Klofningur Vinstri grænna

Nokkur styr hefur staðið um þingflokk Vinstri grænna frá þingkosningunum árið 2009. Ástæðurnar eru nokkrar, samþykkt Alþingis að aðildarviðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, Icesave málið og fjárlögin.

Nokkur styr hefur staðið um þingflokk Vinstri grænna frá þingkosningunum árið 2009. Ástæðurnar eru nokkrar, samþykkt Alþingis að aðildarviðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, Icesave málið og fjárlögin. Þingflokkurinn hefur skipst niður í tvær fylkingar og er sú stærri jafnan kennd við formann flokksins, Steingrím J. Sigfússon, eða Steingrímsarmurinn og svo Órólegadeildin – en hana skipuðu Ögmundur Jónasson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Jón Bjarnason, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason. Tvö síðastnefndu gengu eftirminnilega úr þingflokknum í mars mánuði og svo fetaði Ásmundur Einar Daðason í þeirra fótspor í kjölfar vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins.

Þessir þrír fyrrverandi þingmenn VG hafa verið að ýja að því að stofna með sér nýjan þingflokk, en þar með væri síðasta púslið komið í klofningi Vinstri grænna.

Í raun hefur það verið saga vinstri flokka á Íslandi að klofna ansi reglulega, þannig klofnaði Alþýðuflokkurinn í heil sex skipti á sínum starfstíma, m.a. árið 1994 þegar núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir klauf sig út úr flokknum og stofnaði Þjóðvaka. Í þokkabót eru Vinstri grænir stofnaðir upp úr klofningi, en í kjölfar kosninga til Alþingis árið 1999 voru vinstrimenn að reyna sameina krafta sína í einn stóran vinstri flokk á Íslandi. Þetta voru Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, Þjóðvaki og svo Kvennalistinn sem öll áttu að renna í eina sæng undir merkjum Samfylkingar. Steingrímur J. Sigfússon, ásamt tveimur öðrum þingmönnum Alþýðubandalagsins, gat ekki sætt sig við þessa niðurstöðu og stofnaði því VG þann 6. febrúar 1999. Þannig klofningssaga er að endurtaka sig.

Allt frá stofnun flokksins hefur Steingrímur J. verið einskonar táknmynd og andlit flokksins. Hann hélt uppi harðri stjórnarandstöðu frá 1999 – 2009 og lét vanalega mikið á sér bera í umræðuþáttum og í ræðustól þingsins. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 fékk flokkurinn meiri athygli frá kjósendum og vann sinn stærsta kosningasigur árið 2009, fékk tæp 22% atkvæða og fór í sína fyrstu ríkisstjórn. Þingflokkurinn skipaði heila 15 þingmenn – sem núna eru orðnir 12.

Allir vita að það er auðveldara að hafa hemil á þingflokki í stjórnarandstöðu heldur en í stjórn. Í þau tíu ár sem Steingrímur var leiðtogi í stjórnarandstöðu, lofaði hann öllu fögru fyrir hörðustu stuðningsmenn sína, ekkert ESB, engar virkjanir og betra bótakerfi. Þegar út í samsteypustjórn er komið er oft erfitt að uppfylla öll þau loforð sem gefin hafa verið, enda vinnur Steingrímur eftir þeirri reglu að í samsteypustjórn þarf maður stundum að gefa afslátt af ákveðnum hugsjónum sínum til að koma öðrum mikilvægari í gegn. Vandamálið er að það ríkir ekki einhugur um þá stefnu Steingríms innan þingflokksins og þannig varð órólegadeildin til, því þeir þingmenn vinna eftir þeirri stefnu að kosningaloforð eigi að efna.

Vegna þessa hefur Steingrímur tapað miklu trausti innan VG. Það er því nokkuð ljóst að ef þremenningarnir stofna nýja þingflokk og fara svo langt að bjóða fram í næstu kosningum myndi sá þingflokkur nánast eingögnu sækja fylgi sitt til óánægðra stuðningsmanna VG.

Sagt hefur verið að bestu stjórnmálamennirnir þekki sinn vitjunartíma og sitji ekki of lengi. Því hlýtur að vera hægt að velta þeirri spurningu upp hvort Steingrímur J. Sigfússon þurfi ekki að segja skilið við stjórnmálin og hleypa nýjum formanni að sem getur sameinað Vinstri græna aftur.