Lausnarorðið er… Subway

Oft ratast kjöftugum satt orð á munn. Það er nefnilega alveg rétt hjá Jóni Gnarr borgarstjóra að skólakerfið mætti alveg vera meira eins og Subway og því miður er Sjálfstæðisflokkurinn stundum heldur of sósíalískur stjórnmálaflokkur. Og til viðbótar alveg örugglega íhaldssamari en góðu hófi gegnir. Fólk á að hafa val um það hvernig það kýs að haga lífi sínu. Það vill stundum gleymast og merkilega oft líka í Sjálfstæðisflokknum. Ef út í það er farið er ansi margt sem mætti vera eins og á Subway.

Oft ratast kjöftugum satt orð á munn. Það er nefnilega alveg rétt hjá Jóni Gnarr borgarstjóra að skólakerfið mætti alveg vera meira eins og Subway og því miður er Sjálfstæðisflokkurinn stundum heldur of sósíalískur stjórnmálaflokkur. Og til viðbótar alveg örugglega íhaldssamari en góðu hófi gegnir. Fólk á að hafa val um það hvernig það kýs að haga lífi sínu. Það vill stundum gleymast og merkilega oft líka í Sjálfstæðisflokknum. Ef út í það er farið er ansi margt sem mætti vera eins og á Subway.

Þessi skyndibitamyndlíking borgarstjórans um skólakerfið er nokkuð snjöll og því freistandi að útvíkka hana aðeins. Að versla í matvörubúð mætti sem dæmi fela í sér fleiri valkosti. Ef maður gæti bara valið að kaupa áfengi í stað mjólkurpotts frá MS með útlendingaostinum og suðræna tollfrjálsa kjúklingnum. Þegar maður kæmi svo heim til sín væri skemmtilegt að geta valið að horfa með einföldum hætti á þýskan heimildaþátt um van Gogh á Netflix og greiða fyrir það eins og margir aðrir jarðarbúar gera vandræðalaust. Bandaríski dramaþátturinn á Ríkisútvarpinu er hins vegar það sem ríkið vill að maður horfi á og borgi fyrir. Og af hverju má maður ekki nota þann gjaldmiðill sem maður kýs í stað þess, tja – mega það alls ekki. Það væri bara svo margt sem væri betra og skemmtilegra ef maður hefði sjálfur val í stað þess að gleypa við öllu því sem misvitrir stjórnmálamenn ákveða fyrir mann.

Það má útvíkka þetta aðeins meira og taka til dæmis alveg af handahófi umfangsmestu sósíalísku aðgerð stjórnvalda á Íslandi, skuldaniðurfellingar ríkisstjórnarinnar, og heimfæra á Subway.

Viðskiptavinur A kemur inn á staðinn, fær sér einn bræðing og er við það að fara borga. Kemur þá viðskiptavinur B sem var á undan í röðinni, með hálfétinn bát í hönd, og heimtar leiðréttingu á viðskiptunum. Það hafi orðið forsendubrestur en þó ekki lagalegur. Hann hafi ekki ætlað að kaupa stóran bát heldur lítinn. Hann ráði ekki við að melta þetta allt og heimtar að fá afslátt. Afgreiðslumaðurinn veit sem er að það væri bæði rangt og dýrt að verða við þessari kröfu en hann er eitthvað lítill í sér og vill ekki læti. Honum dettur þá snjallræði í hug sem leysir bæði vanda staðarins og forsendubrest viðskiptavinar B. Hann hækkar í skyndi verðið á bát viðskiptavinar A og greiðir viðskiptavini B út afsláttinn án þess að það hafi áhrif á afkomu veitingastaðarins. Viðskiptavini A léttir þegar hann sér að hækkunin er minni en hann óttaðist og borgar.

Vissulega ónákvæm einföldun á flóknu máli en í grunninn fela skuldaniðurfellingartillögur ríkisstjórnarinnar ekkert annað í sér en þjóðnýtingu á einkaskuldum sumra á kostnað allra hinna. Eða með öðrum orðum – sjaldan hafa fáir átt svo mörgum jafn mikið að þakka.

Það er erfitt að sjá hvernig þjóðnýting einkaskulda samræmist sjálfstæðisstefnunni og því erfiðleikum bundið að andmæla kröftuglega þegar borgarstjóri segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé mjög sósíalískur stjórnmálaflokkur. Sem er synd því hann hefur alla burði til að gera mun betur það sem hann gerir best – vera öflugur frjálslyndur borgarlegur stjórnmálaflokkur. Svona eins og góður bræðingur skynsamra skoðana.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.