Kalt hagsmunamat

Icesave málið er nú í þriðja sinn komið til umfjöllunar á Alþingi. Flestir eru væntanlega hundleiðir á málinu en við getum því miður ekki leyft okkur að vona að það hverfi ef við bíðum bara nógu lengi. Icesave málið hverfur ekkert .

Icesave málið er nú í þriðja sinn komið til umfjöllunar á Alþingi. Flestir eru væntanlega hundleiðir á málinu en við getum því miður ekki leyft okkur að vona að það hverfi ef við bíðum bara nógu lengi. Icesave málið hverfur ekkert .

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi sýnt mikið ábyrgðarleysi í málinu. Hún hefur lagt tvo samninga fyrir Alþingi. Þann fyrsta átti Alþingi ekki einu sinni að fá að sjá en sá seinni var lögfestur í lok árs 2009. Þá sögu þekkja flestir. Samningurinn gerði ráð fyrir um 500 milljarða skuldbindingu fyrir íslenska skattgreiðendur. Í stuttu máli þá synjaði forseti Íslands þeim lögum staðfestingar, samningurinn fór í þjóðaratkvæðagreiðslu og var kolfelldur.

Eftir þessi hrikalegu afglöp ríkisstjórnarinnar tókst að koma nýrri samninganefnd á fót undir forystu Bandaríkjamannsins Lee Buchheit. Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í þeim viðræðum og hefur í raun tekið að sér forystu í að ljúka málinu enda hefur ríkisstjórnin margsýnt að hún ræður ekki við viðfangsefnið. Hún hélt að hægt væri að leysa málið í flýti og kenna fyrri ríkisstjórn um sem ætti svo að sitja uppi með skömmina. Sú áætlun mistókst.

Það hefur alltaf legið fyrir að með því að semja þyrftu Íslendingar að taka á sig einhverjar skuldbindingar. Erlendur fréttaflutningur eftir synjun forsetans og eftir þjóðatkvæðagreiðsluna bar það með sér að erlendir blaðamenn töldu þetta þýða að Íslendingar ætluðu ekki að borga Icesave kröfuna yfir höfuð. Það er ótrúlegt að íslensk yfirvöld hafi ekki gert meira til að leiðrétta þann misskilning enda var orðspor landsins í húfi. Aldrei hefur annað staðið til af Íslands hálfu en að ná niðurstöðu í málinu.

Í þessu sambandi má nefnilega ekki gleyma því lykilatriði í málinu sem snýst um hversu gríðarlega mikilvægt það er að tryggja að viðskiptaumhverfið hér á landi sé frjálst og opið gagnvart umheiminum.

Það hlaut alltaf að koma að þeim tímapunkti að leysa þyrfti málið. Sá tímapunktur virðist kominn. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ásamt flestum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins ákveðið að styðja núverandi samning sem nú liggur fyrir Alþingi. Bjarni hefur fært þau rök fyrir skoðun sinni að hann telji það þjóna hagsmunum þjóðarinnar best að ljúka þessu máli á grundvelli þeirra samningsdraga sem nú liggja fyrir. Vegna þess að sú leið að fara fyrir dómstóla gæti leitt til mun verri niðurstöðu ef málið tapaðist. Sú leið myndi bæði kosta tíma og peninga. Þessi samningur sé það skásta í stöðunni og gæti jafnvel skánað enn ef heimtur eru góðar úr þrotabúi Landsbankans.

Það liggur þó fyrir að ákveðinn hópur innan Sjálfstæðisflokksins er andvígur samningum í hverri þeirri mynd sem þeir kunna að birtast. Þessi hópur hefur hátt og hefur látið Bjarna finna fyrir því. Sú afstaða er skiljanleg, þó höfundi blöskri hve sumir hafa gengið langt í því. Auðvitað er það ömurlegt að þurfa að láta íslenska skattgreiðendur greiða fyrir mistök einkafyrirtækis og það til þjóðar sem setti Ísland á lista yfir hryðjuverkaríki og rýrði með því þrotabú Landsbankans sem svo er greitt úr til að bæta einhliða ákvörðun þeirra að greiða innistæðueigendum Icesave. Þrátt fyrir það, verðum við að horfast í augu við þann veruleika að Ísland þarf meira á umheiminum að halda, en umheimurinn þarf á Íslandi að halda. Það er mun sársaukaminna fyrir Breta og Hollendinga að hafa Icesave málið óleyst heldur en fyrir Ísland.

Núverandi samingur virðist, hvernig sem á það er litið, vera mun hagstæðari en sá sem var gerður að lögum árið 2009. Skuldbindingarnar sem íslenska ríkið þarf að taka á sig verða líklega rúmlega 50 milljarðar, hugsanlega meiri og hugsanlega mun minni. Auðvitað svelgist manni á við svona upphæð en því má ekki gleyma að hún er um tíu sinnum lægri en þær byrðar sem ríkisstjórnin hugðist leggja á herðar okkar fyrir ekki svo löngu síðan og brot af þeirri upphæð sem um væri að tefla ef farið væri með málið fyrir dómstóla og það tapaðist.

Í fullkomnum heimi væri hægt að velta þessu máli á undan sér eða leggja allt undir á að okkar málsstaður yrði ofan á. Það sem Bjarni tók af skarið með, var að leiða þá vinnu til lykta sem ríkisstjórninni var ómögulegt að vinna. Það væri of mikið undir til að hægt væri að réttlæta það ef allt færi á versta veg, að ekki hafi verið reynt að ná sátt. Þótt vissulega hefði það verið mun þægilegra fyrir Bjarna og þingflokkinn. Með þessu hefur Bjarni Benediktsson sýnt að hann þorir að taka umdeildar ákvarðanir og standa með þeim.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.