Keisarinn er nakinn – segjum NEI

Það hefur vart farið fram hjá neinum að um næstu helgi kýs þjóðin í annað sinn um hvort lög um samninga um Icesave-kröfur Breta og Hollendinga haldi gildi sínu . Margir telja að undir forystu Lee Bucheits, aðalsamningamanns Íslands í deilunni, hafi náðst „betri“ samningur en í fyrstu atrennu með svokölluðum „Svavars samningi“. En eru þessir samningar nógu góðir og er rétt að almenningur þurfi að greiða skuldir einkabanka? Samningurinn er afar umdeildur og uppi eru skiptar skoðanir meðal fræðimanna, stjórnmálamanna og landsmanna almennt um hvort kjósa skuli með samningnum eða gegn honum. En til þess að komast að niðurstöðu þá skulum við fara aðeins yfir sögu Icesave og samninginn sjálfan.

Það hefur vart farið fram hjá neinum að um næstu helgi kýs þjóðin í annað sinn um hvort lög um samninga um Icesave-kröfur Breta og Hollendinga haldi gildi sínu . Margir telja að undir forystu Lee Bucheits, aðalsamningamanns Íslands í deilunni, hafi náðst „betri“ samningur en í fyrstu atrennu með svokölluðum „Svavars samningi“. En eru þessir samningar nógu góðir og er rétt að almenningur þurfi að greiða skuldir einkabanka? Samningurinn er afar umdeildur og uppi eru skiptar skoðanir meðal fræðimanna, stjórnmálamanna og landsmanna almennt um hvort kjósa skuli með samningnum eða gegn honum. En til þess að komast að niðurstöðu þá skulum við fara aðeins yfir sögu Icesave og samninginn sjálfan.

Landsbankinn opnaði hávaxtareikninga í Bretlandi og Hollandi fyrir hrun og söfnuðust yfir þúsund milljarðar á skömmum tíma. Þegar bankarnir hrundu ákváðu íslensk stjórnvöld að bæta íslenskum innistæðueigendum upp allar innistæður í bönkunum umfram þá upphæð sem lög um tryggingasjóð innistæðueiganda gerir ráð fyrir. Því töldu Bretar og Hollendingar að íslensk stjórnvöld myndu ábyrgjast allar innistæður á Icesave reikningum Landsbankans, líkt og um íslenska bankareikninga væri að ræða. Þetta reyndist ekki rétt og gerð var tilraun til var að semja um málið, Bretar og Hollendingar féllust ekki á skilyrði Alþingis fyrir samþykkt samningsins (Icesave I), forseti synjaði nýjum samningi staðfestingar og var samningurinn felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu (Icesave II). Samið var enn á ný og útkoman er Icesave III.

Nýi samningurinn hljóðar upp á að Íslendingar skuldbindi sig til að greiða lágmarkstryggingu sem samsvarar 650 milljörðum króna miðað við gefnar forsendur um gengi íslensku krónunnar. Ofan á höfuðstólinn bætast svo vaxtagreiðslur sem gert er ráð fyrir að verði um 50 milljarðar frá tímabilinu 2012 til 2016. Eftir það ábyrgist íslenska ríkið svo eftirstöðvarnar. Skilanefnd Landsbankans hefur gefið sér að þeir geti innheimt um 89% þeirra krafna sem ganga upp í Icesave skuldina. Þetta sagði formaður skilanefndar Landsbankans, þó með fyrirvara um að eðlilegt ástand myndi ríkja á fjármálamörkuðum næstu árin. Þetta skilur íslenska ríkið eftir með rúmlega 71 milljarð á bakinu, plús 50 milljarða í vexti og eftirstöðvar af láninu.

Þeir rúmlega 120 milljarðar auk eftirstöðva, sem mikil óvissa ríkir um, koma til með að verða greiddir af íslenskum skattgreiðendum ef samningurinn verður samþykktur. Til að gera sér grein fyrir upphæðunum sem hér er um að tefla á er vert að geta þess að kaupverð á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum árið 2002 var um 12 milljarðar. En hvað sem því líður þá ríkir enn mikil óvissa um þá ýmsu þætti sem skapast hvort sem samningnum verði hafnað eða ekki. Förum aðeins yfir þá.

Þeir tveir óvissuþættir sem stinga í augu ef samningurinn verður samþykktur eru í fyrsta lagi að ekki liggur fyrir hversu verðmætar eignir þrotabúsins eru og þ.a.l. hversu mikið vantar upp á til að þrotabúið geti staðið undir lágmarksinnistæðunum. Annað sem vert er að hafa í huga að gengi krónunnar getur sveiflast (og það verulega þrátt fyrir höftin) og skuldirnar því orðið þyngri en gert er ráð fyrir.

Það er einkum tvennt sem rætt er um að gerist ef að við fellum samninginn en það er annars vegar að EFTA muni dæma okkur til að greiða upp allan höfuðstólinn og hinsvegar óvissa um hvernig alþjóðasamfélagið muni bregðast við. Varðandi réttarkerfið, þá er það til þess fallið að skera úr um ágreining út frá lagalegum forsendum. Ef að Bretar og Hollendingar teldu að þeir ættu útistandandi skuld hjá ríkissjóði Íslands yrðu þeir að sækja hana fyrir þar til bærum dómstóli, sem er íslenskur. Dómstólaleiðin er ekki hættulegri en svo að með henni fæst rétt niðurstaða, á hvorn veginn sem hún fer. Það er afar ólíklegt að sú leið verði okkur óhagstæðari, enda hafa Bretar og Hollendingar enga hagsmuni af því að gefa okkur eitthvað í frjálsum samningum sem þeir annars eru öruggir með að fá fram fyrir dómstól.

Þá verður að hafa í huga að ef bresk og hollensk stjórnvöld sigra dómsmál þá er komið fordæmi fyrir því að ríki Evrópu séu skuldbundin til að ábyrgjast lágmarkstryggingu allra banka í Evrópu, hvað svo sem ábyrgðarsjóðir viðkomandi landa eru sterkir. Ef Bretar og Hollendingar tapa dómsmálinu þá gæti hrikt í stoðum bankakerfa Evrópu, enda geta menn vart hugsa þá hugsun til enda hvað gerist ef almenningur fær að sjá að keisarinn er í raun nakinn. Hið opinbera tryggingakerfi innistæðna sem reist hefur verið stendur á brauðfótum. Hvað alþjóðasamfélagið varðar þá komst ég að því á ferðalagi mínu til Washington í síðasta mánuði að Icesave væri ekki mikið áhyggjuefni gagnvart alþjóðasamfélaginu, a.m.k. ekki hjá stórveldinu Bandaríkjum Norður-Ameríku. Við leituðum svara á fundi í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna um það hvort Icesave hefði áhrif á milliríkjasamskipti BNA og Íslands. Þau svör sem fengust voru að þau væru sammála um það að Icesave myndi ekki hafa áhrif á samskipti Bandaríkjanna og Íslands. Þau töluðu um að Icesave væri milliríkjadeila sem væri á milli Bretlands, Hollands og Íslands og algjörlega óviðkomandi samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna.

Eftir að hafa skoðað málið er því ekki að neita að Icesave er ein alvarlegasta milliríkjadeila Íslandssögunnar. Að mínu mati er hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins of mikill. Þá set ég stóra spurningu við siðferðið. Þeir sem ráku bankann fóru greinilega af stað með Icesave reikningana til að ná sér á skjótan hátt í meira ráðstöfunarfé fyrir bankann. Bretland og Holland létu starfsemina viðgangast, en ætla enga ábyrgð á því að bera. Ég get ekki skilið hvers vegna skattgreiðendur eiga að greiða skuldir einkabanka. Það er ekkert í lögum sem segir að ríkið skuli ábyrgjast gjaldþrota banka. Ábyrgðarsjóðurinn á að gera slíkt og hann dugar ekki til, en engin lagastoð er fyrir því að láta skattgreiðendur borga það sem upp á vantar. Mat mitt er byggt á yfirferðinni hér að ofan og ég mun því segja NEI í komandi kosningum og hvet alla Íslendinga til að gera slíkt hið sama.

Latest posts by Janus Arn Guðmundsson (see all)