Af dýrkun á frægu fólki og fegrunaraðgerðum

Síðustu daga liðins árs og fyrstu daga nýja ársins var allt morandi í fréttum um hvaða fréttir voru mest lesnar á árinu 2011. Að venju voru fyrirferðarmiklar fréttir af fræga fólkinu á árinu 2011. Síðustu daga höfum við svo einnig séð fréttir af sílikonmeðferðum íslenskra kvenna og mögulegum göllum á sílíkonfyllingum einhverra þeirra sem og erlendra kvenna með fyllingar frá sama framleiðanda. Í ljósi þessa er áhugavert að velta fyrir sér hvort einhver tenging geti verið þarna á milli. Það er, að þeir sem hafa óhóflega mikinn áhuga á lífi og útliti fræga fólksins geti verið líklegri til að fara í fegrunaraðgerðir.

Síðustu daga liðins árs og fyrstu daga nýja ársins var allt morandi í fréttum um hvaða fréttir voru mest lesnar á árinu 2011. Vinsælustu fréttirnar suma daga voru fréttir um hvaða fréttir voru vinsælastar á liðnu ári. Að venju voru fyrirferðarmiklar fréttir af fræga fólkinu á árinu 2011, hver var í hvaða kjól, hver er að skilja við hvern og hvaða megrunarráð hinir og þessir nota. Síðustu daga höfum við svo einnig séð fréttir af sílíkonmeðferðum íslenskra kvenna og mögulega galla á sílíkonfyllingum einhverra þeirra sem og erlendra kvenna með fyllingar frá sama framleiðanda.

Í ljósi þessa er áhugavert að velta fyrir sér hvort einhver tenging geti verið þarna á milli. Það er, að þeir sem hafa óhóflega mikinn áhuga á lífi og útliti fræga fólksins geti verið líklegri til að fara í fegrunaraðgerðir. Mögulegt er að þeir sem dýrka frægt fólk og telji útlit þeirra vera eftirsóknarvert upplifi sjálfa sig sem ekki jafn fullkomna og fræga fólkið og leitist þar af leiðandi eftir því að breyta útliti sínu með fegrunaraðgerðum.

Undirrituð hefur áður skrifað um dýrkun á frægu fólki (celebrity worship) hér á Deigluna, en dýrkun á frægu fólki er oft skipt upp í þrjú stig. Fyrsta stigið er talið nokkuð meinlaust, það er að lesa stundum um frægt fólk og sjá það í sjónvarpi og spjalla um það við vini eða fjölskyldu. Á stigi tvö er dýrkunin farin að verða mikil og fólk telur sig hafa einhverja sérstaka tengingu við ákveðna fræga manneskju og fylgist óhóflega mikið með fréttum af þeirri manneskju. Þriðja stigið er sjúkleg dýrkun þar sem fólk finnst það upplifa það sem fræga manneskjan upplifir. Þetta leiðir af sér þráhyggju gagnvart stjörnuninni sem um ræðir og leiðir af sér áráttukennda hegðun eins og að lesa allt sem finna má um stjörnuna eða jafnvel reyna að nálgast hana sjálfa (McCutcheon, Lange og Houran, 2002). Líklegt má telja að fólk færist frá fyrsta stigi upp á þriðja, en byrji til dæmis ekki á því þriðja.

Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl þess að dýrka frægt fólk og að vilja eða hafa áhuga á að fara í fegrunaraðgerð (Swami, Taylor og Carvalho, 2009). Þá stendur samt eftir spurningin um hvort tengslin eigi einnig við það að fara raunverulega í fegrunaraðgerðir. Þessari spurningu reyndu Maltby og Day (2011) að svara. Þegar hér er talað um fegrunaraðgerðir er átt við lýtaaðgerðir að eigin frumkvæði en ekki af nauðsyn. Sem sagt hreinar fegrunaraðgerðir sem fólk velur sjálft að fara í, sem dæmi ná nefna brjóstastækkun að eigin frumkvæði en ekki vegna veikinda eða slyss.

Í rannsókn Maltby og Day frá árinu 2011 er sambandið hjá ungu fólki, milli dýrkunar á frægu fólki og þess að fara í fegrunaraðgerðir, skoðað. Þátttakendur voru bresk ungmenni á aldrinum 18 – 23 ára. Rannsakendur hittu þátttakendur tvisvar. Í fyrra skiptið voru lagðir fyrir nokkrir spurningalistar sem mátu meðal annars dýrkun á frægu fólki, persónulega reynslu þátttakenda af fegrunaraðgerðum, viðhorf til fegrunaraðgerða, ánægju með eigin líkama, sjálfstraust og lífshamingju. Í seinna skiptið, sem var átta mánuðum síðar, voru þátttakendur spurðir um hvort þeir hefðu farið í fegrunaraðgerðir (Maltby og Day, 2011).

Niðurstöður þessar rannsóknar sýndu að dýrkun á frægu fólki spáði fyrir um fegrunaraðgerðir. Með öðrum orðum að þeir sem dýrka frægt fólk og sérstaklega þeir sem telja útlit einstakrar stjörnu eftirsóknarvert fóru frekar í fegrunaraðgerðir á þessu 8 mánaða tímabili en aðrir. Þetta samband hélst einnig þegar stjórnað hafði verið fyrir áhrif ýmissa annarra breyta sem talið er að geti haft áhrif á þá ákvörðun að fara í fegrunaraðgerð, til dæmis kyn, BMI stuðul, tekjur, viðhorf til fegrunaraðgerða, ánægju með eigin líkama og sjálfstraust.

Þessi rannsókn sýnir því fram á að margt bendir til þess að tengsl séu á milli þess að dýrka frægt fólk og að fara í fegrunaraðgerðir. Einhverjir vankantar eru þó á rannsókninni, líkt og yfirleitt er með rannsóknir. Úrtakið er ekki mjög stórt og því erfitt að alhæfa um of út frá þessum niðurstöðum. Einnig var fólk valið í rannsóknina þannig að sem flestir tækju þátt sem dýrka frægt fólk eða væri líklegt til að fara í fegrunaraðgerð. Einhverrar skekkju er því að vænta í niðurstöðum.
Eftir situr sú hugleiðing um hvaða ástæður liggja að baki fegrunaraðgerðum. Auðvitað geta margar ástæður legið þar að baki og æði misjafnar og þessum hugleiðingum er ekki ætlað að gera lítið úr vali fólks að fara í fegrunaraðgerðir.

Við vitum þó að fjölmiðlar eru yfirfullir af fréttum um fræga fólkið og að einhverjum er hættara við en öðrum að fylgjast óhóflega mikið með þeim og dýrka frægt fólk. Nýjustu rannsóknarniðurstöður sýna okkur svo að slík dýrkun getur spáð fyrir um líkur á því að fólk fari í fegrunaraðgerðir. Slíkt er mikilvægt að skilja, sérstaklega þegar um er að ræða ungt fólk og áhuga þess á fegrunaraðgerðum.

Heimildir:
Maltby, J. og Day, L. (2011). Celebrity worship and incidence of elective cosmetic surgery: Evidence of a link among young adults. Journal of Adolescent Health, 49, 483-489.

McCutcheon, L.E., Lange, R. og Houran, J. (2002). Conceptualization and measurement of celebrity worship. British Journal of Psychology, 93, 67-87.

Swami, V., Taylor,R. og Carvalho, C. (2009). Acceptance of cosmetic surgery and celebrity worship: Evidence of associations among female undergraduates. Personality and Individual Differences, 47, 869–72.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.