9 ár : 11 september

Í dag eru níu ár liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin, þann 11. september 2001. Þá rændu hryðjuverkamenn Al-Qaeda fjórum farþegaflugvélum og flugu tveimur þeirra á Tvíburaturnanna í New York, einni þeirra á Pentagon í Washington D.C. og hrapaði sú fjórða í Pennsylvaniu eftir að hryðjuverkamennirnir lentu í átökum við farþega vélarinnar. Í þessum árásum fórust tæplega 3.000 manns og enn fleiri slösuðust

Í dag eru níu ár liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin, þann 11. september 2001. Þá rændu hryðjuverkamenn Al-Qaeda fjórum farþegaflugvélum og flugu tveimur þeirra á Tvíburaturnanna í New York, einni þeirra á Pentagon í Washington D.C. og hrapaði sú fjórða í Pennsylvaniu eftir að hryðjuverkamennirnir lentu í átökum við farþega vélarinnar. Í þessum árásum fórust tæplega 3.000 manns og enn fleiri slösuðust.

Voðaverkin eru flestum í minni greipt, ef ekki öllum, sem upplifðu atburði þessa dags fyrir níu árum síðan. En það sem gerði þessa árás sérstaklega óhugnalega, var að þarna var almennum samgöngutækjum beitt sem vopnum gegn borgaralegum mannvirkjum. Flest fórnarlömb árásanna voru venjulegir borgarar sem störfuðu í eða við þau mannvirki sem ráðist var á.

Það sem aðgreindi þessa árás, frá öðrum hryðjuverkaárásum í okkar heimshluta síðustu áratugi, er að þarna var um að ræða hryðjuverkasveit sem starfaði í samvinnu við erlenda ríkisstjórn. Osama Bin Laden og hryðjuverkasveitir hans höfðu myndað bandalag með hinum ógeðfelldu Talíbönum í Afganistan. Þetta var því í raun árás af hendi hóps sem sat í skjóli annars ríkis, en síðasta árás erlends ríkis á Bandaríkin var árásin á Pearl Harbour 1941.

Með árásinni á Pearl Harbour ætlaði japanska keisaraveldið sér að ná yfirráðum á Kyrrahafi og beindu því árásinni að skipaflota bandaríska hersins. Hvaða markmið skyldu hafa legið að baki árásinni á Bandaríkin 11. september 2001, sem miðaðist við borgaraleg mannvirki, – önnur en að reyna að myrða sem flesta og framkalla sem mestan ótta ?

Erfitt er að sjá að háleitari markmið en hatur þessara afla á vestrænum gildum og eðli frjálslyndra lýðræðisríkja hafi verið það sem dreif þá áfram í þessum árásum. Eflaust höfðu þeir búist við að árásin myndi kveikja baráttumóð hjá fleiri múslímskum skoðanabræðrum sínum og tendra einhverskonar baráttueld meðal ákveðinna múslimskra hópa, sem telja sig hlunnfarna í samskiptum sínum við vesturlönd. Sú áætlun rann meira og minna út í sandinn, en sem dæmi taldi Hosni Mubarak forseti Egyptalands þessi voðaverk ekki á færi múslima, þetta hlyti að vera verk CIA eða Mossad.

Viðbrögð bandamanna við þessari árás voru þau, að í fyrsta skipti frá stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO), var 5. grein virkjuð, en hún kveður á um að árás á eitt ríki bandalagsins jafngildi árás á þau öll. Strax var þess krafist að Talíbanastjórnin myndi framselja Osama Bin Laden, sem hún neitaði og í framhaldi hófst innrás undir forystu Bandaríkjanna og Bretlands sem leiddi til uppgjafar tveimur mánuðum síðar. Mullah Omar, hæstráðandi Talíbana og Osama Bin Laden eru taldir hafa flúið í fjallahéruð Pakistans og feli sig þar enn þann dag í dag. Með brotthvarfi Talíbanastjórnarinnar gafst möguleiki á að binda enda á eitt ömurlegasta skeið í sögu Afganistan, þegar konur voru grýttar til dauða og menn hengdir í markslám fótboltavalla fyrir minnstu yfirsjónir, öðrum til skemmtunar. Þess í stað geta konur nú átt þann möguleika að mennta sig og kjósa sér forseta án ótta við morðótt yfirvald.

Það sem gerði árásina á Bandaríkin svo sérstaka, utan við það gríðarlega mannfall og tjón sem af henni varð, er að þarna var gerð árás á höfuðborg heimsviðskiptanna og höfuðborg Bandaríkjanna af hendi hryðjuverkasveitar sem starfaði í samvinnu við annað ríki. Frá falli Sovétríkjanna höfðu margir talið sér trú um það, að héðan í frá þyrfti frjálslyndu lýðræðisríkin ekki að þurfa að óttast stríð eða ofbeldi vegna hugmyndafræði sinnar. Móða komst á þá heimsmynd við þessa hrottafengnu árás.

Af einhverjum ástæðum virðist þeirri skoðun vaxa ásmegin hjá ákveðnum hópi hér á landi að viðbrögð við slíkum árásum séu í eðli sínu táknmynd um heimsvaldsstefnu eða árásargirni. Jafnvel að það hafi verið rangt að steypa þeirri ríkisstjórn af stóli, sem stóð á bakvið árásirnar á Bandaríkin og framdi fjöldamorð um árabil á dætrum sínum og sonum vegna eigin trúarofstopa og algeru skeytingarleysi fyrir mannslífum og mannlegri reisn.

Þrátt fyrir að það sé falleg hugmynd, að tileinka sér þá lífssýn að átök séu aldrei forsvaranleg, geta ábyrg stjórnvöld ekki leyft sér svo þægilega heimssýn. Að krefjast heimsfriðar með kjarnyrtu pappaspjaldi er munaður sem frjálslynd lýðræðisríki búa yfir, en sá munaður getur aldrei varið okkur fyrir árásargirni þessara afla. Baráttan við öfgaöfl og hryðjuverkaríki verður því miður aldrei unnin með málfundum og slagorðum, þó góðviljuð séu.

Heil kynslóð er nú uppi sem hefur ekki alist upp við neinn annan veruleika en frjálslynt lýðræði, og á nánast enga minningu um, að því skipulagi okkar sé ógnað með nokkrum hætti af erlendum mætti. Árásirnar á Tvíburaturnanna voru því ný upplifun og óvelkomin upprifjun fyrir þá sem eldri eru að í þeirri veröld sem við búum í, eru samtök og jafnvel ríki sem eru tilbúin að framkvæma óhugsanleg myrkraverk til þess að koma höggi á frjálslynd lýðræðisríki eða koma eigin hugmyndafræði á framfæri. Fleiri árásir fylgdu líka eftir, þegar sprengjur sprungu í lestarkerfi Madrídar 11. mars 2004 þar sem 191 einstaklingar týndu lífi sínu og 1.800 slösuðust, og svo aftur í London 7. júlí 2005 þar sem 52 einstaklingar týndu lífi sínu og aðrir 700 slösuðust, og mjög líklega eiga fleiri árásir eftir að verða framkvæmdar, því miður.

Þetta vestræna módel, sem byggir á frjálslyndu lýðræði, er ein okkar allra besta uppfinning. Henni hefur tekist, þrátt fyrir ýmsar hindranir, að leysa það erfiða verk að fá fólk með mismunandi trúar, stjórnmála og siðferðisskoðanir til að lifa saman í sátt og samlyndi án hættu á borgarastyrjöldum eða kúgun minnihlutahópa, ásamt því að leiða af sér allra bestu lífskjör og öryggi sem völ er á og tryggja grundvallarréttindi einstaklingsins. Lexía hryðjuverkaárásanna 11. september er, að sú hugsjón á sér enn keppinauta og að sá tími er síður en svo liðinn, að við þurfum að verja hana.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.