Fótboltar, fasistar, kommúnistar og herforingjar

Þessi uppröðun er vegvísir að því hvernig best sé að byggja upp gott fótboltalandslið og einnig til að hjálpa til við að spá fyrir komandi keppni. Ljóst er að íslenskir fótboltaunnendur ættu að setja kommúníska og fasíska drauma sína á hilluna. Hægt er í langflestum tilfellum að sjá úrslitin fyrirfram ef litið er til pólitískra og efnahagslegra þátta ríkjanna sem keppa

Öll heimsbyggðin bíður þess í ofvæni að heimsmeistarakeppnin í fótbolta hefjist og erum við Íslendingar engin undantekning. RÚV ákvað að ráðstafa skattfé almennings í þessa veislu sem og svo margar aðrar, og fastir liðir eins og venjulega fylgja með. Í blöðunum eru þegar farnar að birtast nöldurgreinar sápuóperuunnenda sem þykir það argasta svívirða að trufla dagskrá sápuópera um ástsjúka unglækna og kynþyrsta vinkvennahópa. Einnig þurfa svo stjórnmálamenn og leikarar að læra nöfnin á helstu leikmönnunum fyrir „HM-stofu“ RÚV.

Því miður heldur hefðin líka áfram í þátttökuleysi Íslands á HM. Líkt og í öllum undankeppnum datt Ísland sannfærandi út og ekki laust við að herslumuninn hafi vantað. Þar sem við stöndum nú á krossgötum eftir „búsáhaldabyltinguna“ og reynum að byggja upp „nýja Ísland“ er nauðsynlegt að athuga hvaða stjórnarform „nýja Íslands“ er best til þess fallið að koma okkur á HM.

Franklin Foer, ritstjóri bandaríska tímaritsins „ The new Republic“ skrifaði merkilega grein fyrir HM í Þýskalandi 2006, þar sem hann fer yfir það stjórnarfar sem hafa reynst best í mótun knattspyrnuþjóða og er okkur nauðsynlegt innlegg í uppbyggingunni

Kommúnismi, þrátt fyrir gúlögin og hungursneyðarnar, hefur skilað úrvals fótboltaliðum og fótboltamönnum í gegnum tíðina. Í rauninni er árangur kommúnista þegar þeir keppa gegn kapítalistum mjög góður. 46 sigrar, 32 jafntefli og 40 töp. Þrátt fyrir þann góða árangur stingur það í augun að kommúnistar hafa aldrei sigrað HM. Þeir komast yfirleitt ekki lengra en í átta liða úrslit og það er varla árangur sem „nýja Ísland“ getur sætt sig við til langframa. Foer vill meina að ástæða þess liggi í „Lobanovsky vandamálinu“ en Lobanovsky var þjálfari Sovétríkjanna og trúði því að með vísindalegum hætti væri hægt að fullkomna leikinn, með því að plana hverja sókn og aðgerð fyrirfram. Líkt og Marxisminn fór með þegnanna, temur þetta sköpunargleði leikmanna og það er einmitt einstaklingsframtak snillinga líkt og Messi ,Gerrard og Baldurs Aðalsteinssonar sem þarf til að sigra mikilvægustu leikina.

Fasismi hefur þann mikla kost að geta barið upp mikið þjóðarstolt og trú um yfirburði eigin þjóðar. Með slíka vissu í brjóstinu, eykur það gríðarlega sjálfstraust fótboltamannsins inn á vellinum og svo auðvitað hræðslan við að tapa leiknum, en slíkar trakteríngar geta orðið hans banabiti. Þessi samblanda getur búið til heljarinnar fótboltalið sem berst til síðasta manns. Tölurnar tala líka sínu máli, Ítalía undir Mussolini vann tvo heimsmeistaratitla og Þýskaland og Brasílía lentu í þriðja sæti undir sínum fasistum.

Tölfræði fasismans á fjórða áratugnum er 14 sigrar, 3 jafntefli og 3 töp. Vandamálið er þó að eftir að öxulveldin féllu hefur árangur fasista hríðfallið. Spánn undir hæli Francos og Argentína undir Perón gekk skelfilega. Fasisminn er því eingöngu vænlegur til árangurs þegar þú ert rísandi afl í heiminum og einn aðalleikandinn. Þegar þú ert eingöngu fasisti sem þarf að hlýða Bandaríkjunum, gengur þetta illa.

Herforingjastjórnir eru mjög áhrifaríkar til þess að skapa gott fótboltalið. Brasílía og Argentína unnu sína fræknustu sigra undir slíkum stjórnum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. En þó fellur árangurinn þar sem ríki líkt og El Salvador og Parúgvæ draga meðaltalið niður.

Lýðræðislegt velferðarríki er langbesta stjórnarfyrirkomulagið til þess að byggja upp gott fótboltalandslið. Ástæða þess að mati Foer er að lýðræðisleg velferðarríki taka sér bólfestu í mjög iðnvæddum þjóðfélögum. Í rauninni hefur ekkert ríki sigrað HM sem ekki var með mjög sterka iðnaðarframleiðslu. Borgarmyndun eykur framboð af leikmönnum fyrir félagslið. Markaðshagkerfið leiðir af sér aukna hagsæld sem svo fjármagnar góðar fótboltadeildir og aðstæður fyrir leikmenn til að spila í hæsta gæðaflokki reglulega. Hugarfarið hjálpar einnig mikið til, en í lýðræðislegum velferðarríkjum er einstaklingurinn hvattur til að skara fram úr á meðan samkennd er einnig vegsömuð. Slíkt leiðir af sér samhent lið jafningja með pláss fyrir stórstjörnur.

Þessi uppröðun er vegvísir að því hvernig best sé að byggja upp gott fótboltalandslið og einnig til að hjálpa til við að spá fyrir komandi keppni. Ljóst er að íslenskir fótboltaunnendur ættu að setja kommúníska og fasíska drauma sína á hilluna. Hægt er í langflestum tilfellum að sjá úrslitin fyrirfram ef litið er til pólitískra og efnahagslegra þátta ríkjanna sem keppa. Fasisminn sigrar Kommúnismann, Herforingjastjórnin sigrar Fasismann og Lýðræðisleg velferðarríki sigra Herforingjastjórnina. Sjáið bara til, Brasilía mun sigra N-Kóreu þann 15. Júní n.k

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.