Þvílík sóun

Það er ekki oft sem ég rekst á ríkisútgjöld sem mér finnst algjör sóun og finn ekki nokkra mögulega réttlætingu á. Tugþúsunda ávísunin sem ég fékk senda í pósti frá ríkissjóði um daginn hlýtur þó að falla í þann flokk.

Það er ekki oft sem ég rekst á ríkisútgjöld sem mér finnst algjör sóun og finn ekki nokkra mögulega réttlætingu á. Tugþúsunda ávísunin sem ég fékk senda í pósti frá ríkissjóði um daginn hlýtur þó að falla í þann flokk.

Þá komst ég að því að ríkið greiðir mér skaðabætur fyrir að hafa orðið mestu mögulegu gæfu aðnjótandi, að eignast barn. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum telur ríkissjóður nauðsynlegt að bæta mér þetta upp með því að greiða mér meira en 100 þúsund krónur í ár.

Í fyrsta lagi má spyrja hvers vegna sé yfirhöfuð verið að greiða barnabætur? Væri ekki nær að lágtekjufólk nyti slíks í gegnum lægri skatta og einfaldara skattkerfi? Sé það hins vegar slík lífsnauðsyn að greiða fólki bætur fyrir að eignast börn má spyrja hvers vegna í ósköpunum slíkt sé ekki að fullu tekjutengt?

Nokkur dæmi úr reiknivél ríkisskattstjóra um útreikning á barnabótum: Hjón með mánaðartekjur upp á 1.250.000, 3 börn og 2 undir 7 ára fá skaðabætur fyrir þau örlög upp á rúmar 122 þúsund krónur ár ári. Einstætt foreldri með eitt barn og 500.000 í tekjur á mánuði er á bótum frá ríkinu upp á 231 þúsund krónur á ári, sama foreldri með 2 börn undir 7 ára aldri fær bætur frá ríkinu upp á 426 þúsund krónur á ári. Svo velta menn því fyrir sér af hverju hér sé mikið af einstæðum foreldrum.

Ég hef ekki forsendurnar til að reikna út hversu mikill sparnaður það væri fyrir ríkissjóð að sleppa barnabótum alfarið eða að tengja þær að fullu við lágar tekjur. En óháð því hvort hér sé um verulegar upphæðir að ræða eða ekki, þá er þetta grundvallarmál að ríkið sé ekki að greiða fullfrískum og færum einstaklingum bætur fyrir það að eignast börn. Það væri nær að greiða þeim sem ekki eru svo lánsamir tjónsbætur.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.