Stundum er Ísland best í heimi

Það er margt að á Íslandi í dag. Hægt væri að skrifa marga pistla um stjórnarkreppuna, efnhagsvandræðin, lágmenningu margra íslenskra fjölmiðla og svo fram eftir götunum. Það er þó bæði nauðsynlegt og hollt að taka eitt skref aftur á bak af og til og gleðjast yfir því sem er vel gert í samfélaginu okkar.

Það er margt að á Íslandi í dag. Hægt væri að skrifa marga pistla um stjórnarkreppuna, efnhagsvandræðin, lágmenningu margra íslenskra fjölmiðla og svo fram eftir götunum. Það er þó bæði nauðsynlegt og hollt að taka eitt skref aftur á bak af og til og gleðjast yfir því sem er vel gert í samfélaginu okkar.

Fordómar eru eitt það hræðilegasta sem til er í þessum heimi. Frá alltof mörgum stöðum heyrast sorglegar fréttir þess efnis að fólki sé mismunað vegna húðlitar eða kynhneigðar. Jafnvel í knattspyrnuheiminum hafa þessi mál enn og aftur komist í sviðsljósið og það á röngum forsendum . Sjálfur forseti FIFA, Sepp Blatter, gerði lítið úr því þegar fótboltamenn eru með kynþáttaníð á knattspyrnuvöllum og sagði að menn ættu að geta leyst slík mál með handabandi. Um handanband Blatters hefur áður verið skrifað hér á Deiglunni.

Á Íslandi hafa þessi málefni jafnan verið í nokkuð góðum farvegi, þó því miður megi alltaf finna svarta sauði inn á milli. Þetta kristallast stundum í forsætisráðherranum okkar núverandi, henni Jóhönnu Sigurðardóttur. Um Jóhönnu er margt hægt að segja. Óhætt er að fullyrða að undirritaður er alls ekki sammála henni í mjög mörgum málum í stjórmálum. Hún er þó forsætisráðherra í lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn og slíkt ber að virða.

Fyrir skömmu valdi tímaritið Foreign Policy Jóhönnu á lista yfir hundrað mestu pólitísku hugsuði heimsins. Það má deila um réttmæti Jóhannu inni á þessum lista en það sem vakti athygli var að fjallað var um kynhneigð Jóhönnu líkt og svo oft áður þegar talað er um hennar persónu í erlendum fjölmiðlum. Það sama var uppi á teningnum þegar hún var valin í hóp valdamestu kvenna heims að mati Forbes – alltaf er minnst á það að Jóhanna sé samkynhneigð.

Það góða við Ísland og Íslendinga er að kynhneigð forsætisráðherrans okkar skiptir okkur engu máli og þannig á það auðvitað að vera. Mjög sjaldan á síðustu árum hafa fjölmiðlar hér á landi velt sér upp úr því að Jóhanna Sigurðardóttir sé samkynhneigð. Það er að sjálfsögðu gleðiefni og vitaskuld ætti það vera þannig í öllum öðrum þjóðfélögum.

Einstaka sinnum blossar þó þessi umræða upp, til dæmis þegar prédikarar eins og Gunnar í Krossinum hafa áhyggjur af orðspori Íslendinga á erlendum vettvangi vegna kynhneigðar Jóhönnu eða þegar fáfróðir færeyskir stjórnmálamenn neita að sitja til borðs með henni við opinber tilefni sökum kynhneigðar hennar. Íslendingar bregðast yfirleitt hárrétt við slíkum fréttum, annað hvort eyðum við ekki orðum í slíka vitleysu eða þá að þeir sem viðhafa slík ummæli eru látnir heyra það á samfélagsmiðlum, á kaffistofunni og víðar.

Annað gott dæmi um góð viðbrögð í okkar samfélagi var þegar nasistafáni dúkkaði upp í miðjum mótmælum á Austurvelli síðasta vetur. Fólki var nóg boðið og tók til sinna ráða. Fáninn fékk að brenna á bálkestinum sem búið var að kveikja upp í skömmu áður.

Að lokum verður svo að minnast á Gay-Pride eða Gleðigönguna sem haldin er í ágúst á hverju ári. Tugþúsundir Íslendinga streyma þá í miðbæinn til þess skemmta sér og styðja við bakið á þeim sem þora að vera öðruvísi. Því má ekki gleyma að slíkar göngur eru bannaðar víðs vegar um heiminn og annars staðar eru þeir sem taka þátt í slíkum göngum grýttir. Á litla Íslandi er þessi viðburður orðinn rótgróin fjölskylduskemmtun sem gefur fordómum í hvers kyns birtingarmynd langt nef.

Með þessum pistli er þó engan veginn verið að halda því fram að fordómar finnist ekki á Íslandi. Heldur er verið að benda á að fordómar eru hér í lágmarki miðað við víðast hvar annars staðar og því ber að sjálfsögðu að fagna. Höfum það þó í huga að markmiðið er alltaf að verða samfélag án fordóma.

Ísland kann að glíma við stjórnarkreppu, efnahagsvanda og ýmiss önnur þjóðfélagsleg vandamál en þegar kemur að fordómum gagnvart kynþætti, kynhneigð og öðru slíku getum við verið stolt af okkur.