ástæðu til þess að mæta í sérstökum búningum til að afstaða þeirra fari ekki á milli mála. Það var býsna furðulegt að stýra fundi í utanríkismálanefnd á landsfundi: „Já, við erum að ræða um málsgreinina sem hefst á orðunum Landsfundur telur hagsmunum Íslendinga best borgið utan Evrópusambandsins… Maðurinn í þriðju röð í ALDREI-ESB-peysunni hefur beðið um orðið.“ Það er heldur óskemmtilegt hlutskipti að teljast til samherja slíkra manna í þessu máli, verð ég að segja. Því meira sem ég horfi á rugludallana á Omega því meira efast ég í trúnni. Sama er með ofstækismennina í búningunum sem úthrópa alla ESB-sinna sem föðurlandssvikara; á ég heima þarna megin línunnar í þessu máli?

Andstaða mín við aðild Íslands að Evrópusambandinu er hvorki byggð á innri né æðri sannfæringu. Ég gæti alveg hugsað mér að skipta um skoðun. Gallinn er bara að ég hef ekki séð nein rök fyrir því. Um leið og einhver kemur með nægilega sterk rök fyrir því að okkur farnist betur innan þessa ríkjasambands en utan þess skal ég glaður skipta um skoðun. Aðild að ESB er að mörgu leyti eftirsóknarverður kostur. Aðgöngumiðinn er hins vegar of dýru verði keyptur að mínu mati. Að afsala sér forræði yfir sjávarauðlindinni, sem er grundvöllur velmegunar í þessu landi, er í mínum huga of hátt verð að greiða fyrir aðildina.

Evrópusambandið er að mörgu leyti gott og sniðugt. Hugmyndin um að tengja ríki álfunnar sterkum böndum í viðskiptum og öðrum samskiptum til að stuðla að friði er mjög góð. Það er líka mjög gott að þjóðir sem hafa verið undirokaðar áratugum saman geta sagt skilið við fortíðina og með aðild að þessu sambandi innleitt svo að segja í einu vetfangi infrastrúktúr, skipulag og grundvallarreglur um viðskipta- og athafnafrelsi. Sem Úkraínumaður væri ég alveg örugglega í hópi með boxaranum og öðrum stjórnarandstæðingum að berjast fyrir framtíð landsins í bandalagi við ESB-ríkin. Að segja endanlega skilið við alræði og ofbeldi rússneska bjarnarins og ganga í bandalag með vestrænum lýðræðisþjóðum – það er sannarlega rétt skref – og því meiri samruni, því betra.

Aðild að Evrópusambandinu hefur auðvitað allt aðra þýðingu fyrir Úkraínu en hún hefur fyrir Ísland. Ég hygg að það þurfi ekkert að deila sérstaklega um það, eða hvað? Við njótum nú þegar flestra þeirra kosta sem aðildinni fylgja og ræður þar mestu aðgangur að innri markaði sambandsins. Við þurfum aukinheldur ekki að reiða á okkur á infrastrúktúr sambandsins með sama hætti og hinar nýfrjálsu þjóðir sem áður tilheyrðu Varsjárbandalaginu. Þær réttarbætur sem innleiddar hafa verið í íslenskan rétt á umliðnum áratugum hafa lítið með Evrópusambandið sem slíkt að gera. Aðild að Evrópuráðinu og Mannréttindasáttmála Evrópu er sjálfstætt mál og Ísland er þar fullgildur aðili.

Stærstu og veigamestu rökin fyrir aðild eru um þessar mundir þörfin fyrir stærri gjaldmiðil, eða öllu heldur þörfin fyrir gjaldmiðil án viðskiptahindrana. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins síðastliðið vor samþykkti flokkurinn stefnu sem kveður skýrt á um að króna í höftum geti ekki verið framtíðargjaldmiðill Íslendinga og að skoða beri alla kosti í gjaldmiðlamálum. Stuðningsmenn aðildar að ESB hafa lagt mikið uppúr því að eingungis standi tveir kostir til boða: króna eða evra með aðild að ESB. Þetta er rangt. Upptaka nýs gjaldmiðils er ekki bundin aðild að ESB og engin frambærileg rök hafa komið fram sem slá þann möguleika útaf borðinu. Seðlabankinn gaf nýverið út mikla skýrslu þar sem áberandi fátækleg rök eru færð fram gegn (einhliða) upptöku nýs gjaldmiðils. Hins vegar þarf flokkur sem hefur þá stefnu að króna í höftum geti ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar en er jafnframt á móti aðild að ESB að finna aðrar leiðir, reifa aðra kosti, opna sjóndeildarhringinn. Það hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki gert, þrátt fyrir fyrirheit þar um. Ekki er þó öll von úti með það.

Það er mikið og gott afrek hjá sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn að hafa náð hallalausum fjárlögum. Mikilvægi þess verður ekki ofsögum sagt. Næsta mál er að losa um gjaldeyrishöftin og leggja grunninn að varanlegri skipan gjaldmiðlamála hér á landi. Það er ekki boðlegt að umræðan um Evrópusambandið snúist á þessum tímapunkti um það hvort halda eigi viðræðum áfram eða ekki. Það er engin pólitískur vilji í landinu til þess að ganga í sambandið. Ef og þegar sá vilji verður til staðar er rétti tíminn til að sækja um. Þeir sem telja hag okkar betur borgið í Evrópusambandinu verða sækja sér lýðræðislegt umboð til að sækja um. Þeir þurfa að sannfæra kjósendur um að miðinn sé ekki of dýru verði keyptur.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.