Mótsagnir og nágrannanjósnir

Ef löggjafinn hefur metið það svo að tekjuöflun ríkisins sé svo mikilvæg að hún víki til hliðar sjónarmiðum um vernd einkalífsins, þá hlýtur það sama að gilda um útgjöldin

Síðastliðna viku hafa fjölmiðlar gert sér fréttamat úr upplýsingum frá skattayfirvöldum um álagningu opinberra gjalda og birt ítarlegar fréttir um tekjur nafngreindra Íslendinga. Álagningarskrá mun liggja frammi á skattstofum landsins í viku til viðbótar fyrir þá sem ekki hafa fengið nóg og vilja vita meira um náungann.

Lagastoð er fyrir þessari birtingu en draga ber í efa hvort þau lagaákvæði standist áskilnað stjórnarskrár um vernd einkalífs. Dómstólar eiga eftir að taka efnislega afstöðu til þess álitaefnis. Það er önnur saga.

Helstu rökin fyrir opinberri birtingu upplýsinga sem nota má til að geta sér um tekjur nafngreindra einstaklinga eru þau að með því sé stuðlað að virku skatteftirliti. Þannig leggja skattayfirvöld að borgurunum að þeir fylgist hver með öðrum og tilkynni ef þá grunar að einhver sé að gefa upp lægri tekjur en lífstíll hans eða líferni gefur tilefni til, að mati þess sem tilkynnir. Þessar nágrannanjósnir eiga þannig að stuðla að betri skattheimtu og auka aðhald.

Víst er að tekjuöflun ríkisins er mikilvæg, ef á annað borð er lýðræðislegur meirihluti fyrir því að ríkið hafi svo miklu hlutverki að gegna sem útheimtir slíkar tekjuþörf.

En það eru tvær hliðar á rekstri ríkisins og á hinni hliðinni eru útgjöldin. Sífelld hærri upphæðir streyma úr sameiginlegum sjóðum í hvers kyns bótagreiðslur og aðra framfærslu hins opinbera.

Ef löggjafinn hefur metið það svo að tekjuöflun ríkisins sé svo mikilvæg að hún víki til hliðar sjónarmiðum um vernd einkalífsins, þá hlýtur það sama að gilda um útgjöldin. Af hverju beinir ríkisvaldið því ekki til borgaranna að þeir hafi eftirlit hver með öðrum þegar kemur að bótagreiðslum úr sameiginlegum sjóðum, sérstaklega þar sem slíkt eftirlit er talið nauðsynlegur þáttur í eftirliti með að ekki sé svikist um að greiða til ríkisins?

Frumvarp um afnmám opinberrar birtingar álagningarskrár var ítrekað flutt á Alþingi fyrir nokkrum árum en lítið hefur heyrst af því á síðustu árum. Sjálfsagt er að leggja fram tvö frumvörp nú og sjá hversu samkvæmur sjálfur sér löggjafinn er, annað væri um um afnám opinberrar birtingar álagningarskrár og hitt um að yfirvöldum yrði gert skylt að leggja fram upplýsingar um allar bótagreiðslur þar sem tilgreind yrðu nöfn bótaþega. Sé enn meirihluti fyrir því að brjóta friðhelgi einkalífsins þegar kemur að skattgreiðslum hlýtur jafnframt að vera meirihluti fyrir því viðhafa sambærilegt eftirlit með bótagreiðslum hins opinbera.

Kannski er von til þess að þingmenn færu að horfa öðruvísi á málin ef þeir hefðu þessi tvö frumvörp fyrir framan sig samtímis?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.