Mubarak kveður, hvað svo ?

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands til þrjátíu ára, hefur sagt af sér embætti við mikinn fögnuð heimamanna og stórs hluta heimsbyggðarinnar. Eftir mikil mótmæli sem hægt var að fylgjast með í beinni útsendingu á fjölda fréttastöðva setti herinn honum stólinn fyrir dyrnar og tók hann hatt sinn og staf. Af fréttaskýringum að dæma mætti reyndar halda að ekki aðeins hafi Mubarak sagt af sér embætti, heldur hafi Egyptaland tekið upp skandinavíska módelið yfir nótt. Svo er ekki, langt í frá.

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands til þrjátíu ára, hefur sagt af sér embætti við mikinn fögnuð heimamanna og stórs hluta heimsbyggðarinnar. Eftir mikil mótmæli sem hægt var að fylgjast með í beinni útsendingu á fjölda fréttastöðva setti herinn honum stólinn fyrir dyrnar og tók hann hatt sinn og staf. Af fréttaskýringum að dæma mætti reyndar halda að ekki aðeins hafi Mubarak sagt af sér embætti, heldur hafi Egyptaland tekið upp skandinavíska módelið yfir nótt. Svo er ekki, langt í frá.

Mubarak, tók við eftir að forveri hans, Sadat, hafði verið myrtur vegna friðarsamkomulags sem hann undirritaði fyrir hönd landsins við Ísrael. Sadat, rétt eins og Mubarak, byggði upp feril sinn í hernum og hafði þaðan sinn stuðning. Eftir að hann var myrtur varð Mubarak að valkosti hersins til að stjórna landinu. Nú þrjátíu árum síðar hefur Mubarak stigið af stóli, fordæmdur einræðisherra, en völdin hvíla þó enn hjá hernum.

Það hlýtur að teljast augljóst að sú mótmælalda sem reið yfir Egyptaland snéri ekki að því að skipta einum einræðisherra út fyrir annan. Með afsögn Mubaraks verður að fylgja alger breyting á stjórnkerfi landsins. Það þýðir að herinn þarf annaðhvort að gefa eftir völd sín eða tryggja þau með lýðræðislegum aðferðum. Mohamed ElBaradei, frambjóðandi umbótaafla í landinu, hefur í raun gefið hernum frest til næsta föstudags til að gefa út áætlun um hver næstu skref verði, annars hefjist mótmælin aftur. Ljóst verður að nýjir stjórnmálaflokkar verði að verða til, en fyrir utan stjórnarflokkinn er aðeins öfgaflokkur „bræðralags múslima“ sem hefur byggt sig upp sem stjórnmálahreyfingu. Dagsetningar um kosningar til forseta og þings, þurfa því að verða ljósar sem allra fyrst, ef þær eiga að vera á annað borð.

Ummæli George W. Bush, fyrrum forseta Bandaríkjanna, hafa víða verið dregin fram í kjölfar atburðanna í Túnis og Egyptalandi. Bush hafði kallað eftir lýðræðisþróun í arabaríkjum, en þótti sú skoðun hans einkennast af vanþekkingum á málefnum arabaríkja. Lýðræðisalda ríður nú yfir þennan heimshluta og eru allir helstu furstar og sheikar án efa farnir að ókyrrast. Stjórn Bush studdi þó með ráðum og dáðum við stjórn Mubarak, eins og fyrirennar hans reyndar líka.

Mubarak hafði verið náinn bandamaður Bandaríkjanna og í þau þrjátíu ár sem hann ríkti var sambandið með ágætum. Mikilvægasta málefnið var að Egyptaland hélt friðinn við nágrannaríki sitt og eina lýðræðisríki svæðisins (ennþá), Ísrael. Auk stöðugleika á svæðinu hefur Egyptaland verið samvinnufúst í baráttunni gegn hryðjuverkum. Í þakkarskuld fyrir samvinnuna hefur fjármunum og vopnum verið veitt til Egyptalands og þar með styrkt stöðu Mubaraks. Þrjátíu ár af stöðugleika, friði og samvinnu er ekki slæmur árangur. Þótt fórnarkostnaðurinn hafi verið stuðningur við harðstjóra. Hinn valkosturinn sem stóð til boða var þó aðeins harðstjórn og mögulegur óstöðugleiki. Því hefur kostnaðar og ábatagreining vegna Mubaraks verið auðveld þegar að henni kom.

Nú er staðan hins vegar þannig að almenningur í Egyptalandi, fremur lítill hluti reyndar, hefur komið harðstjóra frá völdum og krefst lýðræðis-og mannréttindaumbóta. Ekki verður lengur hægt að binda tráss sitt við einræði þegar sá valkostur stendur til boða að byggja upp lýðræðisþjóðfélag. Þótt vissulega sé langt í land í þeim efnum. Það mun varla standast skoðun, að búa Írak undir með valdi, að vera „lýðræðisviti“ arabíulandanna á sama tíma og andstæðingum lýðræðisumbóta í Egyptalandi er hjálpað í nafni stöðugleika.

Eftirleikurinn verður langur og strangur, og alls endis óvíst er hvort þau spor sem fólkið í Egyptalandi taka núna, verði til heilla. Sporin hræða og háfleygar hugmyndir um lýðræði og mannréttindaumbætur á þessu svæði, hafa oftar en ekki horfið fremur skjótt. Hinsvegar væri erfitt að fyrirgefa þá ákvörðun, ef einræðisöflum þessa svæðis verður rétt hjálparhönd í nafni stöðugleika, áður en lýðræðistilraunin er fullreynd.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.