Heimskuleg hverfaskipting

Margir framhalsskólanemar standa nú frammi fyrir því að komast ekki inn í þann skóla sem þeir helst kysu en í staðinn er þeim gert að hefja nám í “hverfisskólanum” sínum samkvæmt nýjum innritunarreglum í framhaldsskóla. Mikil óánægja er með þetta eins og við höfum séð af fréttum undanfarna daga.

Nú er sá tími ársins þegar nýútskrifaðir grunnskólanemar njóta lífsins fullir tilhlökkunar til haustsins þegar námið í framhaldsskóla hefst. Í ár er tilhlökkunin hjá mörgum sama og engin en nú standa margir framhalsskólanemar frammi fyrir því að komast ekki inn í þann skóla sem þeir helst kysu en í staðinn er þeim gert að hefja nám í “hverfisskólanum” sínum samkvæmt nýjum innritunarreglum í framhaldsskóla. Mikil óánægja er með þetta eins og við höfum séð af fréttum undanfarna daga.

Nýju reglurnar, sem settar voru í vetur, kveða á um að 45% af þeim nemendum sem framhaldsskólarnir taka inn skulu koma úr hverfinu sem skólinn er staðsettur í. Nemendur eru einnig metnir eftir einkunnunum en eftir að samræmdu prófin voru afnumin er samanburður milli skóla erfiður. Þetta veldur því einfaldlega að krakkar úr hverfinu komast inn í sína skóla á lágum einkunnunum en krökkum með háar einkunnir er vísað frá þar sem þeir búa ekki í „rétta“ hverfinu.

Auðvitað er aldrei hægt að gera öllum til geðs og það verða aldrei allir ánægðir með fyrirkomulag innritunar í framhaldsskóla. Það liggur einnig í hlutarins eðli að þegar mun fleiri sækja um tiltekinn skóla en skólinn getur tekið við þá verður ákveðinn hópur ósáttur. Þannig er það nú bara. Það sem er hins vegar út úr öllu korti er að þeir sem þó komast inn séu valdir út frá búsetu sinni, en ekki á hæfileikum sínum og frammistöðu.

Eftir að gengið var frá innritunum í framhaldsskólana, kom menntamálaráðherra fram og tilkynnti að yfir 80% nemenda hefðu komist að í „draumaskólanum“ sínum eins og ráðherrann kaus að kalla það. Það hlýtur þá að vera ótrúlega heppilegt að svona stór hópur nemenda líti á hverfisskólann sinn sem draumaskólann. Eða er það kannski ekki frekar þannig að nemendur þekkja þessar nýjar reglur og þora ekki annað en að setja hverfisskólann í fyrsta eða annað val af ótta við að komast kannski hvergi að?

Hin leiðinlega stefna stjórnvalda um að allir eigi að vera jafnir og helst megi enginn skara fram úr kristallast vel í þessum reglum. Stjórnvöld vilja koma í veg fyrir einhvers konar „elítuskóla“ og allir skólarnir virðast eiga að vera sem líkastir hver öðrum. Þá væri líklega best að taka upp eina námskrá og einn framhaldsskóla sem hefði útibú í öllum hverfum. Þar væri kennt það nákvæmlega sama, allir fengju svipaðar einkunnir og allir voða jafnir og fínir.

Það á nefnilega einmitt að vera styrkur framhaldsskólana að þeir eru ólíkir og áherslur eru mismunandi. Í því sambandi er kannski ekki rétt að tala um bestu og verstu skólana, heldur á hver nemandi að geta valið framhaldsskóla út frá námsleiðum og áherslum sem henta hans áhugasviði. Samkeppni milli framhaldsskólana er nefnilega af hinu góða og þeir eiga að þurfa að keppast um bestu nemendurna. Þegar nemendur eru í áskrift að hverfisskólanum sínum hvetur það þá ekki til að standa sig sem allra best, svo ekki sé nú minnst á hversu ósanngjarnt það er gagnvart nemendum sem leggja hart að sér og ná góðum árangri, að komast ekki að í framhaldsskóla vegna búsetu.

Einhverjir kunna að velta því fyrir sér hvort stjórnvöld hyggjast taka hverfisskiptinguna skrefinu lengra og færa hana yfir á háskólastigið. Þannig að háskólanemar á Norðurlandi þyrftu flestir að fara í Háskólann á Akureyri, Bifröst tæki inn fólk af Vesturlandinu, Háskóli Íslands tæki inn fólk úr 107 og 101, Háskólinn í Reykjavík tæki inn fólk úr 101 og 105 og svo framvegis.

Núverandi kerfi við innritun í framhaldsskóla er fáránlegt. Stjórnvöld ættu að taka eitt skref til baka og hugsa dæmið upp á nýtt. Hugsanlega voru mistök að afnema samræmdu prófin þar sem af því sköpuðust mikil vandræði við að að meta nemendur úr ólíkum skólum. Í öllu falli væri skárra að fara algjörlega eftir einkunnunum þegar verið er að taka nemendur inn í framhaldsskóla en eftir því hvar foreldrar þeirra keyptu húsnæði fyrir mörgum árum síðan

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.