Stærsta verkefni næstu ríkisstjórnar

Er ekki að leysa skuldavanda heimilanna heldur að afnema gjaldeyrishöftin. Gjaldeyrishöftin sem standa fjárfestingum og framförum fyrir þrifum og koma í veg fyrir að hér geti orðið sú atvinnuuppbygging og verðmætasköpun sem við þurfum á að halda.

Er ekki að leysa skuldavanda heimilanna heldur að afnema gjaldeyrishöftin. Gjaldeyrishöftin sem standa fjárfestingum og framförum fyrir þrifum og koma í veg fyrir að hér geti orðið sú atvinnuuppbygging og verðmætasköpun sem við þurfum á að halda.

Gjaldeyrishöftin snerta vissulega ekki daglegt líf fólks enda gera fæstir sér sennilega grein fyrir því að þeim ber skylda til að skila evrunum sem þeir eru með í veskinu úr síðustu utanlandsferð og Íslendingar geta enn notað greiðslukortið sitt óheft í H&M. En gjaldeyrishöftin snerta öll fyrirtæki sem eiga í utanríkisviðskiptum á hverjum einasta degi; standa stækkun þeirra, framþróun og útrás fyrir þrifum og hefta erlenda fjárfestingu hér á landi. Mesta ógnin eins og alltaf er óvissan sem felst í slíkum höftum, breytingarnar sem verða frá einum degi til annars.

Núverandi gjaldeyrishöft voru sett á í nóvember 2008. Ísland var þar með komið á afskapalega óvinsælan lista landa sem hafa gjaldeyrishöft – listi hinna óvinsælu þjóða (sá listi er reyndar svo óvinsæll að afskaplega erfitt er að nálgast upplýsingar um hvaða lönd er á honum). Á honum eru þó sennilega um og yfir 40 þjóðir; ýmsar Afríku- og Asíuþjóðir og einhverjar Evrópuþjóðir eins og Serbía, Svartfjallaland, Albanía og nú síðast Kýpur. Þó listinn liggi ekki allur fyrir er í öllu falli ljóst að þarna eru ekki þær þjóðir sem við venjulega „berum okkur saman við“. Alveg þangað til í mars á þessu ári var gert ráð fyrir afnámi gjaldeyrishaftanna fyrir einhvern tiltekin tíma, nú síðast fyrir lok árs 2013. Með lagabreytingu í mars varð gildistími þeirra hins vegar ótakmarkaður. Það sýnir að einhverju leyti vandann sem við er að etja.

Þá sýna upplýsingar úr riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika frá því í síðustu viku að mikil hætta blasir við íslensku efnahagslífi ef ekki tekst vel til við uppgjör búa gömlu bankanna, endurskipulagningu erlendra skulda og losun gjaldeyrishaftanna, en allt spilar þetta saman. Í versta falli horfir Ísland fram á annað hrun (þó Seðlabankinn noti varfærnari orð).

Það vill þó þjóðinni til happs í þetta skiptið að allir stjórnmálaflokkar virðast sammála um alvarleika málsins og nauðsyn þess að greiða úr því. Það yrði þó sennilega talið einhvers konar heimsmet ef tækist að leysa vandamálið svo farsællega að íslenska þjóðin mundi um leið „græða“ 300 milljarða sem stæðu henni til frjálsrar ráðstöfunar.

Þau orð féllu í síðustu viku að það sé lítið mál að koma á höftum. Það sama gildir hins vegar ekki um að afnema höft. Ég leyfi mér því að fullyrða að þetta sé stærsta vandamál íslensku þjóðarinnar og yrði um leið stærsta afrek næstu ríkisstjórnar ef henni tekst að afnema höftin – fjögur ár eru ekki langur tími og sennilega væri það eitt að afnema höftin á næstu fjórum árum einhvers konar heimsmet!

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.