Verðmætustu gildunum fórnað

Tíu ár eru liðin frá því Tvíburaturnarnir féllu. Á þeim tíma hafa viðbrögð stjórnvalda í vestrænum samfélögum líklega haft mun verri afleiðingar en glæpurinn sjálfur.

Um þessar mundir er þess minnst að hálf öld er liðin frá því að Berlínarmúrinn var reistur. Líklega hefur þeim sem komist höfðu til vits og ára á þeim tíma alltaf fundist eins og heimurinn væri í einhverju undarlegu ójafnvægi vegna múrsins og alls þess sem hann stóð fyrir. Flestir hafa vafalaust verið handvissir um að ástandið væri aðeins tímabundið og svo óeðlilegt að það gæti ekki staðið til langframa. Hvernig átti að sannfæra Þjóðverja um að skjóta landa sína fyrir að fara á milli borgarhluta? Myndi ekki geðveikin láta undan fyrr en síðar?

Sá sem fæddist 1971 vandist hins vegar engu öðru fyrstu áratugi ævinnar heldur en að Austur- og Vestur Þýskaland og Austur- og Vestur Berlín væru eðlileg landafræðileg hugtök. Þetta gilti eflaust um Þjóðverjana sjálfa eins og alla aðra. Smám saman fer hið undarlega að verða eðlilegt og hið eðlilega fjarlægt. Eldri kynslóðirnar hætta smám saman að vona og yngri kynslóðirnar eiga stöðugt erfiðara með að átta sig á því eftir hverju ætti svosem að vona.

Nú eru tíu ár liðin frá því öll heimsbyggðin fylgdist með Tvíburaturnunum hrynja í New York. Ég man eftir því að hafa setið við ritgerðarskrif í herbergi sem ég hafði að láni heima hjá foreldrum mínum þegar pabbi sagði mér að það væri eitthvað að gerast í Bandaríkjunum. Ég hélt að það væri slys þegar fyrsta flugvélin flaug á turnana. Nokkrum mínútum seinna kom sú seinni. Ég hringdi í einn af bestu vinum mínum sem kom og horfði á framvinduna með okkur feðgunum. Þegar fyrri turninn hrundi sagði Borgar Þór við okkur: „Þetta sem var að gerast núna mun breyta öllu sem við þekkjum.“

Það þurfti ef til vill ekki mikla spádómsgáfu til að skilja að afleiðingarnar af því að turnarnir féllu yrðu miklar. Allir sem stóðu eða sátu í gapandi þögn fyrir framan sjónvörp þennan dag áttuðu sig á því.

Ég man líka að ég hugsaði: Mikið vildi ég að Bill Clinton væri ennþá forseti Bandaríkjanna.

George W. Bush lofaði reyndar góðu fyrstu dagana eftir árásirnar. Hann heimsótti mosku og lagði áherslu á að skilaboð íslam væri friður. Það var líka ljóst að samúðin um allan heim var með Bandaríkjamönnum. Tugþúsundir söfnuðust saman á götum Teheran og kveiktu á kertum og haldin var mínútuþögn á íþróttakappleikjum í múslimaheiminum til að minnast fórnarlambanna. Sagt er að þessar þagnir hafi verið virtar nánast undantekningarlaust. Augljóst var á viðbrögðunum að hryðjuverkamennirnir töluðu í nafni mjög lítils minnihluta múslíma, rétt eins og Andres Breivik á sér ekki marga stuðningsmenn meðal þeirra sem hann segist vera fulltrúi fyrir. Myndskeið af fagnandi ungmennum í Palestínu gáfu greinilega kolranga mynd af því hvernig venjulegum múslimum leið í hjarta sínu yfir því að annað eins ódæði væri framið í þeirra nafni.

Viðbrögð heimsins – og þá sérstaklega Bandaríkjanna – við glæpnum mundu ráða meiru um þróun heimsins heldur en atburðurinn sjálfur.

Hernaðaraðgerðir gegn Afganistan nutu stuðnings fjölmargra ríkja en voru greinilega ekki hið raunverulega áhugamál helstu æsingamannanna í kringum Bush. Á fyrstu fundum æðstu ráðamanna eftir árásina munu Dick Cheney og fleiri haft mestan áhuga á því að finna leiðir til þess að tengja ódæðið við Saddam Hussein. Auðvitað var engin leið til þess, en það stoppaði ekki lygaspuna sem dugði til þess að drífa stríðsvélina af stað til Íraks á fölskum forsendum.

En á leiðinni til þess að misnota ótta almennings í kjölfar hryðjuverksins þurfti að hverfa frá upphaflegum málflutningi sem eingangraði voðaverkið við öfgafullan jaðarhóp. Tortryggni í garð múslíma, og svo útlendinga almennt, hefur verið haldið að fólki. Fólk er reglulega minnt á að það þurfi að vera óttaslegið – og eins og Yoda sagði í Star Wars þá leiðir óttinn smám saman til reiði og reiðin til haturs.

Í Arabalöndunum hefur andúð á Bandaríkjunum vaxið og á Vesturlöndum er sífellt fleiri stoðum kippt undan þeim stoðum mannréttinda og réttarríkis sem gert hafa þann heimshluta að vonarvita fyrir mannkynið allt.

Í Bandaríkjunum var byrjað að hlera símtöl venjulegs fólks, fólk var hvatt til þess að tilkynna um „grunsamlegt athæfi“ hvers annars, pyntingum var beitt gegn fólki í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum. Í Evrópu var lögreglu gefin heimild til að halda fólki lengur í varðhaldi án kæru, ómögulegt varð að kaupa síma eða leigja íbúð án verulegra afskipta yfirvalda. Á flugvöllum þarf fólk að bíða í löngum röðum til þess að fara úr skónum og láta káfa á sér eða baða sig í gegnumlýsingargeisla. Svona mætti lengi telja.

Sagt er að árangurinn hafi ekki látið á sér standa. Bandaríkjamenn hafa stöðvað nokkra tilvonandi hryðjuverkamenn, sem hafa þó margir reynst, við nánari skoðun, nánast verið teymdir áfram af alríkislögreglumönnum í dulargervi. Engar stórar byggingar hafa verið felldar.

En margt annað hefur fallið, sem er mikilvægara og dýrmætara en steinsteypa. Sífellt er þrengt að þeim réttindum manna sem milljónir hafa fórnað lífi sínu til að tryggja í gegnum tíðina.

Borgaralegum mannréttindum er ætlað að vernda almenning gegn átroðningi ríkisins. Það er jú ríkið sem er í bestri aðstöðu til þess að kúga og beygja fólk – enda hefur það einkarétt á að beita ofbeldi og frelsissviptingu. Í krafti óttans, reiðinnar og hatursins hafa stjórnvöld víða um heim komist upp með að virða þessi heilögu sjónarmið að vettugi í sífellt meiri mæli.

Öryggi er sagt þurfa að vera ofar öllu. Öryggi – hver sem tilkostnaðurinn er. Þetta er hugmynd sem erfitt er að streitast gegn, þótt öll yfirveguð hugsun hljóti að leiða skynsamt fólk til að skilja að öfgafullar kröfur til öryggis krefjast um leið þess að mikilvægustu gildum samfélagsins sé fórnað.

Sjálfstæði einstaklingsins, einkalíf hans, trú á dómgreind fólks og mannleg reisn eru of verðmæt hverjum einstaklingi – og hverju samfélagi – til þess að þeim sé fórnað. Eins ömurlegar og hryðjuverkaárásir eru, hvort sem í hlut eiga íslamskir ofbeldismenn, kristnir eða trúlausir, þá eru þær verðmiðinn sem greiða þarf fyrir að lifa í opnu, frjálsu og umburðarlyndu samfélagi. Vegurinn á milli öryggis og frelsis er vandrataður, en á síðustu tíu árum hefur stefna vestrænna ríkja því miður sveigst of mikið af leið frelsisins. Viðbrögðin við hryðjuverkaárásunum hafa því haft verri og langvinnari afleiðingar heldur en glæpurinn sjálfur. Vegurinn til glötunar er oft varðaður góðum ásetningi – en hann er líka varðaður sinnuleysi og ranghugmyndum. Ranghugmyndir um alvarleika hryðjuverkaógnarinnar ásamt sinnuleysi um grundvallarréttindi einstaklingsins virðast því miður ráða þeirri för sem stjórnvöld flestra Vesturlanda feta um þessar mundir.

Engin leið er að vita nákvæmlega hvernig heimur bíður barna sem fæðast í dag. Það er undir okkur komið, sem munum þennan stutta tíma milli kalda stríðsins og „stríðsins gegn hryðjuverkum“, að tryggja að líf þeirra markist ekki af átroðningi ríkisins, tortryggni í garð útlendinga, stöðugu eftirlit og eilífum ótta við „að eitthvað hræðilegt gerist“. Ætíð þarf að hafa hugfast að smám saman mun atburðurinn sjálfur verða veik minning kynslóða sem eldast – en afleiðingarnar sá veruleiki sem komandi kynslóðir taka sem sjálfsögðum hlut.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.