Stjarna ársins – seinni hluti

Í framhaldi af pistli gærdagsins, heldur niðurtalningin á þeim stjörnum er skinið hafa hvað skærast á árinu, til góðs eða ills, áfram. Þegar hafa komið við sögu David Cameron forsætisráðherra Bretlands, Liu Xiabio friðarverðlaunarhafi nóbels, Suður-Afríka gestgjafi Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu, Lebron James körfuknattleiksmaður og Angela Merkel kanslari Þýskalands. Eftir standa þá fimm efstu sætin og ekki eftir neinu að bíða.

Í framhaldi af pistli gærdagsins, heldur niðurtalningin á þeim stjörnum er skinið hafa hvað skærast á árinu, til góðs eða ills, áfram. Þegar hafa komið við sögu David Cameron forsætisráðherra Bretlands, Liu Xiabio friðarverðlaunarhafi nóbels, Suður-Afríka gestgjafi Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu, Lebron James körfuknattleiksmaður og Angela Merkel kanslari Þýskalands. Eftir standa þá fimm efstu sætin og ekki eftir neinu að bíða.

5. sæti – Julian Assange

Fáir fjölmiðlamenn hafa vakið jafn heiftug viðbrögð og ástralski lekameistarinn Julian Assange hefur náð að framkalla síðustu mánuði. Þessi fyrrum tölvuþrjótur hefur stundað það að leka út illa fengnum upplýsingum á vefsíðu sína svo almenningur geti forvitnast um innihald þeirra. Lak hann meðal annars út lánabók Kaupþings líkt og frægt er á seinasta ári. Í ár gerði hann enn betur og komst yfir 250 þúsund blaðsíður af leyniskjölum frá bandarísku utanríkisþjónustunni. Hefur hann lekið hluta þeirra út og hótar að bæta heldur í þann bunka. Með lekanum hafa bandarískir diplómatar og starfsmenn utanríkisþjónustna um víða veröld þurft að leggja allt sitt í að vinna upp þann skaða sem mögulega vannst af lekanum. Assange er eftirlýstur í Svíþjóð fyrir kynferðisbrot og gæti mögulega orðið eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir að leka trúnaðarskjölunum. Assange hefur á skömmum tíma byggt sér upp stóran hóp fylgismanna og er næsta víst að síða hans hafi gjörbreytt vinnulagi í utanríkisþjónustu á heimsvísu og eflaust í fleiri geirum. Víst verður að teljast að tölvupóstar um viðkvæm málefni munu dragast mikið saman á heimsvísu og mikil aukning í sölu frímerkja er á næsta leyti.

4. sæti – Námumennirnir í Chile

Fáir, ef einhverjir atburðir ársins 2010 vöktu jafn mikla athygli og samhug og þegar 33 námuverkamenn festust í námugöngum í Chile. Þann 5. ágúst s.l. féllu göngin saman í San José námunni í Chile með þeim afleiðingum að 33 námuverkamenn festust inni og voru í upphafi taldir af. Sautján dögum eftir slysið komst bor þeirra á yfirborðinu í gegn til námuverkamannanna sem límdu miða á borinn. Þegar borinn kom aftur upp á yfirborðið voru skilaboðin sem límd voru á enda hans skýr „Við erum í lagi í göngunum, 33 okkar“. Fáir höfðu leyft sér að vona að þeir hefðu lifað svona lengi af í göngunum, en þá tók við allsherjar fjölmiðlasirkus og gríðarleg vinna við að bjarga námumönnunum sem fyrst úr prísundinni. Þegar þarna var komið við sögu höfðu mennirnir lifað af „tveimur skeiðum af túnfiski, mjólkursopa og kexköku“ einu sinni á hverjum 48 klst og búið við mikinn hita. Erfiðlega gekk að koma björgunarhylkjum til þeirra vegna erfiðra aðstæðna og var það loksins 12. október, rúmum teimur mánuðum eftir að göngin féllu saman, er fyrstu mennirnir komu upp á yfirborðið við glymjandi fögnuð. Forseti Chile, fjölskyldur og fjölmiðlar heimsins biðu þeirra fyrir utan og samfagnaði stór hluti heimsbyggðarinnar þeim þrjátíu og þremur.

3. sæti – Dominique Strauss-Kahn
Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er slökkviðilið fjármálakerfis heimsins, þá er Strauss-Kahn slökkviliðsstjórinn og það hafa geisað miklir eldar. Í seinustu fjölþraut AGS á tíunda áratugnum í Asíu og S-Ameríku kostaði aðkoma sjóðsins mikil mótmæli, óróa, mótstöðu og jafnvel stjórnmálakreppu vegna aðkomu sjóðsins að málefnum landanna. Í kjölfar fjármálakrísunnar 2008 hefur sjóðurinn komið fleirum en Íslandi til aðstoðar. Grikkland, Írland, Úkraína, Pakistan hafa leitað til sjóðsins og jafnvel Portúgal, Belgía og Spánn gætu fylgt eftir. Hefur aðkoma hans í þetta skiptið valdið lítilli mótstöðu og jafnvel haft ráðandi áhrif á samskipti ríkja. Sagt er að Strauss-Kahn hafi verið í lykilhlutverki við að sannfæra Angelu Merkel um umfang stuðnings við Grikkland þegar landið stefndi í greiðsluþrot á árinu. Farsæl stjórnun hans á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem hann hefur í ýmsum þáttum umbylt, líkt og með röðun stjórnarmeðlima sjóðsins, hefur leitt til þess að mikill þrýstingur er á hann að bjóða sig fram að nýju, í forvali fyrir forsetakosningarnar í Frakklandi 2012, en Ségoléne Royal þykir ekki líkleg til að eiga mikinn möguleika gegn Sarkozy, en meiri líkur eru taldar á að Dominique Strauss-Kahn gæti orðið næsti forseti Frakklands.

2. sæti – Kim Jong Il
Einræðisherrann og höfuð glæpafjölskyldunnar er stjórnar Norður-Kóreu, Kim Jong Il lendir í öðru sæti. Hryllileg meðferð hans og fjölskyldu hans á þjóðinni hefur núna viðgengist í rúmlega hálfa öld og er engin breyting á því í sjónmáli. Hann hefur náð að viðhalda munaðarlíferni sínu og sinna í gegnum árin til að mynda með því að flytja út vopn, falsaða peninga, sígarettur o.fl en á meðan svelta landsmenn heilu hungri. En þrátt fyrir að halda ágætlegum lífsstíl á glæpaiðju sinni þyrsti Kim Jong Il og glæpahundum hringborðsins fljótlega í betri vín og gylltari styttur fyrir framlag sitt. Með falli vina þeirra í Sovétríkjunum hafði spónn farið úr aski þeirra sem þurfti með einhverjum hætti að bæta. Kim Jong Il fann fljótlega upp aðferðafræði sem virkar í hvert skipti. Árið 1994 hafði hann hótað að koma sér upp kjarnavopnum, sem að sjálfsögðu hugnaðist ekki nágrönnum hans eða öðrum jarðarbúum ef því er að skipta. Eftir nokkurt þóf, samþykkti hann að hætta við að þróa kjarnavopn í skiptum fyrir rausnarlega „mannúðaraðstoð“ sem rann að sjálfsögðu að mestu til hans sjálfs. Eftir að hafa þegið dúsuna tók hann upp aftur kjarnorkuáætlun sína og tilkynnti með hvelli árið 2006 að hann hefði þá úr að ráða kjarnavopnum. Þessi aðferðafræði að beita ofbeldi eða storka umheiminum og lofa svo að hætta því hið snarasta í skiptum fyrir veglegar millligjafir og vinsamlegri meðhöndlun hjá siðmenntuðum ríkjum hefur núna viðgengist lengi hjá Kim Jong Il. Þrátt fyrir að ráðamenn ættu að vera því viðbúnir, í ljósi sögunnar, ákvað Kim Jong Il að ráðast á suður-kóreskt herskip fyrr í ár og að sjálfsögðu hóta öllu illu ef ekki yrði það látið óátalið. Bætti svo um betur og réðst á Suður-Kóreska eyjuna Yeonpyeong núna síðari hluta árs og mun án efa enda fjáðari fyrir vikið. Taflið sem Kim Jong Il teflir, er að hræða heimsbyggðina með yfirvofandi styrjöld á Kóreuskaganum sem fæstir vilja og bjóða svo upp á frið í skiptum fyrir mútur. Svipað eins og mafían býður upp á í hverfum Sikileyjar. Ef Íraksstríðið er dæmi um afleiðingar við íhlutun annarra ríkja í nafni annars en hreinnar sjálfsvarnar, er mafíuríkið kennslubókardæmi um mögulegar afleiðingar ef umheimurinn leyfir sturluðum einræðisherrum að svívirða þjóð sína og nágranna óáreitt. Kim Jong Il lendir í öðru sæti fyrir að geta kúgað valdamestu ríki heims þrátt fyrir að fara fyrir einu vanþróaðasta og fátækasta ríki veraldar, með sömu gömlu brögðunum. Megi því linna sem fyrst

Stjarna ársins – Eyjafjallajökull
Það voru ekki margir utan þröngs hóps fræðimanna sem vissu fyrir eldgosið í Eyjafjallajökli að í eldfjallaösku væru gleragnir, sem gætu bráðnað og eyðilagt flugvélahreyfla ef þær kæmust í snertingu við þá. Eins eru ekki margir sem voru við meðvitund árið 2010, sem ekki gera sér grein fyrir þeirri sömu vá í dag. Eyjafjallajökull varð á örskotsstundu langfrægasti Íslendingurinn, fyrr og síðar. Með nokkrum púum snarstöðvaðust flugsamgöngur í Evrópu og í rúma viku lágu flugsamgöngur að mestu niðri í Norður-Evrópu. Mikill fjöldi ferðamanna mátti dúsa á flugvöllum, hótelum og garðbekkjum helstu umferðaræða háloftanna. Air Force One sem á að þola kjarnorkustyrjöld var ekki einu sinni treyst til að fara með Barack Obama, bandaríkjaforseta til Póllands í minningarathöfnina vegna slyssins þegar nánast öll valdastétt Póllands fórst í flugslysi. Fréttir bárust af aðþrengdum ferðamönnum sem tóku leigubíla eða jafnvel keyptu bíla til að ferðast yfir Evrópu þvera og endilanga til að komast til síns heima. Mikil örtröð myndaðist á hótelum og flugvöllum í flestum ríkjum Vesturlanda og í hverjum fréttatíma mátti sjá myndir af örvæntingafullum ferðalöngum sem vissu ekki hvort eða hvernig eða hvenær það kæmist heim. Erlendir fréttamenn voru margir hverjir í erfiðleikum með að bera fram nafn þessa fjalls sem olli öllum vandræðunum, og var það orðið vinsælt efni hjá uppistöndurum Hollywood að reyna að bera fram nafn Eyjafjallajökuls án þess að falla í yfirlið af áreynslu. Enn í dag eru flugfélögin að greiða úr þeim vandræðum sem upp komu vegna eldgossins, en þeim var gert að bæta skaða ferðalanga sinna að einhverjum hluta vegna þeirra tafa sem allt þetta tilstand kostaði. Vísindamenn sem hafa áhuga á að rannsaka mögulega samvinnu flugumferðar og ösku hafa þó aldrei haft jafn auðvelt með að fjármagna rannsóknir sínar og nú. Eyjafjallajökull hlýtur nafnbótina stjarna ársins 2010 og er einstaklega vel að henni kominn.

Að lokum óska ég lesendum gleðilegs nýs árs og óska framtíðarstjörnum ársins 2011 góðs gengis á komandi ári

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.