Millistéttaraulinn er bara auli

Samfélagið virðist verðlauna á marga vegu þá sem spara lítið eða ekkert en þeir sýna ráðdeild eru fyrst og fremst hópur sem er hægt að skattleggja. Skilaboðin eru að það séu bara aular sem spari, hinir kláru gefi bara skít í slíkt og skelli sér í siglingu eða kaupi nýjan bíl.

Fyrir hrun heyrði ég af pari frá fyrstu hendi (sem eins og í öllum góðum flökkusögum er komin frá fyrstu hendi þess sem sagði mér hana). Flökkusagan gekk sem sagt út á par sem fékk barnabætur og heimilisfaðirinn hafi rétt náð að stoppa húsmóðurina sem ætlaði að gera það eina rétta (að hennar mati) og greiða niður skuldir. Heimilisfaðirinn vissi betur og þau fóru og keyptu sér nýtt sófasett og Iphone, þótt gamla sófasettið hafi verið fínt og gsm síminn hafi verið í góðu lagi. Þetta var þrátt fyrir að vera þá komin í verulega erfiða fjárhagslega stöðu fyrir hrun. Ég spurði sögumann þessarar góðu flökkusögu um daginn að því hvar þetta fólk væri í dag, og fékk þau svör að þau væru nú á Kanarí, komin í greiðsluaðlögun og nýji Iphoninn hefði verið orðinn gamall og þau hefðu keypt sér bæði nýja síma. Heimilisfaðirinn er fjármálasnillingur!

Alla vega miðað við verkfræðinginn sem undanfarið hefur skrifað pistla í Fréttablaðið og kallaði sjálfan sig millistéttaraula. Þegar málið er skoðað kemur í ljós að það er líklega bara rétt hjá honum, hann er auli. Samfélagið segir okkur að hann sé það og ef út í það er farið, að ég sé sami aulinn. Hvað annað er hægt að segja um það þegar samfélagið segir okkur og það séu bara aular sem spara peninga og greiða niður skuldir*? Það séu bara aular sem reyna að verja sig gagnvart áföllum eins og hruninu.

Millistéttaraulinn hefur bent á íbúðarkaup kaup tveggja aðila, þar sem annar tók 100% lán og hinn greiddi 30 – 35% af eigin sparnaði inn á eiginina. Í hruninu tapaði sá sem sparaði og sýndi ráðdeild sínum eignarhlut en sá sem hafði ekkert sparað hafði engu að tapa. Niðurstaðan er sú að þeir standa í námkvæmlega sömu sporum og sá sem eyddi og spreðaði skuldar nákvæmlega jafn mikið í húsinu sínu og sá sem sýndi ráðdeild. 110% leiðin jafnaði stöðu þessara manna og í dag eru þeir báðir eignalausir (og í skítamálum).

Hefði þessi sami millistéttarauli keypt íbúð og sparað aðeins meira og átt 10,4 milljónir í eigið fé ætti hann rétt (ásamt konu sinni á) á 0 kr. í vaxtabætur. Ef þessi sami auli ákveður nú að hætta þessu rugli (það er að sýna ráðdeild), taka 4 milljónir í lán og ráðast í heimsreisu, þá klappar samfélagði honum á bakið og réttir 600 þúsund í formi vaxtabóta (af því gefnu að hann standist önnur viðmið).

Hefði þessum millistéttaraula boðist að kaupa í sparisjóði eða tryggingarfélagi og ákveðið að nurla fyrir hlutnum sínum hefði hann tapað honum öllum, en hefði hann ákveð að taka lán fyrir hlutnum hefði skuldin verið afskrifuð.

Eldri maður sem hefur sýnt ráðdeild alla ævi og á gott einbýlishús með konu sinni, ásamt bíl og einhverjum sparnaði þarf nú að greiða auðlegðarskatt jafnvel þótt hann fái engar tekjur af eignum sínum. Líkur eru meira að segja á því að ellilífeyrir sé skertur út af eigninni hans (sé hann kominn á ellilífeyrisaldur). Sá sem eyddi peningunum sínum strax greiðir ekkert og er ekki með skertan ellilífeyri.

Sá sem ákvað að hætta að borga af eigninni sinni eftir hrun og að leggja þá peninga til hliðar, á núna upphæð sem dugar fyrir útborgun í nýja íbúð. Sá sem ákvað að borga af íbúðinni sinni, hefur hefur hins vegar ekkert sparað og gæti misst íbúðina. Líkurnar eru að þeir búi enn í íbúðinni sem þeir bjuggu í fyrir hrun, sá sem lagði peninga til hliðar á þó fyrir innborgun í nýja íbúð en ekki hinn.

Þetta eru bara nokkur dæmi um hvernig skilaboðin eru þau að við eigum ekki að spara heldur að eyða og spreða. Sá skóli sem við Íslendingar virðumst fara í gegnum einu sinni í hverri kynslóð er að aularnir spari, hinir kláru eyði og spreði og samfélagið muni svo sjá um þá komi til áfalls. Þeir standi að minnsta kosti ekki verr en þeir sýna ráðdeild eða spara.

Er þetta ekki rugl og þarf ekki að breyta þessu?

*svona til að taka af allan vafa, þá af því gefnu að fólk hafi nægar tekjur umfram lágmarks framfærslu

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.