Ítalinn Cecare Marchetti varð frægur fyrir að gera einfalda athugun. Hann veitti því athygli að stærð borga á Ítalíu til forna var yfirleitt takmörkuð við það ummál sem meðalmaðurinn gat gengið umhverfis á einni klukkustund. Þegar fólk byrjaði að ferðast á hestum þá komst það aðeins lengra á klukkutíma og borgirnar stækkuðu. Næsta stækkun borganna kom með lestunum sem komu í miðbæina og svo enn aftur þegar bílar urðu almenningseign. Niðurstaða Marchettis var því að við mælum fjarlægðir í tíma frekar en vegalengd og fólk hefur í gegnum tímann skilgreint sitt atvinnusvæði sem það svæði sem liggur í innan við klukkustundar akstursfjarlægð frá heimili þess.
Þessi þróun hefur sést á Íslandi í því að samhliða höfuðborginni Reykjavík hefur þróast önnur samhliða borg sem má kalla Stór-Reykjavík. Þessi borg er fyrst og fremst huglæg og liggja borgarmörk hennar í klukkustundar akstursfjarlægð frá miðborg Reykjavíkur. Jaðrar borgarinnar: Akranes, Selfoss og Reykjanesbær hafa allir séð mikla íbúafjölgun á undanförnum árum án þess að atvinna hafi aukist mikið, það er oft vegna þess að fólk sækir vinnu sína annað.
Vegabætur eins og Hvalfjarðagöng og tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hafa stytt fjarlægðina (tímann) á milli þessara staða og miðborgar Reykjavíkur svo að það hefur verið raunhæft að keyra á milli heimilis og vinnu á viðunandi tíma. Það má segja að hækkun á bensínverði hafi valdið því að þessi radíus minnki fyrir lægri launuð störf þar sem ferðakostnaður er að stóru leyti fastur og því stærra hlutfall lægri launa. Fólk keyrir s.s. ekki langar vegalengdir til þess eins að borga bensín.
Í nýlegu stefnuskjali ríkisstjórnarinnar 20/20 Þá var lagt til að það yrði unnið sameiginlegt skipulag fyrir Suð-Vesturhorn landsins, sem markaðist af Reykjanesbæ, Borgarnesi og Árborg. Þarna eru stjórnmálamenn loksins farnir að elta fólkið og skilgreina atvinnusvæði út frá íbúum frekar en póstnúmerum. Fólk á það til að gera hina undarlegustu hluti þegar því er frjálst að sækja vinnu út fyrir sín sveitafélagamörk.
Stór-Reykjavík er svæði þar sem mikill meirihluti íbúa landsins býr og hugsar um sem eitt atvinnusvæði. Stjórnvöld og sveitastjórnarmenn innan Stór-Reykjavíkur þurfa að horfa á mörg mál í stærra samhengi heldur en bæjarmörk einstakra sveitarfélaga. Staðsetning hafna, flugvalla, iðnaðarsvæða, háspennulína og sjúkrahúsa þarf að skoða útfrá stór-Reykjavíkursvæðinu (og stundum landinu öllu) en ekki sem einstakt útfærsluatriði þess helmings íbúa sem býr innan marka Reykjavíkurborgar. Stórar ákvarðanir á að taka út frá stóru samhengi, í tíma og rúmi.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021