Alþingi leysir málið

Það var heldur óskemmtileg tilviljun að sama dag og Alþingi Íslendinga leysti deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs með því að samþykkja þingsályktunartillögu um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínuaraba skyldu útsendarar írönsku klerkastjórnarinnar ráðast á breska sendiráðið í Teheran. Tíðindin frá Íslandi drukknuðu þess vegna í fréttum heimspressunnar af innrásinni á breskt yfirráðasvæði í höfuðborg Írans.

Það var heldur óskemmtileg tilviljun að sama dag og Alþingi Íslendinga leysti deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs með því að samþykkja þingsályktunartillögu um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínuaraba skyldu útsendarar írönsku klerkastjórnarinnar ráðast á breska sendiráðið í Teheran. Tíðindin frá Íslandi drukknuðu þess vegna í fréttum heimspressunnar af innrásinni á breskt yfirráðasvæði í höfuðborg Írans.

Eflaust hefur þingheimi gengið gott eitt til með framlagningu og síðar samþykkt þessarar ályktunar. Hún hefur eflaust ekkert haft að gera með að breiða yfir óbrúanlegan ágreining stjórnarflokkanna um flest önnur mál. Eins og varaþingmaður Samfylkingarinnar útskýrði þá er meginástæðan fyrir því að Reykvíkingum og Hafnfirðingum kemur jafn vel saman og raun ber vitni sú að um er að ræða tvö sjálfstæð sveitarfélög sem njóta sjálfstæðis samkvæmt stjórnarskrá. Það er líka nokkuð skondið að okkar skrýtnu frændur í Noregi, sem hafa annast milligöngu í friðarumleitunum milli Ísraels og PLO áratugum saman skyldu ekki fyrir löngu búnir að álykta í þá veru sem Alþingi gerði í gær. Þeir eru náttúrlega seinir til Norðmennirnir og væntanlega líður ekki á löngu áður en þeir átta sig á því að lausnin á deilunni lá í augum uppi allan tímann.

Eða ekki.

Palestínumenn hafa þjáðst, ekki síður en ýmsar þjóðir og þjóðabrot sem verið hafa á hrakhólum mest alla sína tíð. Meirihluti Palestínumanna vill eiga friðsamlega sambúð við Ísrael, meirihluti hefur sótt vinnu í Ísrael og haft þar lífsviðurværi sitt í frjálsu lýðræðissamfélagi sem býr við markaðsskipulag og byggir gildum réttarríkisins. Harðlínuöfl sem finna má beggja vegna víglínunnar ráða hins vegar of miklu, þar eins og í öðrum deilum. Þeir ráðamenn sem stigið hafa of stór skref í átt til friðar, að mati öfgamanna, hafa goldið þess með lífi sínu. Nægir þar að nefna Anwar Sadat, forseta Egyptalands, sem samdi um frið við Ísreal árið 1979, og svo Ytzhak Rabin, forsætisráðherra Ísraels, sem náði sögulegum friðarsamningum við Palestínumenn, kenndum við höfuðborg skrýtnu frænda okkar, en var myrtur af öfgasinnuðum landa sínum 4. nóvember 1995.

Flestir þeirra sem samþykktu ályktun Alþingis í gær trúa því væntanlega staðfastlega að hún geti orðið til að lægja ófriðinn á svæðinu. Það héldu þeir líka sem í góðri trú beittu sér fyrir stofnun sjálfstjórnarsvæða Palestínumanna á Vesturbakkanum og á Gasaströndinni. Raunar hefur ófriðurinn sjaldan verið meiri heldur en eftir að þeim áfanga á leið til friðar var náð. Skærur milli Hamas og Fatah hafa á köflum verið hreint borgarastríð, auk þess sem árásir á byggðir Ísraelsmanna eru nær daglegt brauð. Víst er að framganga öfgamanna í Ísrael hefur verið forkastanleg og ísraelski herinn hefur á köflum brotið allt meðalhóf í landvörnum sínum með óréttlætanlegum þjáningum fyrir saklausa Palestínumenn. En hverjir eru það sem raunverulega hafa kynt undir og haft hagsmuni af þessum skærum? Hverjir eru það sem raunverulega hafa gert sér mat úr ógæfu Palestínuaraba?

Fyrst ber að nefna klerkastjórnina í Íran. Þegar henni gefst tími frá því að murrka lífið úr lýðræðisöflum þar í landi nýtir hún jafnan tækifærið til að leggja til tortímingu Ísraels og vísar yfirleitt til ógæfu Palestínumanna því til rökstuðnings. Einnig má nefna Mohammar heitinn Gaddafi sem hagnýtti sér áratugum saman skærurnar fyrir botni Miðjarðarhafsins til að treysta og efla einræðisvald sitt. Einræðisherrar arabaríkjanna hafa flestir hagnýtt sér „Palestínuvandann“ til að æsa sitt eigið kúgaða fólk upp í hatri og fyrirlitningu á Ísrael og Vesturlöndunum. Tilgangurinn var vitaskuld sá að lýðræði og mannréttindi, þessi vestrænu fyrirbæri, næðu ekki að skjóta rótum og grafa undan alræðisvaldi þeirra.

Alltof margir vel meinandi menn horfa á „Palestínuvandann“ sem tvíhliða deilu, þar sem annars vegar stendur ísraelski herinn grár fyrir járnum og hins vegar skæruliðasveitir PLO og Hamas með börn og unglinga vopnaða steinum og spýtum í broddi fylkingingar. Málið snýst í raun ekkert um sjálfstjórn eða fullveldi Palestínumanna, þennan bænastað eða hinn. Það snýst um að tilvera lýðræðisríkis í miðju höfuðvígi einræðis í heiminum, norðanverðri Afríku og ríkjunum við Persaflóa hefur verið fleinn í holdi einræðisríkjanna.

Þótt auðvitað komist fáir atburðir í hálfkvisti við ályktun Alþingis í gær, þegar kemur að áhrifum á lausn Palestínuvandans, þá má engu að síður binda vonir við að arabíska vorið svokallaða, þær lýðræðisumbætur sem almenningur í arabaríkjunum hefur verið að knýja fram, sums staðar friðsamlega en annars staðar með blóðsúthellingum, leiði til þess að lýðræðislega kjörnir leiðtogar þessara þjóða sjái gildi friðsamlegrar sambúðar og samvinnu við Ísrael. Þegar hinir andstæðu undirliggjandi hagsmunir í Palestínudeilunni eru úr sögunni er loksins raunveruleg von um friðsamlega niðurstöðu.

Lausn Palestínuvandans er þannig ekki að finna í einhliða ályktum vestrænna þjóðþinga eða atkvæðagreiðslum í fundarsölum Sameinuðu þjóðanna. Hún er heldur ekki á fundum helstu iðnríkja heims og jafnvel ekki í loftkældum fundarsölum OPEC ríkjanna. Lausnin er arabíska vorið og lýðræðisumbætur í arabaheiminum. Ef Alþingi Íslendinga vill raunverulega leggja lóð á vogarskálarnar í þágu samvinnu og friðar fyrir botni Miðjarðarhafs þá ætti það að beita sér í þágu lýðræðisafla í Íran og Sýrlandi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.