Stjórnlagaþingið

Eftir rúman mánuð munu hinir 25 nýkjörnu stjórnlagaþingmenn Íslands setjast niður og hefja umræður um breytingar á stjórnarskrá landsins. Stjórnlagaþingið mun hefjast þann 15. febrúar næstkomandi og er ætlaður frekar skammur tími til þess að gera tillögu um breytingar á stjórnarskránni, aðeins 2-4 mánuðir. Stjórnarskráin er grundvallarlagatexti hvers ríkis (sem hefur á annað borð stjórnarskrá) og mikilvægt að vel sé vandað til gerðar hennar. Þá er jafnvel mikilvægara að almenn sátt ríki um hana til að hún verði sá trausti grundvöllur laga og stjórnkerfisins sem henni er ætlað að vera. Því er ljóst að um er að ræða stórt og mikið verkefni sem krefst mjög vandaðrar niðurstöðu á skömmum tíma.

Eftir rúman mánuð munu hinir 25 nýkjörnu stjórnlagaþingmenn Íslands setjast niður og hefja umræður um breytingar á stjórnarskrá landsins. Stjórnlagaþingið mun hefjast þann 15. febrúar næstkomandi og er ætlaður frekar skammur tími til þess að gera tillögu um breytingar á stjórnarskránni, aðeins 2-4 mánuðir. Stjórnarskráin er grundvallarlagatexti hvers ríkis (sem hefur á annað borð stjórnarskrá) og mikilvægt að vel sé vandað til gerðar hennar. Þá er jafnvel mikilvægara að almenn sátt ríki um hana til að hún verði sá trausti grundvöllur laga og stjórnkerfisins sem henni er ætlað að vera. Því er ljóst að um er að ræða stórt og mikið verkefni sem krefst mjög vandaðrar niðurstöðu á skömmum tíma.

Kemur nokkuð út úr þessu?

Þessi neikvæða leiðandi spurning hefur heyrst víða þegar talið hefur vikið að stjórnlagaþinginu. Það var enda ömurleg kjörsókn, umboð stjórnlagaþingsins því veikt og ef það kemur með einhverjar almennilegar tillögur til breytinga mun Alþingi hvort eð er stoppa þær. Þarf þetta að vera rétt?

Hvað kjörsóknina varðar er dagljóst að hún var undir væntingum svartsýnustu manna. Skýringar á þessari afleitu kjörsókn voru af ýmsum toga. Mörgum þótti stjórnlagaþingið ekki vera tímabært núna, margt annað væri mikilvægara og að sóun væri að eyða hundruðum milljóna í svo lítið aðkallandi mál þegar skorið væri niður alls staðar annars staðar. Algjörlega nýtt kosningakerfi var notað og frambjóðendur voru fjölmargir. Það krafðist því óvenjumikillar heimavinnu að greiða atkvæði í þessum kosningum. Loks voru þessar kosningar allt annars eðlis að því leyti að viðfangsefnið hefur hreinlega ekki sömu pólitísku breidd og venjulegar þingkosningar eða sveitarstjórnarkosningar. Hefðbundin pólitísk sjónarmið munu vissulega hafa sitt að segja í tilteknum málum (sérstaklega hvað auðlindaákvæði varðar) en heilt yfir skiptir minna máli hvort það eru örgustu kommar eða stuttbuxaðir últrafrjálshyggjupésar sem skrifa stjórnarskrána en hvor þessara hópa semur fjárlögin hverju sinni.

Þýðir þessi slaka kjörsókn að stjórnlagaþingið hafi ekki umboð til þess að vinna það verk sem því var falið? Í lýðræðisfyrirkomulagi er það þannig að þeir sem greiða ekki atkvæði í kosningum fela með þátttökuleysi sínu öðrum kjósendum að velja fulltrúa í embættin hverju sinni, það er full ástæða til að velta því fyrir sér hví fólk velur að mæta ekki á kjörstað en niðurstaðan fer samt eftir atkvæðum þeirra sem mæta. Með þessum rök verður því samt alls ekki haldið hér fram að stjórnlagaþingið hafi þar með frjálst spil til þess að breyta stjórnarskránni á hvaða veg sem því dettur í hug. Sátt um stjórnarskrána er afskaplega mikilvæg og ef niðurstöður stjórnlagaþingsins yrðu á þann veg að þeim yrði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu ættu þær ekki og myndu örugglega ekki ná í gegn. En ef stjórnlagaþingið leggur fram tillögur sem meirihluti þjóðarinnar er sáttur við er það eina umboðið sem þingið þarf.

Á endanum er það svo Alþingis að breyta stjórnarskránni og formlega hefur þingið vald til þess að hafna öllum breytingartillögum sem fram munu koma. Ef breytingarnar eru þannig að meirihluti þjóðarinnar er ósáttur við þær mun það ekki vefjast fyrir þingmönnum að koma í veg fyrir að þær verði að raunveruleika, réttilega. Ef breytingarnar eru hins vegar að skapi meirihluta þjóðarinnar þurfa þingmenn sem ætla að greiða atkvæði gegn breytingunum að ganga mjög skýrt gegn vilja þjóðarinnar á tímum þegar þingmenn eru meðal þeirra sem þjóðin treystir hvað síst. Það er þeim sem þetta skrifar stórlega til efs að þingmenn sem horfa til framtíðar, með almannahagsmuni eða eigin að leiðarljósi, hafi það í sér að gera slíkt.

Það getur eitthvað komið út úr þessu

Heilt yfir er það mat pistlahöfundar að á stjórnlagaþingið hafi valist nokkuð skynsamt fólk sem ætti að geta átt uppbyggilegar og góðar umræður sem leitt gætu til góðra breytingartillagna. Til þess að svo geti orðið þurfa stjórnlagaþingmennirnir að mæta til leiks með skýrar hugmyndir en samt opið hugarfar gagnvart hugmyndum hver annars. Þá er mikilvægt að allir haldi sér ofan við skotgrafir jafnvel þótt þeirra hugmyndir kunni ekki allar að ná í gegn.

Sama má að mörgu leyti segja um þjóðina sjálfa. Nú verður það að gleymast í bili að stjórnlagaþingið kostar peninga og að það var vinstri stjórn sem kom því í gegn, því verður ekki breytt héðan í frá. Hvernig sem þetta þing er til komið eru líklega flestir sammála um að stjórnarskráin er ekki fullkomin og að hana má bæta. Tækifærið til góðrar, gagnrýnnar og uppbyggilegrar umræðu um stjórnarskrána er betra en nokkru sinni fyrr. Og tækifærið er allra, jafnt hægri- sem vinstrimanna og þeirra sem kusu í nóvember og þeirra sem gerðu það ekki. Því er vonandi að umræða verði mikil um mögulegar breytingartillögur, margar hugmyndir komi fram og að opið hugarfar muni einkenna umræður um þær hugmyndir. Eins og áður segir verða tillögur stjórnlagaþings að eiga góðan hljómgrunn hjá þjóðinni eigi þær að ganga í gegn. Því er mikilvægt að þjóðin hafi hugmyndir um hvað hún vill og að skoðanaskipti verði virk milli þingsins sjálfs og þjóðarinnar sem verður að styðja tillögurnar á endanum.

Það getur margt gott komið út úr þessari tilraun ef við erum tilbúin að gefa því séns.