Dómstólaleiðin: Nokkrir punktar um ágæti hennar

Höfundur hefur tekið saman nokkra punkta um hvers vegna væri skynsamlegt að fara dómstólaleiðina svokölluðu í Icesave málinu.

* Tíminn vinnur með Íslendingum- eignir úr þrotabúi Landsbankans fara hækkandi og gefa okkur betri samningsstöðu / réttarstöðu. Fari svo að þrotabúið nái langleiðina upp í kröfuna gætu Bretar og Hollendingar hugsað sig tvisvar um áður en þær myndu sækja málið fyrir íslenskum dómstólum.

* Margir þeir sem vilja samþykkja samninginn hafa bent á þá staðreynd að íslenskir ráðamenn hafi alla tíð sagst ætla borga Icesave skuldina. Þessi viljayfirlýsing stjórnmálamanna dugar skammt fyrir dómstólum og hefur ekkert með EFTA dómstólinn að gera. Íslenska þjóðin þarf ekki að óttast það að þessi yfirlýsing komi í bakið á okkur fyrir dómi. Stjórnmálamenn hafa ítrekað talað þvert á vilja þjóðarinnar í Icesave málinu, það staðfesti þjóðaratkvæðagreiðslan á síðasta ári um Icesave II. Íslensku þjóðinni er nákvæmlega sama um það hvað nokkrum Bretum og Hollendingum finnst um
Jóhönnu og Steingrím J.

* Með því að fara dómstólaleiðina erum við búin að taka út úr dæminu ákveðna gengisáhættu sem felst í Icesave samningnum. Samkvæmt 8. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu er ljóst að skaðabótakrafa af þessum toga yrði alltaf sett fram í íslenskum krónum. Engar heimildir væru fyrir öðru, í öllu falli ef til stendur að gera kröfu um vexti.

* Eins og fyrr segir er Icesave samningurinn háður gengissveiflum íslensku krónunar þar sem hann er skuldbundinn í erlendum gjaldeyri – bara að segja þetta við sjálfan sig er nóg til að hrylla mann. Krónan er einn óstöðugasti og minnsti gjaldmiðill heims og sennilega sá óstöðugasti ef horft er til hins vestræna heims. Gleymum ekki að krónan er undir ströngum gjaldeyrishöftum og samt styrkist hún ekki. Raunvirði krónunar er því miklu minna en þetta gengi okkar sýnir . Þá er Icesave III búið að hækka sem því nemur – fólk verður að átta sig á hversu mikil áhætta felst í þessu.

* Stuðningsmenn Icesave hafa jafnan haldið því hátt á lofti að álit sem liggur fyrir hjá ESA um Icesave málið geti komið okkur Íslendingum illa í mögulegum málaferlum. Hér er í raun verið að rugla saman tveimur hlutum. Þessi afstaða sem þeir birtu er enginn dómur. Þeir hafa engan lagabókstaf fyrir þessu áliti sínu. Þetta felur bara í sér að EES réttur hafi verið brotinn og þótt EFTA dómstóllinn myndi dæma okkur í óhag þá þyrftum við Íslendingar bara að gera ráðstafanir til framtíðar en ekki borga neinar skaðabætur. Við getum einungis þurft að greiða skaðabætur ef við töpum málaferlum hér heima á Íslandi – það er mjög óvíst hvort Bretar og Hollendingar hætti sér út í þau málaferli þar sem þau krefjast mikils undirbúnings og taka langan tíma.

* Segjum sem svo að við myndum tapa málinu hér heima sökum álits ESA (þó það sé alls ekki gefið ) – þá á eftir að fara með aðal úrlausnina sem er ákvörðun vaxta og tjóns í málinu og um þau atriði hefur EFTA dómstóllinn ekkert að segja. Þar þyrfti að gá að mörgu, t.d. þyrftum við aldrei að fjármagna höfuðstól Breta og Hollendinga í þrotabúi gamla Landsbankans. Sá höfuðstóll kæmi einfaldlega til frádráttar tjóni. Og gleymum ekki að vextir yrðu mjög líklega ekki reiknaðir frá 1. október 2009 líkt oft hefur verið haldið fram – það er hræðsluáróður.

* Líkleg niðurstaða varðandi vexti er sú að það verði engir vextir dæmdir því mjög líklegt er að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að um ekkert tjón hafi verið að ræða. Meintir tjónþolar fengju allt sitt til baka úr þrotabúinu og kannski gott betur. Það er afar ólíklegt að okkur Íslendingum yrði gert að greiða dráttarvexti því í ákvæði í 2.ml 2.mgr. 9.gr. laga um vexti og verðtryggingu kemur fram að við sérstakar aðstæður geti dómstólar ákveðið upphafstíma dráttarvaxta án þess að vera bundnir við sérstakt tímamark. Í raun þýðir þetta að ef vextir yrðu dæmdir á okkur myndu þeir miðast við uppkvaðningu dóms en ekki í október 2009 – þetta er mjög mikilvægt.

* Annars konar þrýstingur – Því hefur verið haldið fram að Bretar og Hollendingar muni reyna að beita annars konar pólitískum þrýstingi. Þetta eru hæpin rök og má vel efast um það að þeim yrði sýnd einhver sérstök vorkunn á alþjóðlegum vettvangi. Hvort sem það eru einstaklingar eða þjóðir þá er það siðaðra manna háttur að gera upp sín mál fyrir dómstólum. Munum líka að almenningur í Bretlandi og Hollandi þjáist ekki vegna Icesave, ríkissjóðirnir þeirra eru búnir að gera þessa reikninga upp. Upphæðin sem við Íslendingar þyrftum að borga myndi renna beint í ríkisskassann í hvoru landinu fyrir sig. Þessar upphæðir eru í raun dropi í hafið miðað við hagtölur Hollands og Bretlands en skipta okkur Íslendinga umtalsverðu máli.

* Að lokum ætla ég að birta útreikning um verstu mögulegu niðurstöðu úr dómstólaleiðinni í Icesave, þetta er útreikningur eftir Reimar Pétursson, lögmann sem birtist í grein hans í morgunblaðinu 3. mars: ,, Útreikningarnir fela í sér nokkrar nálganir en í grunninn er miðað við(i) að skaðabótavextir yrðu dæmdir, ekki dráttarvextir, og frá 1. okt. 2009, (ii) að þrotabú Landsbankans standi undir öllum forgangskröfum, (iii) að endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans séu greiddar út jafnóðum samkvæmt áætlun sem þrotabúið birti m.v. 3. ársfjórðung 2010, (iv) að fyrsta endurgreiðslan fari fram í lok sept. 2011, (v) að 20 milljarðar í eigu Tryggingasjóðs innistæðueigenda komi til lækkunar krafna í lokin, og (v) að allar eignir þrotabúsins séu seldar í lok þriðja ársfjórðungs 2014. Þetta er nokkuð sem mætti álíta sem „verstu niðurstöðu“ innan ramma þess sem má telja mögulegt. Þá er horft til þess sem hefur verið rætt af fylgismönnum Icesave III-samninganna að þrotabú Landsbankans muni standa undir öllum forgangskröfum. Samkvæmt þessum útreikningum gæti vaxtareikningur íslenska ríkisins orðið eftirfarandi:
* 91 milljarður króna – einungis tjón vegna innistæðna upp að 20.887 evrum og forgangsregla, á borð við þá sem Ragnar Hall hefur rætt, á ekki við.
* 72 milljarðar króna – einungis tjón vegna innistæðna upp að 20.887 evrum og forgangsregla, á borð við þá sem Ragnar Hall hefur rætt, á við (hér þarf að áætla ákveðna þætti, svo þetta er frekar óörugg stærð).
* 153 milljarðar króna – ef tjón er reiknað vegna allra innistæðna óháð fjárhæð. Allar þessar fjárhæðir kæmu til greiðslu í íslenskum krónum og því væri engin greiðslufallsáhætta samfara þessu fyrir íslenska ríkið.

Þessi umtalaða áhætta, að fara dómstólaleiðina, er í raun mun minni heldur en að taka þá áhættu sem felst í Icesave III . Það er því mat höfundar að farsælast væri fyrir íslensku þjóðina að hafna Icesave lögunum þann 9. apríl næstkomandi.

Þessi grein var að hluta byggð á grein Reimars Péturssonar sem birtist í Morgunblaðinu 3. mars síðastliðinn.