Ábyrgðarlaus ákærandi!

Dylst það einhverjum að það er Alþingi sem nú höfðar sakamál á hendur Geir H. Haarde? Veldur þetta í alvöru einhverjum vafa? Getur einhver í þingliði Samfylkingarinnar eða VG bent á einhvern annan ákæranda en Alþingi sjálft?

Aðförin að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, er pólitískur óþverraskapur. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fyrir þingið þingsályktunartillögu sem felur í sér að Alþingi ályktar að falla frá málshöfðuninni á hendur Geir. Það eitt að í haust vísaði Landsdómur frá tveimur veigamestu ákæruliðunum sýnir bersýnilega að þetta mál er handónýtt, og hefur reyndar verið frá upphafi.

Viðbrögð nokkurra þingmanna í Samfylkingunni og VG við þingsályktunartillögunni vekja furðu. Samantekið eru þau eitthvað á þá leið að ómögulegt sé að falla frá málinu af því það er ekki lengur í höndum Alþingis og óeðlilegt að Alþingi sé að skipta sér að dómsmáli. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði til að mynda á bloggsíðu sinni gær: „Það er fráleit hugmynd að Alþingi Íslendinga blandi sér í réttarhald sem nú er hafið fyrir landsdómi

Það er einmitt það, svo mörg voru þau orð hræsninnar. 33 alþingismenn, þar á meðal Ólína, ákváðu nefnilega með þingsályktunartillögu sinni að höfða sakamál á hendur Geir. Saksóknari, sem Alþingi kaus, undirbjó málið fyrir hönd Alþingis og lagði fyrir Landsdóm. Málið var þingfest en stórum ákæruliðum svo vísað frá dómi. En þá loksins finnst Ólínu og félögum fráleitt að Alþingi skipti sér að málinu – í máli þar sem Alþingi sjálft er ákærandinn.

Alþingi getur auðvitað ákveðið að falla frá málinu. Alþingi hefur forræði yfir ákærunni og getur í krafti þess hvenær sem er, og einnig á meðan málið er rekið fyrir Landsdómi, ákveðið að draga ákæruna til baka. Alþingi getur það. Ekki dómararnir. Ekki sakborningurinn. Og ekki saksóknari Alþingis. Því það eru varla rök í málinu að saksóknari geti einhliða ákveðið að fella málið niður og farið þannig gegn sama þinginu og fékk hann til starfans.

Þeir þingmenn sem eru enn hlynntir málshöfðuninni á hendur Geir verða því að finna aðrar tylliástæður en þær að Alþingi geti ekki fallið frá málinu þegar þeir reyna að koma í veg fyrir að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.