Hátíð vonbrigða

Eitt sinn ætlaði hópur fólks að koma hingað í borg og tala um klám. Borgarstjórinn þáverandi fór þá fremstur í flokki hneykslunarkórs og sagði að fólkið væri óvelkomið í Reykjavíkurborg. Nú um helgina stendur til að halda aðra skrýtna samkomu í Reykjavík – heilmikla hátíð í því að boða að brjóta megi á mannréttindum fólks.

Eitt sinn ætlaði hópur fólks að koma hingað í borg og tala um klám. Borgarstjórinn þáverandi fór þá fremstur í flokki hneykslunarkórs og sagði að fólkið væri óvelkomnir gestir í Reykjavíkurborg. Ráðstefnuhótelið panikaði og vísaði fólkinu frá. Fólkið hætti því við að koma en fékk skaðabætur frá hótelinu fyrir að rifta viðskiptunum ólöglega. Hið furðulegasta mál en þetta var líka árið 2007!

Nú um helgina stendur til að halda aðra skrýtna samkomu í Reykjavík. Hingað er kominn predikari sem telur að guð sé á móti samkynhneigðu fólki og er andvígur að svoleiðis fólk hafi sömu réttindi og gagnkynhneigt fólk. Á einhvern hátt hefur Þjóðkirkjan, blessuð, dregist inn í þetta dæmi. Biskup virðist óhress með það en er barinn áfram og fær ekki að hætta við að vera með. Svona pínu eins og vitorðsmaður bankaræningjans sem vill ekki standa í svona bankaráni en þorir ekki að hætta við til að valda ekki bankaræningjanum vonbrigðum.

Jón Gnarr, borgastjóri, hefur sýnt það að hann er duglegur að tala gegn brotum á mannréttindum samkynhneigðra, tekið virkan þátt í Gleðigöngunni og beitt sér gegn Moskvu. Vel gert hjá honum. Nú kemur engin ályktun frá borgarstjórn gegn þessari samkomu, eins og um árið, en máluð var gangbraut við Laugardalshöll í regnbogans litum. Táknræn og sniðug mótmæli hjá borgaryfirvöldum en fyrirferðalítil í samhengi við annað.

Fólk mátti alveg vera óhresst með klámráðstefnuna á sínum tíma og mótmæla henni. Verra var að mótmælin leiddu til þess að klámfólkið var órétti beitt. Skilaboðin voru þau að það væri í lagi að brjóta á fólki sem væri ósmekklegt. Það voru frekar ógeðfeld skilaboð. Í dag hefur fólk rétt á því að koma saman og í vitleysu sinni boða að brjóta eigi á mannréttindum annarra. En þá er líka full ástæða til að mótmæla þeim boðskap hátt og snjallt. Það væru frekar ógeðfeld skilaboð út í samfélagið að gera það ekki.

Vonbrigðin með þetta allt saman er að enn og aftur er fólk að tala fyrir því að brjóta eigi á öðru fólki af því það sé svo ósmekklegt og óæskilegt. Það verður hátíð þegar því linnir.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.