Er full alvara með framboði Herdísar?

Dr. Herdís Þorgeirsdóttir hefur tekið áskorun um forsetaframboð og tilkynnti framboð í seinustu viku. Gerðar voru miklar væntingar til Herdísar, en með yfirlýsingum í upphafi vöknuðu spurningar hvort hún væri í þessum framboði í fullri alvöru.

Ég skrifaði fyrir skemmstu pistil um leikritið í kringum framboð Ólafs Ragnars Grímssonar og ég endaði pistilinn með þeim orðum að Ólafur gæti orðið fyrsti forseti í sögu lýðveldisins sem myndi falla í kosningum. Í kjölfarið kom yfirlýsing Ólafs um að hann ætlaði að “fórna” sér fyrir þjóðina, sú ákaflega skrýtna yfirlýsing að við værum eiginlega að fá hann fyrir ekki neitt og að lokum að hann ætlaði jafnvel að hætta áður en kjörtímabilinu væri lokið.

Mikil leit hófst að mótframbjóðanda og hún stendur enn. Mörg nöfn hafa verið nefnd og ótrúlegustu aðilar liggja nú undir feldi og velta fyrir sér að fara fram. Eitt þessara nafna var Dr. Herdís Þorgeirsdóttir sem tók áskoruninni og tilkynnti framboð í seinustu viku. Við fyrstu sýn leit hún út sem ákaflega ákjósanlegur kostur, hún hefur mjög fjölbreytta reynslu bæði sem lögfræðingur, kennari, fjölmiðlamaður og formaður formaður kvenlögfræðinga í Evrópu. Menntunin var einnig mjög spennandi, doktor í lögfræði með áherslu á mannréttindi.

Ýmsir voru engu að síður fljótir að afskrifa hana áður en hún bauð sig fram sem einhvern „Evrópusambands frambjóðanda“, en hvað er það? Ætla menn virkilega að kjósa eða kjósa ekki frambjóðenda út af einu máli? Er forsetinn ekki “sameiningartákn” en það er fátt sem sameinar í því máli. Evrópusambandsmálið er ákaflega stórt mál sem mikilar deilur eru um í samfélaginu, sú ríkisstjórn sem myndi ekki setja málið til þjóðarinnar væri komin á mjög hálan ís. Sama hvort forseti væri stuðningsmaður ESB eður ei þá er það eðlileg krafa á þann forseta miðað að viðkomandi myndi skjóta því til þjóðarinnar. Hugmynd um Evrópusambands frambjóðanda byggir því á þeirri ákaflega ólíklegu sviðsmynd að þjóðin fái ekki að kjósa um samninginn og að frambjóðandinn myndi ekki skjóta því til þjóðarinnar.

Þegar Herdís tilkynnti sjálf svo um framboðið voru aðrar yfirlýsingar sem voru mun verri en áhyggjur manna af því hvort hún styddi Evrópusambandið eða ekki. Hún lýsti því yfir hún ætli að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta og gegn fjármálaöflum. Í leiðinni talaði hún um að setja þak á eignaréttinn og að framboðið væri lýðræðsitilraun. Þetta er vægast sagt sérstök afstaða sem birtist þarna í fyrstu yfirlýsingu forsetaframbjóðandands.

Út af fyrir sig er það sérstakt að forsetaframbjóðandi setji sig strax í þá pólitísku stöðu að bjóða sig fram gegn fjármálaöflunum, hver sem þau nú eru. Hvaða tól hefur hún svo til þess að berjast gegn þessum sömu öflum nái hún kjöri? Svo talar hún um að skerða eignarréttinn, sem er jafnskrýtin yfirlýsing og sú að bjóða sig fram gegn fjármálaöflunum. Það má vel vera að það séu skoðanir hennar, en eru þessi tvö mál virkilega upplegg hennar í kosningabaráttuni?

Að lokum þá talar hún um framboðið sem lýðræðistilraun, en hún ætlar að bjóða sig fram án mikils tilkostnaðar. Í mínum eyrum hljómar þetta frekar sem góð afsökun til að tapa frekar en alvöru tilraun til forsetaframboðs. Jafnvel þótt Herdís sé á móti “fjármálaöflum”, þá er enginn að segja að hún þurfi að reiða sig á þau, en hún þarf hins vegar að kynna sig. Umræða eins og hún kom með að fjölmiðlum beri skylda að kynna frambjóðendur á frekar heima í yfir kaffibolla, en hjá alvöru frambjóðenda. Fjölmiðlar sýna þessu án efa athygli í samræmi við venju með nokkrum umræðuþáttum og Herdís fær örugglega sitt sæti þar. Hins vegar þegar alvöru frambjóðandi fer fram og ætlar að fella sitjandi forseta í fyrsta skipti í lýðræðsissögunni dugar ekki að ætla að treysta á umræðuþætti fjölmiðla. Það kostar að fara í alvöru framboð, ekki bara til þess að auglýsa heldur til þess að hafa alla umgjörðina í lagi. Það er enginn að segja að það þurfi að vera “fjármálaöflin” sem útvegi þá peninga. Framboð sem höfðar til fólksins getur allt eins safnað töluvert að peningum og aflað stuðnings í leiðinni frá almenningi, hvorki meira né minna en forseti Bandaríkjanna sýndi fram á það þegar hann bauð sig fram.

Ég ætla bara að segja eins og er, ég er ákaflega svektur með þetta upplegg og ég varð fyrir ótrúlegum vonbrigðum með þetta framboð. Án þess að þekkja nokkuð til Herdísar fannst mér hún mjög spennandi kostur. Ég hafði virkilega vonast eftir spennandi kosningum, með góðum frambjóðenda sem átti möguleika á að fella Ólaf. Verði ekki breyting á áherslum Herdísar er ákaflega ólíklegt að hún verði sá frambjóðandi.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.