Vér göngum aldrei einir

Sá tími mun koma, og mun koma fyrr en seinna, að Liverpool nær aftur þeim árangri sem endurspeglar glæsta fortíðina. Kóngurinn Kenny Daglish hefur tekið aftur við liðinu og nýjir eigendur liðsins hafa undraverðan árangur á bak við sig. Framtíðin er virkilega björt.

Er þú brýst fram gegn bylnum
Berðu höfðuðið hátt
Óttastu ei myrkrið
Né ógn þess og mátt
Litríkur ljósheimur bíður
Og lævirkja söngurinn þíður

Svo hljómar upphafssálmur Kopverskunar sem svo margir hafa tekið sem leiðbeiningar að hjarthreinna lífi, í þýðingu Bjarka Elíassonar fyrrverandi yfirlögregluþjóns.

Nokkuð hefur borið á því upp á síðkastið að aðdáendur fótboltaliða sem hafa náð örlitlum árangri til skamms tíma, reyni að hafa stuðningsmenn og leikmenn Liverpool að háði og spotti. Liðið hefur ekki unnið deildina svo og svo lengi, eignarhaldið hefur verið til vandræða og lélegur árangur til skamms tíma hefur verið þeim eldsneyti á þeirri plankagöngu. Nýjasta útspil hinna ýmsu pistlahöfunda er að benda á að hinn ótrúlegi árangur Liverpool, sem telur 18 Englandsmeistaratitla og 5 Evrópumeistaratitla, sé eitthvað sem ekki skuli dáðst að. Stærð og virðing fótboltaliða skuli aðeins mæld nokkra mánuði aftur í tímann.

Að gera lítið úr sigursögu Liverpool og mikið úr nýkeyptum titlum ónafngreindra liða, er eins og að segja að það séu meiri lífsgæði í Zimbabwe en í Bandaríkjunum, því hagvöxtur Zimbabwe var meiri á síðasta ári. Uppsöfnuðum árangri áratuganna er ýtt til hliðar fyrir örum vexti úr nánast engu í voðalega lítið.

Enginn maður með hjartslátt getur gleymt hvað gerðist í Istanbul 2005. Þegar fyrri hálfleik lauk í úrslitaleik meistaradeildarinnar var staðan 3-0 fyrir stórliði AC Milan. Milan sem hafði á að skipa einni bestu vörn heims hafði spilað snilldarlega í hálfleiknum, Hernan Crespo hafði skorað tvívegis eftir að goðsögnin Maldini hafði komi þeim yfir í upphafi leiks. Þegar hálfleiksflautan gall, var útlitið eins svart og hugsast gat. Margir aðdáendur Liverpool mátu stöðuna svo svarta að sumir hverjir gengu út af vellinum og aðrir slökktu á sjónvarpstækjum sínum. Hvernig á að vinna upp þriggja marka forystu gegn einni bestu vörn heims í úrslitaleik meistaradeildarinnar. Það er ekki hægt.

Eða hvað. Í upphafi seinni hálfleiks var þýska stálinu Dietmar Hamann skipt inn á og einkennilegur glampi var í augunum á Gerrard fyrirliða, Captain Fantastic. Seinni hálfleikur hófst líkt og hinn fyrri endaði, staðan þrjú núll og lítil von hjá flestum nema fáeinum hugrökkum leikmönnum Liverpool. Allt í einu sendir norðmaðurinn Riise saklausan bolta í teiginn hjá einni bestu vörn heims, MARK !!! , Steven Gerrard rís upp úr mannhafinu og skallar með slíkum krafti og nákvæmni að boltinn syngur í netinu, 3-1. Fyrirliðinn fagnar lítið og rekur leikmenn sína og áhorfendur áfram. Aldrei gefast upp.

54 mínútur eru liðnar af leiknum þegar fyrirliðinn gefur vonina, en áður en stuðningsmennirnir hafa sest niður eftir markið magnaða gerist annað. Tékkneska tæknitröllið Vladimir Smicer fær boltann langt fyrir utan teig. Án þess að hugsa sig um lætur hann vaða. MARK !!!, 3-2, þarna eru 56 mínútur liðnar af leiknum og Liverpool hefur skorað tvö mörk á tveimur mínútum. Þarna er orðið augljóst að Liverpoolhjartað myndi hirða titilinn, þrátt fyrir að Liverpool sé marki undir. Þremur mínútum síðar er fyrirliðinn tekinn niður í teignum og Alonso skorar í kjölfar vítisins. 3-3 og Liverpool hafa skorað þrjú mörk á sex mínútum. Einstakur árangur hjá algjörlega einstöku liði. Liverpool vinnur svo meistaradeild Evrópu í vítaspyrnukeppninni og þar með bikarinn til eignar, „for keeps“. Þeir börðust allir saman og enginn þeirra gekk „einn“ um völlinn. Slíkt hugrekki og slíkan baráttuvilja, kaupirðu ekki með olíupeningum.

Allir Liverpoolaðdáendur eiga margar slíkar minningar hjá sér, jöfnunarmarkið hjá Gerrard gegn West Ham í bikarúrslitaleiknum sem svo leiddi af sér titilinn. Sigurinn í UEFA bikarnum, League cup og hvað þeir heita allir þessir bikarar sem Liverpool hefur sankað að sér síðustu árin. Þess fyrir utan er sagan sú allra blómlegasta. King Kenny Daglish, Ian Rush, Bob Paisley,Igor Biscan, 18 Englandsmeistaratitlar, 5 evróputitlar og þar með bikarinn til eignar. Ótrúlegur árangur.

Rétt er þó hjá mörgum þeim hásu röddum sem hafa verið að veitast að besta klúbbi heims, að árangur síðustu ára hefur ekki verið góður. Liverpool var keypt af tveimur bandarískum labbakútum sem misstu allt niður um sig og töluðust ekki við á tímabili. Svo seldu þeir marga bestu bita Liverpool og keyptu nokkrar hamfarir í staðinn. Rafa Benitez þáverandi þjálfari gat varla rætt við eigendurnar og að lokum var hann sendur út í skiptum fyrir Roy Hodgeson sem best er að hafa sem fæst orð um. En hann átti þó blómlegan þjálfaraferil í Svíþjóð.

Þrátt fyrir þessi skelfingarár, sem hafa verið böl og pína fyrir alla aðdáendur og þorra leikmanna liðsins, hafa aðdáendur liðsins aldrei gefist upp á liðinu. Þrátt fyrir alla þessa lægð, á Liverpool fleiri aðdáendur á Íslandi en nokkurt annað lið á Englandi. Ekki nóg með það, heldur er nauðsynlegt að halda úti tveimur víðlesnum vefjum, sem tileinkaðir eru eingöngu Liverpool. Bæði Liverpool.is og svo kop.is sem er hreint út sagt frábær.

Sá tími mun koma, og mun koma fyrr en seinna, að Liverpool nær aftur þeim árangri sem endurspeglar glæsta fortíðina. Kóngurinn Kenny Daglish hefur tekið aftur við liðinu og nýjir eigendur liðsins hafa undraverðan árangur á bak við sig. Framtíðin er virkilega björt.

Þegar sá tími kemur aftur að Liverpool verður besta lið Englands, munu allir landsmenn verða þess varir. Því eins biturt það var að ganga í gegnum þetta erfiðleikatímabil, þá gengum við það ekki einir. Og þegar gullárin birtast aftur, munum við svo sannarlega ekki fagna einir.

YNWA

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.