Barnið og jólin

Jólin eru minningarhátíð barns. Við minnumst þess að lítið barn fæddist fyrir tveimur árþúsundum fyrir botni Miðjarðarhafs. Barnið litla var frumburður foreldra sinna. Fátæks fólks sem eignast barn í lausaleik í menningarheimi sem lítur slíkt hornauga. Hliðsett fólk á svo margan hátt eða afskaplega venjulegt –allt eftir því hvernig á það er litið.

Fullvel man ég fimmtíu ára sól,
fullvel meir en hálfrar aldar jól,
man það fyrst, er sviptur allri sút
sat ég barn með rauðan vasaklút.

Kertin brunnu bjart í lágum snúð,
bræður fjórir áttu ljósin prúð,
mamma settist sjálf við okkar borð;
sjáið, enn þá man ég hennar orð:

„Þessa hátíð gefur okkur Guð,
Guð, hann skapar allan lífsfögnuð,
án hans gæsku aldrei sprytti rós,
án hans náðar dæi sérhvert ljóð.

Þessi ljós, sem gleðja ykkar geð,
Guð hefir kveikt, svo dýrð hans gætuð séð;
jólagleðin ljúfa lausnarans
leiðir okkur nú að jötu hans.“

Síðan hóf hún heilög sagnamál,
himnesk birta skein í okkar sál;
aldrei skyn né skilningskraftur minn
skildi betur jólaboðskapinn.

Margan boðskap hef ég hálfa öld
heyrt og numið fram á þetta kvöld,
sem mér kveikti ljós við ljós í sál, –
ljós, sem oftast hurfu þó sem tál.

Ljá mér, fá mér litlafingur þinn,
ljúfa smábarn; hvar er frelsarinn?
Fyrir hálmstrá herrans jötu frá
hendi ég öllu: lofti, jörðu, sjá!

Lát mig horfa á litlu kertin þín:
Ljósin gömlu sé ég þarna mín!
Ég er aftur jólaborðin við,
ég á enn minn gamla sálarfrið!
-Matthías Jochumsson

Jólin eru minningarhátíð barns. Við minnumst þess að lítið barn fæddist fyrir tveimur árþúsundum fyrir botni Miðjarðarhafs. Barnið litla var frumburður foreldra sinna. Fátæks fólks sem eignast barn í lausaleik í menningarheimi sem lítur slíkt hornauga. Hliðsett fólk á svo margan hátt eða afskaplega venjulegt –allt eftir því hvernig á það er litið.

Á sama hátt eru börnin í forgrunni hátíðarhalds á jólum. Allt er gert til þess að skapa þeim þá umgjörð að þau njóti og upplifi sem mesta og besta hátíð. Þetta er fullkomlega eðlilegt. Sakleysi þeirra og einlægni gerir það að verkum að við sækjumst eftir því að gera þeim glaðan dag. Það finnur líka glöggt sá sem ekki býr að barni á heimilinu að jólin taka eðlisbreytingu. Þau fara að snúast um aðra hluti og tapa á einhvern hátt þeirri fölskvalausu gleði sem einkennir barn í eftirvæntingu jóla.

Á fullorðinsárum byrjum við að móta þá ytri umgjörð jólanna sem fylgja skal þeirri fjölskyldu sem að við þá myndum. Í þeirri viðleitni þykir eftirsóknarvert að reyna að enduskapa á einhvern hátt þau hughrif sem við sjálf tökum með okkur úr bernsku okkar. Við bindumst einstaka jólaskreytingum tryggðarböndum, leggjum áherslu á tilteknar kökusortir, matarföng, tónlist eða hvað það nú er. Allt til þess að búa þeim sem okkur eru kærastir þá þægilegu tilfinningu sem við sjálf höfum búið heiðurssess innra með okkur. Jafnvel þeir sem standa einir á jólum baða sig í bjarma æskujólanna. Svo sterkt lifa þau í minningunni.

Jólin eru því ekki að ósekju kölluð hátíð barnanna. Allt miðar að æskunni og hún litar allar hefðir á jólum. Það er ekki fráleitt að segja að jólin færi börn og fullorðna nær hvert öðru. Fyrir börnum eru jólin kannski fyrst og fremst gjafir, skraut og ljós sem heilla. Þó held ég að hið breytta viðmót fullorðinna geri það á sinn hátt líka. Þeir verða blíðari, glaðværari, barnslegri jafnvel. Þessi eftirsókn eftir æskujólunum brúar þannig með áþreifanlegum hætti kynslóðabilið og skapar ljúfar minningar í hugum barnsins. Keðjunni er þannig viðhaldið og helgin blessar líf þeirra sem leyfa sér að njóta.

Tökum jólanóttinni opnum örmum og leyfum okkur að njóta helgi stundarinnar.

Gleðileg jól