Glæpurinn

Landsmenn fengu þær fréttir snemma laugardagsmorguns að lögreglan hefði kvöldið áður handtekið mann og lokað veitingastað vegna gruns um að þar hafi farið fram fjárhættuspil. Fólk getur áfram sofið rótt um nætur vitandi að lögreglan gómar glæpamenn og stendur vaktina við að tryggja almannareglu. Innanríkisráðherra hlýtur að lofa sína frammistöðu í málinu og boðar væntanlega í framhaldinu hertar aðgerðir til að uppræta í eitt skiptið fyrir allt þennan ósóma úr samfélaginu.

Landsmenn fengu þær fréttir snemma laugardagsmorguns að lögreglan hefði kvöldið áður handtekið mann og lokað veitingastað vegna gruns um að þar hafi farið fram fjárhættuspil. Fólk getur áfram sofið rótt um nætur vitandi að lögreglan gómar glæpamenn og stendur vaktina við að tryggja almannareglu. Innanríkisráðherra hlýtur að lofa sína frammistöðu í málinu og boðar væntanlega í framhaldinu hertar aðgerðir til að uppræta í eitt skiptið fyrir allt þennan ósóma úr samfélaginu.

Það fylgir þó ekki fréttatilkynningu lögreglu hvort einhver hafi skaðast á líkama eða sál vegna þessa athæfis eða hvort skemmdir hafi orðið á eignum. Þá eru engar upplýsingar veittar um hvort einhverjir þolendur glæpsins hafi kært málið til lögreglu fyrir að hafa verið blekktir eða neyddir með ofbeldi til að taka þátt í athæfinu eða verið ósjálfrátt vegna ólyfja. Ekki er hægt að útiloka að hinn handtekni hafi orðið uppvís að slíkri refsiverðri háttsemi.

Til að upplýsa almenning betur verður kannski haldinn blaðamannafundur lögreglu þar sem fjármunir tengdir hinu ólöglega athæfi verða til sýnis og nánar fjallað um aðgerðir lögreglu. Fram gæti komið að á grundvelli XX. kafla almennra hegningarlaga, um brot reglum um framfærslu og atvinnuháttu, verði gefin út ákæra á hendur sakborningi málsins. Nánar tiltekið verður væntanlega ákært fyrir brot á 183. gr. og 184. gr. laganna sem kveða á um að hver sem gerir sér fjárhættuspil að atvinnu eða hagnast á að fjárhættuspil fari fram í sínu húsnæði skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári ef sakir eru miklar.

Það má gera sér í hugarlund að í verknaðarlýsingu ákæru muni koma fram að umrætt kvöld hafi hópur manna setið við borð með grænum dúk á veitingarstað og spilað einhvers konar spil. Hver og einn þátttakanda hafi lagt fram verðmæti, líklega íslenskar krónur útaf gjaldeyrishöftunum, og sigurvegari leiksins fengið þá fjármuni til sín að leik loknum. Leikmenn hafi kannski greitt aðgangseyri til að vera inni á staðnum og keypt sér líka drykki og mat meðan á leik stóð, hugsanlega líka eftir að leik lauk.

Samantekið. Almenningur er upplýstur um vel heppnaða aðgerð lögreglu, maður var handtekinn, fjármunir gerðir upptækir, lögreglurannsókn er yfirstandandi og svo verður kannski í framhaldinu ákært, réttað, dæmt og refsað.

En er í lagi að þetta teljist glæpur?

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.