Fjárhættuspil á Íslandi?

Undanfarin ár hefur umræðan um fjárhættuspil á Íslandi aukist. Áhugi Íslendinga á pókerspili sem kallast Texas Holdem hefur aukist til muna. Fjölmargar verslanir selja póker töskur, fjölmörg pókermót hafa verið haldin hér á landi og íslenskar sjónvarpsstöðvar hafa keypt sýningarrétt af vinsælu póker sjónvarpsefni.

Undanfarin ár hefur umræðan um fjárhættuspil á Íslandi aukist. Áhugi Íslendinga á pókerspili sem kallast Texas Holdem hefur aukist til muna. Fjölmargar verslanir selja póker töskur, fjölmörg pókermót hafa verið haldin hér á landi og íslenskar sjónvarpsstöðvar hafa keypt sýningarrétt af vinsælu póker sjónvarpsefni.

Á meðan þessi þróun hefur verið að eiga sér stað hafa margir deilt um lögmæti þessara pókermóta. Lögregluþjónar hafa til að mynda gengið inn á mót og lokað þeim og notað þau rök að fjárhættuspil séu ólögleg á Íslandi.

Talsmenn þeirra sem vilja leyfa póker á Íslandi segja að pókermót séu ekki ólögleg frekar en önnur mót sem veiti verðlaun. Á pókermótum greiði þátttakendur tiltekið þátttökugjald. Allir fái síðan jafn marga spilapeninga og eigi að keppast um að sigra mótið. Þessi mót séu því sambærileg við hver önnur íþróttamót, til dæmis golfmót. Þar greiði þátttakendur sig inn á mótið og fá verðlaun í peningum ef þeim gengur vel.

Þrátt fyrir deilumál hvort hefðbundin pókermót hér á landi séu lögleg eða ólögleg er alveg víst að Íslendingar eru í stórum stíl að stunda önnur fjárhættuspil, sem samkvæmt íslenskum lögum eru ólögleg. Þetta geta þeir gert yfir internetið á fjölmörgum heimasíðum sem og í heimahúsum. Hver sem er getur skráð sig inn á heimsíður á borð við betsson.com eða pokerstars.com, lagt inn pening og byrjað að veðja um nánast hvað sem er. Þessar síður eru meira að segja farnar að auglýsa sig hjá íslenskum sjónvarpsstöðvum, því aðstandendur þeirra vita af áhuga Íslendinga.

Ýmsir hafa bent á þessa þróun og hefur nýlega komið upp í umræðunni tillaga um að opna Casino á Íslandi. Klárt mál er að eftirspurn yrði eftir slíku hjá Íslendingum, enda eru þeir þegar í stórum stíl farnir að stunda fjárhættuspil, sem í fljótu bragði virðist vera lítið hægt að gera til að stöðva. Þá má einnig áætla að mikill fjöldi erlendra ferðamanna myndi nýta sér þessa þjónustu sem kæmu til Íslands.

Áhugavert er að kanna kosti og galla þess að opna Casino hér á landi. Stór hluti af þeirri starfsemi sem nú er ekki á yfirborðinu kæmist á yfirborðið og þeir glæpir og vandamál sem fylgja neðanjarðarstarfsemi væru í minna magni. Þá myndu einnig fleiri ný störf skapast fyrir þá sem vinna í iðnaðinum og geirum tengdum honum.

Fjölmörg vandamál fylgja þó aukinni notkun fjárhættaspila hér á landi. Áætla má að fleiri myndu stunda fjárhættuspil ef að Casino væri leyft hér á landi. Fleiri myndu verða að áhættusæknum fíklum sem leiðir af sér aukna áfengis- og vímuefnanotkun, almenna glæpi og sjálfsvíg.
Það má þó ekki gleyma því að með allri vöru og þjónustu fylgja kostir og gallar. Jafnvel þó að gallarnir séu fleiri er það ekki hlutverk ríkisins að banna slíkar vörur. Ef það væri hlutverk ríkisins myndum við ekki fá tóbak, sykraðar vörur, áfengi, né allt annað sem væri þjóðhagslega óhagkvæmt.

Viljum við það?

Latest posts by Kristján Freyr Kristjánsson (see all)