„Að ná sér niðri á gömlum andstæðingum“

Lög um ráðherraábyrgð og lög um landsdóm voru sett árið 1904 þegar Íslendingar fengu heimastjórn. Í umræðum á Alþingi frá þessum tíma kemur m.a. fram að landsdómur væri nauðsynlegur með tilliti til varnarþingsregla enda var enginn dómstóll á Íslandi á þessum tíma. Menn töldu ekki tækt að draga menn fyrir dóm í útlöndum, þ.e. í Danmörku. Á þessum tíma hafði Ísland hvorki dómstól í landinu né heldur var þingræði við lýði eins og er í dag.

Lög um ráðherraábyrgð og lög um landsdóm voru sett árið 1904 þegar Íslendingar fengu heimastjórn. Í umræðum á Alþingi frá þessum tíma kemur m.a. fram að landsdómur væri nauðsynlegur með tilliti til varnarþingsregla enda var enginn dómstóll á Íslandi á þessum tíma. Menn töldu ekki tækt að draga menn fyrir dóm í útlöndum, þ.e. í Danmörku.

Ef farið er enn lengra aftur í tímann má lesa í umræðum á Alþingi frá árinu 1886 að æskilegast væri að þurfa ekki á öðru né meiru að halda en þingræðislegum hegningum en þar sem þingræðisreglan væri ekki viðurkennd í framkvæmd ennþá, þyrftum við lögin. Á þessum tíma hafði Ísland hvorki dómstól í landinu né heldur var þingræði við lýði. en það merkir að meirihluti þings verður að styðja eða a.m.k. þola ríkisstjórn í embætti. Fyrirkomulagið varðandi landsdóm eins og það er í dag verður því að teljast úrelt og halda sumir því fram að það sé í raun óþarft m.t.t. þingræðis.

Ekki verður tekin afstaða til þess hvort landsdómur sé fyrirbæri sem er nauðsynlegt að hafa í einhverri mynd en það hefði þurft að endurskoða lög um landsdóm og ráðherraábyrgð fyrir löngu síðan. Reyndar hefur það oft verið tekið til skoðunar en aldrei verið framkvæmt. Árið 1999 skilaði nefnd á vegum forsætisráðuneytisins af sér skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda og var niðurstaða hennar að ákvæði laga um ráðherraábyrgð væru of almennt orðuð og óljós til að fullnægja meginreglunni um skýrleika refsiheimilda skv. stjórnarskrá m.t.t. þróunar í mannréttindamálum.

Einnig telja fræðimennirnir Róbert R. Spanó og Andri Árnason að a-liður 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna fullnægi ekki ofangreindum kröfum og viðurkenndi prófessor Ólafur Jóhannesson, sem samdi frumvarp til laganna beggja, að 10. gr. væri nokkuð matskennd. Árið 2009 skilaði nefnd á vegum forsætisráðuneytisins af sér skýrslu Alþingis um eftirlit með framkvæmdarvaldinu og var niðurstaða hennar að taka þyrfti bæði lög um landsdóm og ráðherraábyrgð til endurskoðunar. Ekki var þó pólitískur vilji á Alþingi til að breyta lögunum á þeim tíma. Ber vel að merkja að þingmenn voru margir hverjir yfir sig hissa á fyrirkomulagi laganna og mögulegum mannréttindabrotum þegar kosið var um það í september hvort draga ætti fyrrum ráðherra fyrir landsdóm þrátt fyrir að stór hluti þingmanna hafi verið upplýstir um stöðu mála rúmu ári áður.

Hvað varðar svo skipan landsdóms hafa komið fram efasemdir um það en landsdómur er bæði skipaður löglærðum einstaklingum og einstaklingum sem þingið kýs og er tilgangur með þessari skipan að tryggja að tekið sé mið af lögfræðilegum jafnt sem pólitískum sjónarmiðum. En, á að taka mið af pólitískum sjónarmiðum í refsimáli? Þessi staðreynd ein og sér ætti að vera nóg til þess að breyta fyrirkomulaginu.

Alfreð Gíslason fyrrverandi þingmaður sagði á þingi árið 1962 að ákvæði laganna væru sum of matskennd og væri þannig mögulegt að misbeita þeim og þau væru til þess fallin að á tíma flokkadrátta í stjórnmálum gæti nýr þingmeirihluti beitt þeim til að „ná sér niðri á gömlum andstæðingum“. Það væri hlægilegt ef það væri ekki svona sorglegt að það er akkúrat það sem gerðist þann 27. september sl. þegar kosið var um þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar.

Fólk, þar á meðal þingmenn, virðist stundum rugla saman hinni pólitísku og siðferðilegu ábyrgð við þá lagalegu. Hér var ákveðin pólitísk stefna og henni fylgdi pólitísk ábyrgð, ákveðnir aðilar sem þá voru við völd hafa axlað slíka ábyrgð og eru horfnir úr stjórnmálum. Það á þó reyndar ekki við um alla. Það gefur ekki tilefni til þess að kalla saman landsdóm og kæra fyrrum ráðherra fyrir refsiverða háttsemi. Það er stór munur á því að bera pólitíska ábyrgð og vera ákærður fyrir refsiverða háttsemi.

Stjórnarþingmaður sagði ráðherra hafa pólitískt umboð og að dæmt yrði um hvort þeir hafi rækt skyldur sína við að gæta hagsmuna almennings. Hún bætti við að landsdómur væri pólitískur í eðli sínu en væri ekki sakadómur. Þetta er áhugavert. Samkvæmt 1. gr. laga um landsdóm er það landsdómur sem fer með og dæmir þau mál, er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra. Lög um ráðherraábyrgð eru sérrefsilög en samt telur þingmaðurinn að landsdómur sé ekki sakadómur. Hvernig má það vera?

Stjórnarþingmaðurinn sagði að „auðvitað“ yrði landsdómur pólitísk rétthöld, og bætti við að um uppgjör við frjálshyggjuna væri að ræða.
Jóhanna Sigurðadóttir, forsætisráðherra, sagði beinlínis að þetta yrði gert til að sefa almenning. Að meirihluti þingsins sé tilbúinn að höfða sakamál til þess að „sefa almenning“ er óraunveruleg staðreynd. Þetta er stórhættuleg þróun og að þessir hlutir séu að gerast á Íslandi er bæði varhugavert og til háborinnar skammar.

Latest posts by Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir (see all)