Dagbók helgarinnar

Helgin var tíðindalítil hjá þorra landsmanna en erlendir fjárfestar eru farnir af landi brott. Einhverjir pústrar og ryskingar voru hér og þar eins og gengur og sumstaðar var áfengi drukkið í hófi óhóflega fyrir aðventuna. Landið í klakaböndum, nokkur óhöpp í umferðinni af þeim sökum og ríkisstjórnin ákvað að kveikja á eigin sjálfseyðingarforriti. Verkin sýna þar merkin.

Það hefur verið haft að orði að það sé ekki kurteist að vera pota mikið í andstæðinginn þegar hann liggur í jörðinni, jafnvel af eigin sök. Það er því ekki ætlunin hér að fjalla mikið um dramatískan helgarharmleik ríkisstjórnarinnar og reyna ráða í hver framvinda verður. Enda ekki nokkur leið að átta sig á því fullkomna rugli. Þó má segja að eitt sé nokkuð víst. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa meðvitað eða ómeðvitað tekið ákvörðun um að slíta stjórnarsamstarfinu – hvænær það gerist liggur bara ekki fyrir.

Sé í rýnt í þau mál sem eru að valda þessum mikla titringi skiptir máli að þessi ríkisstjórn fari frá fyrr en seinna. Því annars vegar eru þetta tillögur sem miða að því að stórskaða mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar og hins vegar er í alvöru verið að ræða og setja fram hugmyndir hvernig koma megi í veg fyrir fjárfestingar útlendinga á Íslandi. Aðför ríkisstjórnarinnar að sjávarútveginum er nægjanleg ástæða ein og sér fyrir því að vera á móti þessari ríkisstjórn. Hugmyndir, tillögur og aðgerðir VG þess efnis að loka landinu fyrir erlendum fjárfestingum sýnir, svo ekki sé um villst, að það er ekki í lagi að þessi flokkur haldi um stjórnartaumana í landinu, bara ekki í lagi, og ástæða til að skoða það atriði frekar.

Íslendingum hefur ávallt farnst best þegar samskipti við umheiminn hafa verið mikil og landið opið fyrir verslun og viðskiptum hvers konar manna á millum á markaði sem víðast um heim. Að sama skapi sýnir reynslan að með einangrun og höftum er fátæktin vís og örbirgðin varanleg. Það er krötunum í Samfylkingunni til hróss að hafa ekki algjörlega gleymt þessari mikilvægu staðreynd.

Ef afturhaldsöflin (sem NB finna má í öllum flokkum) ná sínu fram og það tekst að telja fólki trú um að skynsamlegt sé að loka landinu fyrir erlendu fjármagni þá hefur æði margt farið hér úrskeiðis og frjálslynt fólk á þá meira verk fyrir höndum en ætla hefði mátt. Næg er þó verkefnin fyrir svo snúa megi af þeirri óheillabraut sem vinstriflokkarnir hafa markað. Það er gamaldags og galin þjóðremba að útmála alla útlendinga hættulega sem hingað vilja koma og af þeim stafi hin mesta ógn því þeir ætli sér að arðræna land og þjóð. Þetta er samskonar hræðusluáróður og sá þegar haldið er að fólki að vondu erlendu verkamennirnir steli vinnu af Íslendingum eða íslenskt lambakjöt sé öruggara í maga en það nýsjálenska.

Við glímum nú við alvarlegar efnahagsþrengingar og til að brjótast úr þeim er þörf á alls kyns fjárfestingum í þjóðfélaginu til að búa til verðmæti svo fólk hafi meira fé milli handanna. Það er því algjörlega brjálað að hrekja í burtu þá fáu áhugasömu erlendu aðila sem hingað vilja koma og fjárfesta. Ekki mun neinum þeirra takast að flytja landareign af landi brott eða veiða fisk í íslenskri fiskveiðilögsögu einhver staðar annars staðar en einmitt þar eða stofna sitt eigið þjóðríki uppi á hálendinu.

Það væri því til bóta að breyta lögum um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi og hafa það frekar sem meginreglu að erlendum aðilum verði heimilt að fjárfesta hér á landi að uppfylltum almennum hlutlægum skilyrðum annarra laga. En af fréttum helgarinnar að dæma þarf að berjast fyrst gegn því að reglunum verði ekki breytt til hins verra frá því sem nú er.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.