Sjónvarpslausi mánuðurinn snýr aftur

Um þessar mundir er hátíðarstemning í sjónvörpum landsmanna þar sem meitlaðir líkamar spyrna knetti og fróðir spekingar greina atferlið. Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stendur núna yfir í fimm vikur við mikla kátínu fjölda fólks. Fólk sem hefur hins vegar ekki áhuga á fótbolta upplifir þetta eins og að fara áratugi aftur í tímann þegar ekkert sjónvarp var í heilan mánuð yfir hásumarið.

Um þessar mundir er hátíðarstemning í sjónvörpum landsmanna þar sem meitlaðir líkamar spyrna knetti og fróðir spekingar greina atferlið. Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stendur núna yfir í fimm vikur við mikla kátínu fjölda fólks. Fólk sem hefur hins vegar ekki áhuga á fótbolta upplifir þetta eins og að fara áratugi aftur í tímann þegar ekkert sjónvarp var í heilan mánuð yfir hásumarið.

Maður hlýtur að spyrja sig hvaða stöðu fótboltaáhugamenn hafa náð þegar ákvörðun er tekin um að fella niður eða færa alla reglulega dagskrá í sjónvarpi allra landsmanna til að rýma fyrir þessari íþróttakeppni. Til að nefna þrjá gríðarvinsæla dagskrárliði sem hafa orðið fórnarlömb keppninar ber fyrst að nefna fréttatímann sem er heilög stund hjá stórum hluta þjóðarinnar og í öðru lagi barnaefnið sem er heilög stund hjá yngstu deildinni. Í þriðja lagi nefni ég sápuóperuna Leiðarljós sem mörgum kann að finnast hallærislegt atriði en þátturinn virðist vera fastur punktur í tilveru fjölda fólks miðað við að aldrei berast jafn mörg símtöl inn til RÚV eins og þegar eitthvað bilar í útsendingu Leiðarljóss.

Á þessum krepputímum er líka vert að benda á að af þremur helstu sjónvarpsstöðvunum hérlendis (RÚV, Stöð tvö og Skjár einn) er aðeins ein stöð þar sem fólk hefur ekki val um að greiða áskriftargjald. Margir telja sig ekki hafa tök á að greiða áskrift að hinum stöðvunum og reiða sig því á RÚV um sjónvarpsefni.

Í þessari umræðu er oft bent á að þetta sé viðburður sem beri einungis upp á fjögurra ára fresti, geti fólk ekki bara slappað af og leyft fótboltaáhugafólki að eiga þennan mánuð. En það er reyndar ekki rétt. Jú HM er á fjögurra ára fresti en tveimur árum eftir HM kemur Evrópumeistaramótið sem er líka á fjögurra ára fresti. EM er annar íþróttaviðburður sem fær forgang fram yfir aðra dagskrá í sjónvarpi allra landsmanna. Þetta eru stærstu íþróttaviðburðirnir, þá eru ótaldar minni keppnir þar sem reglulegri dagskrá er þó líka hliðrað til.

Það má ekki gera lítið úr þeim miklu vinsældum sem þessi íþróttaviðburður hefur meðal fjölda fólks þó að annar eins fjöldi hafi engan áhuga. Það er því ekki bara eðlileg spurning heldur nauðsynleg, afhverju í ósköpunum RÚV leysir úr þessu á annan hátt en að velja einfaldlega annan hópinn til að gera til geðs. Hvort sem það er með sérstakri rás fyrir fótboltann eða að jafna dagskránna betur út þannig að það sé ekki bara fótboltaleikur – umræða – fótboltaleikur – umræða – samantekt – flottustu mörkin – dagskrárlok, eða eitthvað annað. Bara svo lengi sem það er hugvitsamlegri útkoma en það sem landsmönnum er boðið upp á í dag.

RÚV: Hættu þessum íþróttafasisma!

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.