Uppgjörsþjóðfélagið

Andrúmsloftið á Íslandi er að verða eins og í hjónabandi þar sem þarf að „ræða málin“ á hverjum einasta degi í mörg ár. Uppgjörsiðnaðurinn hefur fest sig í sessi en engin raunveruleg úrlausn mála, dómar, refsing, iðrun og fyrirgefning virðist í augsýn. Þetta er þrúgandi ástand. Á meðan líður tíminn.

Þegar sérstök nefnd var sett á laggirnar til þess að rannsaka tildrög efnahagshrunsins 2008 var markmiðið líklega að reyna að stuðla að því að sárið á þjóðinni gréri hraðar. Sama hugsun hefur líklega legið á bak við stofnun embættis sérstaks saksóknara. Með því að einangra hrun bankanna í sérstakan farveg átti að gefa tækifæri til þess að þjóðfélagið kæmist hraðar af stað aftur, vatnið rynni smám saman undir brúna, þeir sem brutu af sér fengju refsingar og málin yrðu gerð upp.

Nú eru rúmlega þrjú ár liðin frá hruni bankanna. Þetta er nokkuð langur tími. Þetta er í raun jafnlangur tími og allur mesti uppgangur bankanna tók fyrir hrunið sjálft.

Andrúmsloftið á Íslandi er í rúmlega þrjú ár búið að vera eins og í sambúð hjóna sem á hverjum degi þurfa að „gera upp málin“ – þar sem hver umræðan, uppljóstrunin, ásökunin og uppgjör rekur annað. Það er hæpið að nokkur manneskja myndi vilja búa við þannig aðstæður á hverjum einasta degi í mörg ár. Eilíft uppgjör án úrlausnar. Uppljóstranir án viðurkenningar á sekt eða iðrunar – og fyrirgefningar.

Nú er búið að koma upp umfangsmiklum uppgjörsiðnaði á Íslandi. Sífellt er verið að fara í saumana á smæstu atriðum og fólk berst á banaspjótum, reynir að koma höggi á hvert annað, draga fram allt það ljótasta sem hægt er að finna um náungann. Svo virðist sem þær opinberu stofnanir sem falið hefur verið að rannsaka og ákæra í þeim málum þar sem raunveruleg refsiverð háttsemi kann að hafa átt sér stað, láti sér þess í stað nægja að tala í hálfkveðnum vísum og láta frá sér dylgjur í gegnum fjölmiðla til þess að viðhalda stuðningi við störf sín. Njósnað er um fólk með símahlerunum og öðrum aðferðum og tugir eða hundruð manna eru í spennitreyju. Í stað þess að fá tækifæri til þess að verja sig fyrir dómstólum, verða hugsanlega dæmdir og taka út refsingu, þarf fjöldi fólks að setja allt sitt líf á bið og býr við það að vera brennimerkt í samfélaginu án dóms.

Hugsanlegt er að dómskerfið og réttarhefðir á Íslandi séu illa fallnar til þess að dæma fólk til réttlátrar refsingar fyrir gjörðir sínar í aðdraganda hrunsins. Þetta helgast meðal annars á þeirri ofurtrú á lagasetningu sem ríkir á Íslandi, og í sambærilegum réttarkerfum. Þessi hefð er líkleg til þess að leiða til niðurstöðu í ýmsum dómsmálum sem fæstum kann að þykja réttlát. Það er hægt að svindla án þess að brjóta beinlínis lögin og það mun eflaust svíða ef í ljós kemur að réttarkerfið getur ekki refsað fyrir slíkt. En staðreyndin er sú að ef sú réttarhefð sem við búum við á Íslandi er ófær um að taka á háþróuðu svindli í fjármálaheiminum þá mun samfélagið í heild bera hallann af því, en ekki einstaklingarnir sem gerðust brotlegir. Þetta er vond niðurstaða en þó skárri en að breyta reglunum eftirá til þess að knýja fram hefndir eða réttlæti.

Mikilvægast af öllu er þó að málunum ljúki. Á meðan uppgjörsiðnaðurinn er starfræktur á Íslandi verður andrúmsloftið áfram þrúgandi og skaðlegt. Sífellt nýjar rannsóknarnefndir, ásakanir og gagnásakanir munu engu breyta um fortíðina, en geta gert samfélaginu ókleift að líta björtum augum til framtíðarinnar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.