Það er ekki á vísan að róa án skipstjóra

Vangaveltur eru um hvort formaður stjórnmálaflokks geti gegnt starfinu án þess að eiga sæti á Alþingi. Ef gripið er til myndlíkingar úr sjómannamáli mætti velta fyrir sér hvort skipstjóri geti stýrt skipi sínu frá landi.

Tilgangur stjórnmálaflokks er fyrst og fremst að hafa skoðun á því hvert samfélagið eigi að stefna og hvernig best sé að ná því markmiði. Til að fylgja eftir sínum málefnum þarf flokkurinn að eiga fulltrúa á Alþingi til að tala fyrir stefnunni og því fleiri fulltrúa því betra fyrir þann tiltekna flokk. Einfaldlega vegna þess að Alþingi er löggjafarsamkoma þjóðarinnar. Þar eru teknar ákvarðanir um hvert skuli stefna, að undangengnum umræðum og skoðanaskiptum, og framkvæmdavaldinu þaðan gefin fyrirmæli. Segja má að Alþingi sé eins konar skipsbrú íslenska lýðveldisins.

Samlíking formanns stjórnmálaflokks við skipstjórann er þekkt. Í Alþýðuflokknum var gjarnan vísað til þess að kallinn í brúnni þyrfti að fiska vel. Samt fiskuðu ágætir formenn þess flokks sjaldnast mikið fylgi. Það hafði kannski eitthvað með stefnu flokksins að gera. En hlutverk formanns er vissulega ekki ósvipað hlutverki skipstjórans. Skipstjórinn stendur í brúnni í skipi sínu til að hafa yfirsýn, gefa fyrirmæli og gæta að öryggi áhafnar sinnar. Formaður leiðir starf síns stjórnmálaflokks og ber ábyrgðina.

Vissulega getur skipstjóri falið stýrimanni að standa næturvaktina og stuðst við allskyns siglingatæki. En það breytir því ekki að ábyrgðarmesta hlutverk skipstjórans sjálfs er að bregðast rétt og skjótt við þegar eitthvað bjátar á. Til þess þarf að afla hratt upplýsinga um hættuástandið, meta stöðuna útfrá því og taka svo ákvörðun, hiklaust og fumlaust. Ef skipstjóri er ekki staddur um borð í skipi sínu þá er hann í raun ekki skipstjórinn, heldur sá stendur í brúnni.

Það er ekki nauðsynlegt að formaður stjórnmálaflokks eigi sæti á Alþingi og það eru dæmi um að formenn flokka hafi staðið utan þings. Eðlilega skiptir máli hvort um er að ræða stjórnmálaflokk í stjórn eða stjórnarandstöðu. Sitji flokkur í ríkisstjórn með formann utan þings getur það bjargað þeim formanninum fyrir horn að taka sæti í ríkisstjórninni og hafa þar með aðgang að ræðustól Alþingis. Formaður flokks utan þings og ríkisstjórnar getur svo hugsanlega með samhentan þingflokk á bakvið sig fjarstýrt sínu liði og náð árangri fyrir sinn flokk á þingi og ekki útilokað að það skili sér svo í kosningum.

Þeir formenn sem staðið hafa utan þings hafa þó allir átt það sameiginlegt að eiga erfitt uppdráttar og verið mikið í mun að komast inn sem allra fyrst. Ástæðan er einföld. Ef formaður er ekki á Alþingi er veruleg hætta á að hann verði fljótt áhrifalaus og þá eingöngu formaður að nafninu til. Sá sem leiðir starf flokksins innan þingsins er raunverulega sá sem hefur áhrif á ákvarðanirnar sem teknar eru á þeim vettvangi. Með öðrum orðum, sinnt því starfi sem ætlast er til að formaður sinni í návígi við pólitíska andstæðinga og kastljós fjölmiðlanna.

Þessu tengdu þá er framundan landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn hafa þar tækifæri til fara yfir stefnu og áherslur síns flokks og kjósa svo forystu. Það verður eflaust ofarlega í huga fundarmanna að á næstu mánuðum og misserum þurfa sjálfstæðismenn að kljást við stjórnarmeirihlutann á Alþingi og ríkisstjórnina um niðurstöðu í verulega þýðingarmiklum þjóðmálum. Sjálf stjórnarskráin er undir, fyrirkomulag auðlindanýtingar í sjávarútvegi og orkugeiranum, ríkisfjármálin, niðurskurður og skattmál, peningamálastefnan, skuldaúrlausnir heimila og fyrirtækja. Af nógu er að taka.

Það er vandséð hvaða innistæða er fyrir fylgisaukningu við Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum ef ekki er vel haldið á þessum málum á Alþingi. Það er allavega ekki á vísan að róa.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.