Samstíga stöndum vér

Undir lok næstu viku munu fulltrúar sveitarfélaganna á Austurlandi koma saman til skrafs og ráðagerða á Breiðdalsvík þegar að árlegur aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) verður haldinn. Að öllu jöfnu væri slíkur fundur ekki ofarlega í huga mér, hvað þá að ég eyddi á hann pistli. Nú er hins vegar uppi ákveðin ögurstund fyrir sveitarfélögin á Austurlandi og landshlutasamtök þeirra.

Undir lok næstu viku munu fulltrúar sveitarfélaganna á Austurlandi koma saman til skrafs og ráðagerða á Breiðdalsvík þegar að árlegur aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) verður haldinn. Að öllu jöfnu væri slíkur fundur ekki ofarlega í huga mér, hvað þá að ég eyddi á hann pistli. Nú er hins vegar uppi ákveðin ögurstund fyrir sveitarfélögin á Austurlandi og landshlutasamtök þeirra.

Fundurinn að þessu sinni er haldinn í skugga vægast sagt klaufalegrar og þar af leiðandi umdeildrar ráðningar framkvæmdastjóra samtakanna og stórra yfirlýsinga sveitarstjórnarmanna undanfarnar vikur vegna legu þjóðvegar eitt um fjórðunginn. Þetta er mál sem hefur verið til umræðu í áratugi og sprottið upp með reglulegu millibili en þó sjaldan með jafn miklum þunga og nú hefur verið.

Málið er í raun ekki flókið. Í dag liggur vegurinn frá Egilsstöðum um Skriðdal og niður Breiðdalsheiði út Breiðdal og síðan suður með ströndinni áfram til Reykjavíkur. Í Skriðdal er enn smá kafli án bundins slitlags. Breiðdalsheiði liggur síðan í 470 m hæð og þar er vegurinn án klæðningar og sömu sögu má segja um stóran hluta Breiðdals. Þá er umferðarþungi á leiðinni með þeim hætti að vetrarþjónusta um veginn er engin. Það er því ljóst að nokkur kostnaður er því samfara að gera leiðina þannig úr garði að umferðaröryggi verði þjóðleið bjóðandi.

Í Fjarðabyggð hefur sú rödd verið ráðandi að almenn skynsemi bjóði að vegurinn verði fluttur þannig að hann liggi frá Egilsstöðum niður Fagradal og þaðan um veginn sem í dag ber númerið 96 og liggur frá Reyðarfirði og um Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð og tengist þar þjóðvegi eitt við Breiðdalsvík. Er þessi leið malbikuð að fullu auk þess sem hún liggur öll um láglendi utan Fagradal sem nær mest 350 m hæð. Auk þess er leiðin á hæsta þjónustustigi vetrarþjónustu. Þetta hefur upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar boðað að kosti 10-20 milljónir. Ekki liggja þó fyrir forsendur þeirra útreikninga.

Þetta eru nágrannarnir á Djúpavogi og Fjótsdalshéraði ekki til umræðu um enda virðast þeir einhverra hluta vegna telja að slíkt sé til þess að flækjast fyrir fyrirhuguðum milljarðsframkvæmdum við gerð heilsársvegar um hinn 530 m háa fjallveg um Öxi sem komst á samgönguáætlun í kjölfar ráðherradóms Kristjáns Möllers sem mótvægisaðgerð við kvótaniðurskurði. Þeir eru einnig til sem tala fyrir því að þjóðvegur eitt liggi um Öxi enda eigi þjóðvegur ávallt að vera stysta leið til Reykjavíkur. Tel ég slíka hugsun fullkomlega galna eins og fram kemur í pistli sem ég skrifaði á þessum vettvangi fyrir einhverju síðan.

Í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna síðastliðið vor hafa skotgrafirnar verið opnaðar að nýju vegna þessa máls og skeytin flogið á milli aðila með misjafnlega málefnalegum hætti.

Þetta mál ætlar að reynast Austfirðingum þungt líkt og svo oft áður og engar líkur á úrlausn meðan umræðan er á því plani sem verið hefur. En í öngstrætinu felst tækifæri. Það er leið út úr því sem að mínu mati myndi einnig lyfta SSA upp á hærra plan og auka tiltrú almennings í fjórðungnum á fyrirbærinu.

Eins og áður sagði fer aðalfundur SSA fram dagana 24. og 25. september nk. Þar verða samgöngumálin án nokkurs efa fyrirferðamikil. Þar verða einnig ræddar þær hugmyndir sem samþykktar voru á aðalfundinum fyrir ári síðan og enda áttu í einni allsherjar sameiningu fjórðungsins. Þegar gleðivíma fundarins bráði af mönnum urðu þeir þess hins vegar varir að stuðningur við slíkar hugmyndir var ekki ýkja mikill meðal almennings.

Nýr meirihluti í Fjarðabyggð mun bregðast við þessu á fundinum en í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá því í vor segir:
“[Á aðalfundi SSA í haust] mun Fjarðabyggð vinna að endurskoðun á þeim hugmyndum sem nú er unnið eftir um hugsanlega sameiningu á Austurlandi og horfa frekar til aukinnar samvinnu sveitarfélaganna, en sameiningar, á ýmsum sviðum þar sem málefni þeirra liggja saman.“. Felst í þessu viðurkenning á því að aukið samstarf frekar heldur en eiginleg sameining sé skynsamlegt skref á þessum tímapunkti. Það er nefninlega þannig að samstarf þarf ekki að leiða til sameiningar og sameiningu þarf ekki til þess að vel heppnað og gefandi samstarf geti orðið á milli sveitarfélaga um málefni sem henta til samstarfs. Það er m.ö.o fullkomlega gerlegt að vera samstíga án þess að vera sameinuð.

Þriðja atriðið sem rætt verður, og það mikilvægasta í mínum huga, er síðan það hvernig sveitarfélög á Austurlandi ætla að standa að yfirfærslu á málefnum fatlaðra til þeirra nú um áramótin. Í þessu felst gríðarleg áskorun en á sama tíma mikið og gott tækifæri til þess að veita bestu mögulegu þjónustu til handa þeim einstaklingum sem glíma við fötlun í samfélögum okkar. Mikilvægt er að vel takist til við þetta verkefni þannig að styrkleikar og möguleikar sveitarfélaganna til þess að veita þessa nærþjónustu fái að blómstra á sama tíma og sú þekking sem byggst hefur upp í gegnum tíðina hjá Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Austurlandi haldist í fjórðungnum og nýtist áfram þessum nýju skjólstæðingum sveitarfélagana.

Í þessum þremur málefnum felst tækifæri fyrir SSA ef rétt er tekið á þeim. Þeir fulltrúar sem þingið sækja eiga að átta sig á ágöllum heildarsameiningar á þessum tímapunkti og líta frekar til aukinnar og skilvirkari samvinnu sveitarfélaganna þar sem styrkleikar þeirra sem heildar fá að njóta sín í þeim málaflokkum sem hentugir eru til samstarf. Það eiga þeir síðan að sýna fram á með því að taka sameiginlega á málefnum fatlaðra í fjórðungnum og standa saman að byggðasamlagi um utanumhald þjónustunnar þó framkvæmdin verði einnig verulega á hendi félagsþjónustu einstaka sveitarfélaga.

Að lokum á SSA síðan að koma sér saman um forgangsröðun í samgöngumálum fjórðungsins til næstu ára þar sem byggt verði á faglegu mati Vegagerðarinnar varðandi framtíðarlegu þjóðvegar eitt. Þar sem samstaða verður um að knýja áfam á um ný Norðfjarðargöng. Þar sem samstaða næst um að berjast fyrir því að vetrareinangrun Seyðisfjarðar verði rofin með jarðgöngum. Þar sem einbreiðar brýr hverfi af fjölförnustu vegunum. Þar sem bundið slitlag verði lagt á það sem eftir stendur af fjölförnustu vegum fjórðungsins og þar sem samstaða verður um að leggja sómasamlegan sumarveg um Öxi fyrir þá sem vilja spara sér kílómetrana á ferðalögum milli fjórðunga.

Austfirðingar eiga að horfa til þess hvernig Fáskrúðsfjarðargöng náðust í gegn á sínum tíma og til þess hvernig framtíðarbúseta á mið-Austurlandi var tryggð með tilkomu atvinnutækifæra. Það náðist ekki í gegn með önugheitum og skeytasendingum í fjölmiðlum heldur samstöðu og því hvernig byggðir austfjarða sneru bökum saman í baráttunni.

Það hugarfar að úrbætur á vanda eins kalli dauða og djöful yfir nágranna hans er úrelt og leiðinlegt til lengdar. Samstíga náum við baráttumálum okkar fram. Öll stefnum við að sama markmiði sem er bætt lífskjör í fjórðungnum. Þeim markmiðum náum við ekki nema við berum kröfur okkar fram einni röddu. Ósamstaða færir okkur ekkert nema afsökun til handa ráðherrum og þingmönnum til þess að skálka í skjóli sundrungar og viðhalda þannig kyrrstöðu.